Hlaupið í Berlín - eintóm hamingja!

Hér verður í fáeinum orðum sagt frá frækilegri för félaga Hlaupasamtaka Lýðveldisins til Berlínar, þar sem þeir þreyttu Berlínarmaraþon sunnudaginn 28. september 2008. Af mörgu er að taka, en þó verður aðeins stiklað á hinu helzta. Flestir héldu af landi brott föstudaginn 26. sept. kl. 15:30 með flugi Icelandexpress beint til Berlínar. Hleðsla hafði staðið yfir frá fimmtudegi og menn þjóruðu Carboload drykki á flugvellinum. Sumum var þegar farið að verða bumbult. Mikill hugur í fólki, Björn allur að koma til. Skrá með öllum Íslendingum sem hlupu í Berllín og tímum þeirra er viðfest þessari frásögn.

Ritari sat með þeim feðgum blómasalanum og Ólafi syni hans. Þegar vélin var komin í loftið dró ég upp öskju með pastasalati af beztu gerð og hóf að háma í mig. Upplitið á blómasalanum! "Þú ert verri en ég! Myndavél, myndavél!" - en hann var lokaður inni og myndavélin uppi í hólfi, svo að ég slapp við myndatöku. Blómasalinn var hins vegar duglegur að smella af alla ferðina og koma þær myndir vonandi fljótlega hér inn á blogg.

Við lentum heilu og höldnu í Berlín eftir þriggja tíma þægilegt og tíðindalaust flug. Treystum algjörlega á Helmut að koma okkur inn í borgina og reyndist hann hinn ágætasti leiðsögumaður. En vegna framkvæmda þurftum við óvænt að skipta um lest á leiðinni og fengum um leið nasasjón af næturlífi Berlínarbúa á föstudagskvöldi. Komum á hótelið, sem var í húsi frá um 1900. Svo var steðjað á fínan pastastað, Vapiano, sem er með mjög nýstárlegu sniði. Maður fær afhent kort og fer á milli, pantar pasta hér með sósu að eigin vali og allt eldað fyrir framan mann, fer svo á annað borð og pantar drykk. Og þegar upp er staðið fer maður með kortið og greiðir fyrir það sem neytt hefur verið. (Blómasalinn "gleymdi" að skila sínu Vapiano-korti.)

Á laugardeginum var vaknað snemma, um 9:00, etinn árbítur sem var vel útilátinn og álitlegur - en að mestu haldið sig við efni sem henta hlaupurum. Svo tókum við lestina út að Paulsternsstrasse og gengum þaðan, eða fylgdum mannfjöldanum, sem gekk aðeins í eina átt - Berlin Vital, þar sem menn sækja skráningargögn. Þetta var aðeins stærra en að sækja gögn í Laugardalshöllina, rúmlega 40 þús. manns, mikill hiti og mikil mannþröng. Maður elti fólkið og komst á endanum í 16 þús. fm. húsnæði með skráningaraðstöðu, sölu- og upplýsingabásum, m.a. um ýmis önnur maraþon. Ritari fór upp á aðra hæð, sótti pakkann sinn, fékk upplýsingar um að bolinn mætti sækja niðri og flöguna með því að halda áfram. Ég sá mynd af flögu við endann á ganginum, fór þangað og þar var strikamerkið á skráningargögnum skannað saman við flöguna - "Kristjánsson" sagði maðurinn. "Richtig!" sagði ég, harðla stoltur. Fór svo niður og náði í bolinn.

