Hinsegin dagur - hlauparar í þröngum sokkabuxum

Svo einbeittir voru menn að þreyta lukkað langhlaup á þessum miðvikudegi, hefð samkvæmt, að það gleymdist að færa handboltaleikinn við Þýzkaland í tal við Helmut. Seinna í hlaupinu bölvuðum við sumir yfir því að hafa misst af góðri spælingu. Aldrei þessu vant hafði þjálfari undirbúið stutta tölu og flutti hana sköruglega, og var aðeins truflaður af Sæma löggu, sem hvatti menn til þess að hlaupa í endurskinsfatnaði. M.a.s. Biggi hélt kjafti. Lagðar línur um langt, 26 km fyrir þá er lengst færu, taka maraþonhraða eftir 90 mín og halda honum í 5 km. En byrja hægt. Menn hlýddu andaktugir á boðskapinn, og voru þessir mættir: Flosi, Þorvaldur, dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Helmut, Kári, Einar blómasali, Birgir, Björn kokkur, Kalli kokkur og sonur, báðir þjálfarar, Eiríkur, Benedikt, Denni og ritari. Seytján manns frá byrjun og ein kona sem mig vantar nafnið á og svo skilst mér að Ósk hafi bætzt í hópinn í Kópavogi.

Menn áttu að fara á hægu tempói út og halda því í 90 mín. - ca. 5:30. Þetta stóðst nokkurn veginn, en nánast frá byrjun fóru menn að hnappa sig saman og slíta hópinn í sundur. Fremstir þjálfarar og Benedikt og Eiríkur. Svo við Björn, Einar og Birgir. Þar fyrir aftan hitt fólkið og segir meira af því síðar. Sagt frá frækilegu Kópavogssundi þeirra Björns og Bigga í gær, synt frá Nauthólsvík og yfir í ríki Gunnars Birgissonar og tilbaka aftur. Þegar Biggi skjögraði veikum fótum upp á land grenjaði Bjössi yfir alla ströndina: Biggi! Þú ert Nagli! Bigga hlýnaði um hjartarætur og lét þau orð um munn sér fara síðar að loksins ætti hann vin sem hefði eitthvert álit á honum og hvatti hann áfram undanbragðalaust. 

Nú var spurning hvaða leið skyldi fara: Kársnes og þá rangala eða eitthvað hefðbundið. Niðurstaðan fyrir minn hóp var hefðbundið um Fossvog, Goldfinger og upp að Árbæjarlaug. Við vorum í fantaformi og fórum létt með brekkur og torfærur. Stöldruðum við hjá Stíbblu og biðum eftir blómasalanum og Bigga. Svo var gefið í og tekinn þéttingur upp að Laug, tempó 4:30. Slakað á við Laug og bætt á brúsa. Það var kalt þar efra og sannarlega ekki vanþörf á að fara að klæða sig í síðermaboli nú þegar haustar. Biggi var að venju í overkill fíling: svartar, síðar sokkabuxur, balaklava og síðermatreyja. Honum kólnaði ekki. Svo var tekinn annar þéttingur niður að Stíbblu hinum megin. Svo á rólegu tempói niður brekku hjá Rafstöðvarheimili og Rafstöð og yfir Elliðaárnar.

Miklabraut og Laugardalur. Ekki var slegið af tempói og kom í ljós við athugun eftir hlaup að meðaltempó hefði verið 5:20. Farið hefðbundið niður á Sæbraut og þar var síðasti þéttingurinn tekinn, 2 km á góðum spretti.  Við komum nokkuð jafnt til Laugar og höfðum þá farið rúma 24 km, aðeins styttra en þjálfari lagði til, en nokkuð hraðar. Menn voru sammála um að Biggi væri Nagli. Við hittum fljótlega Flosa, sem fór sömu vegalengd, en aðra leið, um Kársnes, Lækjarhjalla og þannig áfram; Kára og Denna sem fóru 22 km, og þegar við fórum upp úr lá dr. Jóhanna úti í glugga og hafði farið 28 km. Menn voru mjög sáttir með daginn, einkum í ljósi þess að sumir höfðu ekki sofið nema 3-4 tíma nóttina áður vegna Ólympíuleikanna sem sýnt er frá á nóttunni.

Þjálfari upplýsti að laugardaginn 6. september kl. 9:00 verði hlaupið 35 km hlaup til undirbúnings Berlín. Kom sú hugmynd fram að gaman væri að fara góða leið og eru félagar beðnir að leggja höfuð í bleyti og leggja drög að fjölbreyttri og fallegri hlaupaleið, t.d. suður í Hafnarfjörð og austur úr um hraun og dali. Eftir á mætti slá upp einfaldri næringarinntöku á heppilegum stað. Eina sem truflar er að 5. september er Fyrsti Föstudagur með sushi í boði blómasalans.

Hlaupið er n.k. föstudag, sem er Fyrsti Föstudagur í ágúst og er haldið upp á hann á veglegan hátt með fiskiveizlu í garði Bigga Jóga, og fiskisúpu að hætti Dalvíkinga. Vel mætt! Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Helmut fór 28,4 km … bugaður af sorg vegna stórtaps síns "Vaterland"

í Handbolta á Ólympíuleikunum í Beijing æddi hann inn í land Gunnars hins dimmraddaða

Birgissonar og allaleið upp fyrir Árbæjarlaug. Seigjiði svo að sorgin geti ekki verið til góðs.

Eine sehr gute laufe mein freund! Auf Freitag sehen und essen!

Big

Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband