Á sunnudagsmorgni

Ritari á ný mættur til starfa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins í hlaupi morgunsins og hitti fyrir félaga sína Ólaf Þorsteinsson, Þorvald Einar blómasala og Birgi. Veður fer kólnandi og nú eru menn farnir að hafa fataskipti inni og farnir að klæðast vetrarfatnaði. Norðanátt ríkjandi en þó ekki til ama. Eins og við var að búast var efnahagsástandið aðalumræðuefnið og var þungt hljóð í  mönnum. Lýst eftir Vilhjálmi sem ekki hefur sést lengi að hlaupum - ÓÞ heyrði síðast í honum á föstudag.

Á leiðinni inn Sólraunarbraut reyndi ég að leiða talið að hlaupum og öðru uppbyggilegu - en menn féllu jafnóðum í sama barlóminn og svartsýnisrausið. Staldrað við í Nauthólsvík og beðið eftir Ólafi Þorsteinssyni, sem var venju fremur hægur í dag. Til þess að lífga upp á sellskapið var ákveðið að óska eftir klámsögu. Eina klámið sem ÓÞ datt í hug var nýleg skilnaðarsaga.. Þótti heldur rýrt. Hlaupið framhjá HR sem sumir viðstaddra töldu að myndi fljótlega sameinast HÍ með meðfylgjandi gráti og gnístran tanna. Haldið áfram á hægu tempói, inn í kirkjugarðinn sem þótti afar vðeigandi viðkomustaður á þessum tímum. Kíktum á eitt nýlegt leiði, en könnuðumst ekki við viðkomandi. Áfram hefðbundið um Veðurstofuhálendi og þannig áfram. Hér fór einhver að segja frá leikhúsför, stykkið var Fýsn, merkilegt verk og skemmtilegt - en þunglyndislegt í aðra röndina. Ekki verður hann skafinn af okkur, menningarbragurinn, alltaf er gefandi fyrir andann að hlaupa í þessum hópi.

Við biðum eftir ÓÞ á Rauðarárstígnum, sem undirstrikar enn og aftur samstöðuna í hópnum: hér er enginn skilinn eftir. Það var ákveðið að fara Laugaveginn vegna ríkjandi norðanáttar og vegna þess að við vildum sjá hann eins og við munum aldrei sjá hann aftur. Veröld sem var. Við bentum á öll fyrirtækin sem við töldum að myndu rúlla á næstu vikum og mánuðum. Birgir, sem er mikill frumkvöðull og hugsuður, kom fram með nýja viðskiptahugmynd sem hægt væri að finna stað í verzlunarhúsnæði blómasalans og hann geta lagt til súlur, sklirúm, rúm frá ameríska hernum og Birgir og ritari myndu leggja til hugvit, verkvit og handverk. Starfsemi af þessu tagi gæti orðið mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í landinu.

Fáir á ferli á Laugavegi og í miðbæ, enda veður ekki þesslegt að bjóði til mikillar útiveru. Tíðindalítið eftir þetta, lengd hlaups á að gizka 11 km. Pottur vel mannaður: dr. Einar Gunnar, dr. Baldur Sím., Jörundur kominn af 69 hlaupi með Pétri Reimarss., Helga og Stefán, svo komu dr. Jóhanna og Helmut óhlaupin. Setið fram undir eitt og rætt margt gáfulegt. Jörundur með áhyggjur af því að Lúpínuandstæðingafélagið fylltist af Sjálfstæðismönnum, þeir væru orðnir honum sammála í pólitík.

Nú gildir ekkert annað en halda ótrauður áfram og því verður hlaupið á morgun kl. 17:30 - við höldum okkar striki hvað sem á dynur. Það kostar ekkert að hlaupa og fylla sig af súrefni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband