8.8.2008 | 21:43
Ástin ríkir ofar hverri kröfu - Gay Pride framundan
Hér segir frá hlaupi í elzta og virðulegasta hlaupahópi landsins, Hlaupasamtökum Lýðveldisins, föstudaginn 8. ágúst 2008. Dagurinn einstakur til hlaupa og mæting eftir því. Þegar ritari kom í útiklefa blasti við honum sjálfur Gunnlaugur Pétur Nielsen af Bostonfrægð. Einnig viðstaddur bróðir ritara, próf. dr. Flúss, konrektor til Vestbyens Ungdomsakademi Hagatorgensis. Við skiptumst á gamanyrðum og ræddum ýmsa einkennilega karaktéra sem við höfum kynnst í gegnum morgunpott eða síðdegishlaup. Um stund örvæntum við um þátttöku í hlaupi dagsins, en svo birtust þeir hver af öðrum, Helmut, Kári, Birgir og Einar blómasali. Í Brottfararsal voru mættar dr. Jóhanna og dr. Anna Birna. Við söknuðum vina í stað, einbeittra hlaupara, sem láta sig ekki vanta þegar góð hlaup eru í boði, engin nöfn verða nefnd hér.
Veðurblíða einstök og gerist ekki betra veður til hlaupa en í dag. Skýjað, logn og hiti um 12 gráður. Samstaða um að eiga kyrrlátt og hægt hlaup saman. Margir óhlaupnir hlauparar sem þörfnuðust hlaupareynslu, svo sem eins og blómasalinn, Helmut og dr. Jóhanna, tvö síðastnefnd nýkomin frá Toronto í Kanada. Aðrir með góða reynslu eins og Biggi og ritari, með um 30 km á góðu stími frá s.l. miðvikudegi. Menn höfðu áhyggjur af Birgi og hans nýjustu áhugamálum, var nýbúinn að uppgötva mann sem hann sagði að héti Mengele og hefði bjargað dvergum í Þýzkalandi nazismans frá útrýmingu. Lýsti hann afreki þessu í smáatriðum, en menn voru ekki vissir hvort hann hefði ætlað að bjarga þeim eða ætlað að gera tilraunir á þeim. Birgir var þess fullviss að þetta væri mannvinur sem hefði platað foringjann og bjargað dvergunum. Þess vegna væru til dvergar í Þýzkalandi nútímans.
Helmuti leiddist masið í Birgi og spurði hvort menn þyrftu að sitja undir svona vitleysu alla leiðina. Líklega hefur það verið um þetta leyti sem fór að draga sundur með fólki. Gunnlaugur og blómasalinn fóru fremstir og héldu uppi hraða, á eftir komu Helmut, ritari, dr. Jóhanna og Flosi, Kári og Birgir en þeir drógust fljótlega aftur úr. Það var derringur í blómasalanum og hann vildi, óhlaupinn maðurinn, sýna að það væri eitthvert púður í honum. Það er náttúrlega lítið mál fyrir menn sem aldrei mæta til hlaupa að spretta úr spori meðal manna sem fara 29 km á 5:14 meðaltempói og hreykja sér af því. En svona var þetta í dag.
Minnst var á hlaup Hare Krishna í gær og spurt hvort einhverjir hefðu farið, enginn kannaðist við að hafa hlaupið kílómetrana fimm raunar sagt sem svo að það tæki því ekki að fara í gallann fyrir svo stutta vegalengd, fólk væri rétt að hitna þegar hlaupi lyki. Er komið var inn í Nauthólsvík var ljóst að fólki var alvara með hlaupi dagsins, ekki slegið af, farið um Hi-Lux og upp án þess að þétta, áfram hefðbundið, Veðurstofa, Hlíðar, Klambratún (þéttingur), Hlemmur og niður á Sæbraut. Hér voru Birgir og Kári týndir okkur og taldir af. Þétt vestur úr og til Laugar.
Mannval í potti, bæði gildir limir Hlaupasamtakanna og verðandi. Setið lengi og rætt um Berlín og önnur brýn málefni. Aldrei er hægt í pistli að endurgefa neitt af því sem sagt er í potti og því er bezt fyrir áhugasama að mæta og verða aðnjótandi umræðunnar. Birgir upplýsti að næsta föstudag verður í boði fiskisúpa Hlaupasamtakanna að heimili hans í grandaskjólum (þar sem kettirnir öskra af hungri, skríða upp á þak á stiganum sem reistur var til höfuðs staranum og Biggi var rétt búinn að drepa sig á hér um árið og Jörundur kunni að segja okkur frá, sællar minningar). Samþykkt var að þetta yrði jafnframt Fyrsti Föstudagur þessa mánaðar, en beðið er eftir að Rúna tilnefni hlaupara júlímánaðar og velji viðkomandi heppilega viðurkenningu. Magnús mættur í útiklefa og gat upplýst að hann væri allur að koma til, byrjaður að æfa með minniháttar fólki, fyndi ekki til sársauka í hné og þetta væri allt að koma. Alls kyns elskulegheit í gangi, m.a. sagðist Birgir elska Einar blómasala, en ég veit ekki hvað það merkir.
Á morgun er Gay Pride og félagar Hlaupasamtakanna munu mæta þar og sýna samstöðu með baráttu samkynhneigðra. Gleðilega hátíð. Í gvuðs friði, ritari.
Athugasemdir
Rétt að færa til bókar afrek í Hare Krishna samkomu gærkvöldsins, hvar ekki færri en fjórir vakrir Lýðveldissinnar mættu í úrhelli. Rúnar, Margrét, Þorbjörg og undirritaður. Sjá má niðurstöðu hlaups á hlaup.is en ég læt þess getið hér að vararitari rann skeiðið á 19.42 og stóð undir eigin væntingum um að komast þetta undir 20 mín. En satt er það, að maður var rétt að fá hlýju í kroppinn þegar medalía var hengd um hálsinn á manni. Allt búið.
Benedikt (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 23:30
Hér má því við bæta að Þorbjörg kom fyrst í mark í sínum flokki á alveg ágætum tíma.
Rúnar Reynisson (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.