Þeir hefðu átt að hlæja meira að Þorvaldi
Á svæðinu var gríðarlegur fjöldi fólks, veitingar út um allt, kúbönsk hljómsveit lék suður-ameríska tónlist. Og verzlunarbásar út um allt, með dýrum varningi - ekkert sem beinlínis heillaði. Auðvelt var að týna mannskapnum og svo fór og höfðu menn samband um SMS til þess að eiga samleið tilbaka á hótel. Ferðin tók einar fjórar klukkustundir - þannig að það var gott að fara að hvíla sig eftir hádegið. Svo var mætt í móttöku kl. sex síðdegis í hlaupafatnaði og farið út í létt skokk. Helmut var búinn að finna létta leið og fórum við hana á hægu og þægilegu tempói, allir fundu að þeir voru tilbúnir í átökin daginn eftir. Á leiðinni týndust Rúna, blómasalinn og Birgir. En þar sem við stóðum við hótelið og teygðum komu téðir hlauparar fyrir hornið með óskilgreindan angistarsvip á andliti og Birgir sagði: "Það er komið upp ástand." Ástand? sagði einhver, hvaða ástand? "Jú," sagði Birgir - "þar sem við hlupum, ég, blómasalinn og Rúna, sagði ég: það verður skrýtið að hlaupa án flögu á morgun." Rúna brást ósennilega við og spurði af hverju þeir ætluðu að hlaupa án flögu - en þeir urðu bara forviða og sögðu: við fengum enga flögu - það var engin flaga í pakkanum! Ekki veit ritari hvort Rúna útskýrði fyrir þeim með flöguna - en það voru orð að sönnu: þetta var ástand! Klukkan orðin 18:00 og skrifstofa hlaupsins búin að loka. Paníkk!

Helmut tók stjórnina hér, pantaði leigubíl og það var ekið í hendingskasti til Berlin Vital og allt lamið utan í þeirri von að finna mætti einhvern sem gæti leiðrétt hið óheppilega ástand. Á endanum fannst einhver manneskja sem vildi skoða málið, útvegaði flögur og sagði að þær yrðu skráðar um nóttina. Fyrir vikið frestaðist kvöldverður hjá flestum, ritari fór einn út og át pasta á litlum stað - aðrir munu hafa gert eitthvað svipað. Svo var farið í koju. Stóri dagurinn framundan.

Þáttur af Irmu
Ólafur Adólfsson kom með þeim Rúnu og Friðrik. Hann ætlaði að freista þess að fá sig skráðan í stað Irmu, sem er kærasta hans. Hún hafði skráð sig til hlaups en hætt við. Hann var með vegabréfið hennar meðferðis. Allir viðstaddir sögðu að það yrðu allnokkur tormerki á því að breyta skráningunni, Þjóðverjar væru svo formfastir. Hann yrði líklega handtekinn fyrir að vera með vegabréf annarrar manneskju og ákærður fyrir mansal. Ólafur var hvergi banginn og fór bara brattur á Vital. Hann var búinn að kokka upp einhverja makalausa lygasögu um að Irma hefði ruglast við skráninguna og sett sjálfa sig í stað Ólafs. Sagan rann ljúflega ofan í starfsfólkið á Vital og Ólafur gekk út fyrstur manna með öll sín gögn án þess að hafa þurft að sýna vegabréf Irmu.

Þeir Frikki fóru svo bara á fótboltaleik, Hertha Berlin vs. Energie Cottbus, sem lauk með sigri Cottbus, en það lið vermir neðsta sætið í Bundesligunni. Þeir lýstu mikilli stemmningu á leiknum og voru ánægðir er þeir gengu út. Á leiðinni spurði Frikki: Óli, hvar eru gögnin þín? Hafði hann þá gleymt öllu inni á áhorfendasvæðinu, þ.m.t. vegabréfi Irmu.

Hlaupið
Svefn er mikilvægur fyrir hlaup. Ég held að flestir hafi sofið ágætlega, en það þurfti að vakna um kl. 6 til þess að fara í morgunverð, því meiningin var að fara á lestarstöðina kl. 7. Eiríkur svaf yfir sig og var ræstur með miklum látum. Tókum lestina frá Zoologischer Garten til Hauptbahnhof - aragrúi fólks á ferð, allir á leið í haupið. Það var heilmikið fyrirtæki að koma sér inn á svæðið, losa sig við yfirhafnir, og koma sér á réttan stað í hlaupinu. Kamrar út um allt og ákveðið að skella sér á dolluna. Við blómasalinn stilltum okkur upp í biðröð, en höfðum áhyggjur af að við myndum ekki ná. Sáum Benna brosmilda álengdar og kölluðum á hann, báðum hann að þurrka brosið af andlitinu. Svo þegar til átti að taka var enginn toilettpappír á mínum kamri og ég lét mér nægja að tæma sokkinn. Fór út og hleypti næsta manni inn. Sá hafði greinilega einhverjar ranghugmyndir um kamra því að hann kom óðara út og kúgaðist af því sem hann hafði séð og fundið á kamrinum, settist á hækjur og var fráleitt undir það búinn að hlaup 42 km - almennur hlátur í nágrenninu.

