Fyrirsjáanleg leiðindi

Fagurt veður til hlaupa í dag, logn, heiðskírt, hiti um 8 stig - en fór fyrirsjáanlega fallandi vegna þess að það voru ekki ský á himni. Mikill fjöldi hlaupara mættur og verða engir nefndir, það tæki of langan tíma. Sjónvarpsvélar víðs fjarri og því létu ónefndir sig vanta. Þjálfari var ekki ginnkeyptur fyrir löngu hlaupi í dag þrátt fyrir að það væri miðvikudagur og hefð fyrir löngu þá. Mælti með 16-17 í mesta lagi - tengdist e.t.v. eitthvað maraþoninu í Berlín. ´

Ágúst ætlaði að fara langt og syngja "Þrjú tonn af sandi" alla leiðina. Aðrir vildu fara skemmra, en ritari var ekki fráhverfur því að fara á gamalkunnar slóðir í Elliðaárdal. Lagt í hann eftir hefðbundnar kýtur á Brottfararplani. Flosi tók forystuna fljótlega í hlaupi og skildi aðra eftir, menn áttu ekki gott með að skilja hvaðan þessi kraftur og hraði væri kominn. Aðrir rólegir. Í raun var það ánægjulegt að við skyldum halda hópinn alla leið inn að Kringlumýrarbraut. Hér héldu Flosi, Benedikt, Ágúst og ritari áfram auk Unu. Aðrir hafa líklega farið Suðurhlíðar. Mættum Laugahópi í Fossvogi og í honum miðjum bróður okkar Flosa, Þorvaldi. Við Víkingsvöll viku þeir Flosi og Benedikt af leið og fóru líklega 69 - en við Ágúst fórum inn í Kópavog, upp brekkuna Yndislegu. Framhjá Goldfinger, prófessorinn athugaði dyrnar til öryggis, en enn og aftur var læst.

Svo var bara haldið áfram hefðbundið í Breiðholtið og upp að Stíbblu. Þar hélt Ágúst áfram og kvaðst ætla kringum Elliðavatn. Það sem mælti gegn þessum áformum var einkum tvennt: við vorum að nálgast snjólínu og það var orðið nokkuð kalt. Myrkur var að skella á og lýsing við Elliðavatn er af skornum skammti. Þar eru stígar með steinnibbum upp úr skógarbotninum og prófessorinn er þekktur fyrir að lyfta ekki fótum mjög hátt á hlaupi, þekktur raunar að því að reka tærnar í og taka flugið. Þegar steinnibbur og myrkur fara saman - ja, þá kann það ekki góðri lukku að stýra. Ég óttaðist að hann myndi ekki skila sér til byggða aftur. Fór sjálfur yfir Stíbblu og stytztu leið tilbaka.

Ólíkt því sem var í sumar hafði ég enga ánægju af þessu langa hlaupi. Það var kalt í efri byggðum og ég andaði að mér köldu lofti sem fór illa í lungun á mér. Ég var einn, hafði ekki félagsskap af skemmtilegu fólki. Ég var þungur á mér, mikið klæddur og nennti ekki að standa í þessu. Þegar komið var í Fossvoginn aftur var ég eiginlega ekki að nenna þessu. Skollið á niðamyrkur og maður átti á hættu að hlaupa niður gangandi vegfarendur í dalnum. Þraukaði þó og lauk hlaupi sem var með eindæmum leiðinlegt. Hefði betur farið að tilmælum þjálfara að fara styttra, maður er einfaldlega ekki búinn að jafna sig nóg eftir maraþon til þess að fara svona langar leiðir. Svo er alltaf þyngra að hlaupa í fullum herklæðum.

Það voru náttúrlega allir félagar farnir þegar maður kom tilbaka. Hitti þó Bjarna í útiklefa. Hann sagði mér skemmtilega anekdótu: Þorvaldur hafði lánað Birni jakka að hlaupa í. Björn gerðist sekur um vanskil eftir hlaup. Þorvaldur kom í útiklefa og horfði (að sögn Bjarna) tryllingslega í kringum sig: "Hvar er Björn?" Bjarni benti á töskuna hans og sagði: "Ja, dótið hans er alla vega hér." Þá öskraði Þorvaldur: "Er mannhelvítið búinn að troða jakkanum mínum niður í hlaupatöskuna sína!" Æddi út þeygi kátur.

Hvað er framunda? Meiri kvöl.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband