29.7.2008 | 10:31
Ný andlit
Fjöldi hlaupara var mættur í dag, mánudag, til hlaups, þar á meðal ný andlit, og nokkrar konur. Gefin var út lína um rólega viku og virtust flestir sáttir við það eftir átakahlaup í síðastliðinni viku. Þorvaldur heimtaði hlaupaleið sem eldri hlauparar könnuðust við, en ekki einhverja endalausa nýlundu og nýbreytni. Það var orðið við þessari beiðni og farinn afar hefðbundinn mánudagur: út að Skítastöð um Suðurgötu, og svo dólað í rólegheitum vesturúr. Mættum Neshópi á leiðinni og virtist hann öflugur og þéttur. Út að Bakkavör, þar var gerður stuttur stanz meðan hópurinn safnaðist saman. Svo voru teknar 6 Bakkavarir allþétt og tók það verulega á.
Það er óþolandi að sveitarfélög skuli stöðugt vera í framkvæmdum sem trufla hlaup manna - þarna voru vinnuvélar og verkamenn að störfum við gangstéttarlagningu.
Þarna geystist framhjá okkur handknattleiksgoðið Guðjón Valur Sigurðsson á töluverðum hraða og afþakkaði boð um að slást í för með okkur. Eftir 6 Bakkavarir héldum við hinir vanaföstu út á Lindarbraut og tilbaka um Norðurströnd, lokatölur ca. 14-15 km - aðrir fóru annað og skiluðu um 16 km. Mættir í hlaup dagsins: Ágúst, Vilhjálmur, Þorvaldur, Einar blómasali (mættur tímanlega), Kári, Eiríkur, ritari, Una, Margrét, Jóhanna, Þorbjörg, Björn kokkur og fleiri sem mig vantar nöfnin á.
Ekki varð ég var að orð af viti væri sagt - enda hljóp ég einn. En í potti lét einhver þau orð falla að ljúft yrði þegar þessu Berlínarmaraþoni væri lokið - þá gætum við farið að hlaupa eins og fólk aftur. Hér varð próf. Fróði hugsi og sagði: Já, nei, þetta er rétt að byrja hjá mér. Þessu lýkur ekki fyrr en í apríl. Rætt um kosti þess að geta eimað hland og borðað leðurblökur.
Á miðvikudag verður farið langt, 24-26 km, og er vonandi að menn haldi í skynsemina og ani ekki út í vitleysu. kv. ritari
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.