Svo var bara að koma sér í hólfið sitt. Við Einar vorum flokkaðir með eymingjum, settir í H-Block. Ég fræddi Einar á því að H-Block hafi verið eitthvert alræmdasta fangelsi frelsiselskandi frænda okkar á N-Írlandi hér á árum áður. Þetta reyndist raunsönn lýsing á þrönginni sem beið okkar í upphafi hlaups, þetta var eins og fangelsi, svo þétt var þröngin að maður hljóp ekki fyrstu 10 km - það var lullað. En stemmningin var yfirgengileg, það var klappað og sungið og fólk frá yfir 100 þjóðlöndum saman komið í einum tilgangi: þreyta hlaup saman og hafa gaman af.

Veður var með miklum ágætum, 16 stiga hiti, lítilll vindur og bjart yfir. Við blómasalinn áttum samleið fyrstu 10 km og vorum allan tímann að mjaka okkur framar í þrönginni, sem mér fannst á endanum óskynsamlegt því það tók of mikla orku frá manni. Danskir fánar voru afar áberandi við hliðarlínuna og hvatningaróp á dönsku, m.a.s. sáust grænlenzkir fánar, en fáir íslenzkir. Við rákumst á Sigurð Gunnsteinsson sem skeiðaði hlaupið af léttleik og krafti, en sáum ekki til Haile eða Jörundar. Eftir 10 km leyfði ég blómasalanum að halda áfram að fara fram úr en ákvað sjálfur að slaka á og vera á tempói sem hentaði mér - virtist það skynsamlegt þegar upp var staðið.

Ich bin ein Berliner
Þúsundir Berlínarbúa hvöttu hlaupara nánast alla leiðina og má heita að hliðarlínan hafi verið ein óslitin röð fagnandi fólks og tónlistaratriða. Aftur og aftur fann maður fögnuðinn og kraftinn streyma um sig og niður í fætur, þar með eflandi þrek og þrótt og löngun til þess að standa sig vel. Ýmislegt bar fyrir augu á leiðinni, einn hlaupari hljóp berfættur, það voru blindir hlauparar með leiðsögufólk (dr. Jóhanna misskildi þetta eitthvað og hneykslaðist á fólki sem var að binda sig saman!), svo voru sumir sem gengu eða voru á hjólastólum. Einnig bar fyrir augu hlaupara í skondnum búningum, svo sem úr Axterix. Loks kom að því að íslenzkur fáni sást á lofti borinn uppi af sjálfum sendiherranum, Ólafi Davíðssyni.

Vegna þess hversu skynsamlega ég hljóp fyrri hlutann gerðist það í fyrsta skipti í maraþonhlaupi hjá mér að ég gat hlaupið alla leiðina án þess að þurfa að stoppa. Ég fékk mér alltaf vel að drekka og dældi í mig orkugeli og fann þar af leiðandi aldrei fyrir "múrnum" - tíndi inn hvern kílómetrann á fætur öðrum án þess að finna fyrir þreytu eða orkuskorti. Kom á rífandi ferð inn á Unter den Linden og tók glæsilegan lokasprett og átti nóg inni. Leið bara vel eftir hlaup, en sá að öðru gegndi um félaga mína, sem höfðu flestir farið á betri tíma en ég. Sumum leið beinlínis illa og á ég bágt með að sjá hvað er unnið með því að pína sig svo að maður er alveg í rusli á eftir. Hvað um það, við hittumst á Reunion-svæðinu og bárum saman bækur okkar. Óljóst var hvort Birgir og blómasalinn fengju tímann gefinn upp út af flöguveseninu, en það mun hafa rætzt úr því. Allir luku hlaupi og var það eitt og sér sérstakt ánægjuefni.

Farið heim á hótel og hvílt. Um kvöldið var farið á veitingastaðinn Max og Moritz og etinn hefðbundinn þýzkur matur og drukkinn bjór með. Það var fagnaðarefni að geta loks sleppt bannsettu pastanu og leyft sér sukk í mat og drykk.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Takk fyrir pistilinn !

Kári Harðarson, 1.10.2008 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband