Hlaupið með storminn í fangið - fæddur nýr öskurapi

Það leit illa út með þátttöku í hlaupi dagsins, ritari sat lengi einn í Brottfararsal, og útlit fyrir að hann færi aleinn út að hlaupa í dag. Það rifjaðist upp hlutskipti hins einmana hlaupara, einsemdin og allt það. Þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í hálfsex fóru hlauparar að streyma að, fyrstur próf. Fróði, svo dr. Friðrik, og svo hver á fætur öðrum. Mæting allgóð þegar upp var staðið. Ég get svarið það að þjálfarinn er orðinn álíka önugur og Vilhjálmur Bjarnason, hann er alltaf jafn vantrúaður á okkur í upphafi hlaups, vantreystir okkur og telur ósennilegt að nokkur maður muni fara að ráðleggingum hans í hlaupinu. Hvað um það, hvass hópur bara brattur í hávaðaroki.

Á Ægisíðu fengum við storminn í fangið og próf. Fróði sagði: "Þetta er yndislegt!" Menn áttu greinilega í mestu erfiðleikum með að berjast gegn óveðrinu, því að ólíklegustu aðilar fóru fyrir hópnum á hröðu tempói. Stefnan sett á Öskjuhlíð þar sem ætlunin var að taka brekkuspretti. Á leiðinni uppgötvaðist að fleiri geta haft hátt en Birgir: nýr öskurapi fundinn, mágurinn Eiríkur sem virðist vera illilega smitaður af of miklum samvistum við venzlamanninn. Hann gapaði eitthvað um markaði, afkomur, peninga, bla bla bla - ég gaf í og smásaman hvarf vaðallinn eyrum mínum.

Farið upp í Öskjuhlíð og dokað við fyrir ofan Hi-Lux. Safnast saman og svo teknir léttir sprettir 100 m upp brekkuna. Þjálfarinn talaði um að við ættum að "líða" upp brekkuna. Birgir var snöggur sem meistari orðhengilsháttarins og spurði: líða áfram eða líða illa? Já þið getið haft það eftir ykkar höfði, sagði þjálfarinn, og klappaði Birgi á ... kollinn. Þið hafið það jafnan þannig (eitt dæmið um önuglyndið, brjóta hárlitla menn niður á veikleikum þeirra). Það var gaman að spretta úr spori þarna í brekkunni í Öskjuhlíð, við tókum eftir ferðum manna sem virtust ekki vera komnir í útivistarlegum tilgangi, miðaldra skeggjaðir menn á Volvo. Það bættist í hópinn þegar við vorum þarna í brekkunni, blómasalinn, Hjálmar og Ósk náðu okkur og áttu góðar rispur.

Eftir sprettina var farið á rólegu tempói tilbaka um skógarstíga og svo hjá Gvuðsmönnum og tilbaka þá leið stytztu leið tilbaka. Margt skemmtilegt í boði við Laug og í potti. Upplýst að upplýsingarfundur Berlínarfara verður haldinn eftir hlaup mánudaginn næstkomandi í safnaðarheimili Neskirkju, þar sem við förum yfir praktískt atriði varðandi hlaupið. Ennfremur mættur í pott próf. dr. poeta Skerjafjardensis. Hann kunni að segja af "munnstórum" hlaupara sem hann mundi ekki nafnið á, en hljóp með ungri kvinnu. Þetta hljómaði næstum eins og vísbendingaspurning, en við stóðum á gati, komum þessum hlaupara engan veginn fyrir okkur. Nema hvað, skáldið gagnrýndi hlauparana fyrir að vera að masa meðan á hlaupi stóð. "Ha!" sagði hlauparinn, "þetta sýnir bara hvað við erum í góðu formi, að geta bæði hlaupið og talað samtímis! - og varpaðu fram stöku um það, skáld!" Varð þá skáldi á orði:

Hlaupararnir halda af stað,
hyggjast minnka spikið.
Auðveldlega efnist* það
ef þeir tala mikið.

(*Fyrirvari um misminni.)

Mættur í pott Björn Nagli, meiddur en í margfaldri meðferð, með sjúkraþjálfurum, naglastingurum og lyfjakokkteilblöndurum. Bjartsýnn á þátttöku í Berlín. Rætt um veitingastaði og almenna þátttöku. Næst hlaupið á morgun (fyrir suma) - hefðbundið hlaup n.k. föstudag á hefðbundnum tíma. Huga þarf að hlaupara september-mánaðar. Hver kemur til greina? Leggjum höfuðin í bleyti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

gæti það verið?

*ekki reynist erfitt það

Jóhanna (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband