14.7.2008 | 22:02
Átök í Skerjafirði
Hér segir frá hlaupi er fór fram í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á þjóðhátíðardegi Frakka, 14. júlí 2008. Ný hlaupaáætlun fyrir vikuna lá fyrir af hálfu þjálfara og var ljóst að ekki yrði slegið af, enda undirbúningur fyrir Berlín á fullu. Einar blómasali er búinn að undirbúa móttöku og próvíant að Sendiráði Lýðveldisins eina spurningin er hversu margir munu mæta þangað. Tekið er eftir ákveðnu misræmi í skráningum manna í hlaupið, sumir hlaupa í liðinu Kommúnistarnir aðrir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins og einhver með e-m Hlaupahópi Lýðveldisins enn aðrir eru án nokkurrar heimvistar. Hér þarf að taka til og koma reiðu á hlutina. Lagt er til að menn lagfæri skráningar sínar (Birgir leiðbeinir um hvernig það er gert) og skrái sig undir Hlaupasamtok Lydveldisins. Slíkt á að vera hægt að heimasíðu hlaupsins.
Mættir eftirtaldir í hlaup dagsins: Þorvaldur, Ágúst, Flosi, Kalli, Rúnar, Ólafur ritari, Una, Ósk, Jóhanna, dr. Jóhanna, Helmut og líklega ekki fleiri óvenjumargar konur í dag og greinilegt að við erum farin að trekkja að okkur áhugavert klíentel. Þjálfari lagði línur á stétt og Þorvaldi falið að leiða hópinn um garða Vesturbæjarins út á Suðurgötu, sem er vandrataður stígur sem menn villast gjarnan á. Það tókst nokkurn veginn. Svo var sett á stím í Skerjafjörðinn og voru menn á óþarflega mikilli siglingu miðað við að við áttum að taka fartleik frá Skítastöð.
Stöðvað við Skítastöð. Dúkkaði ekki upp ónefndur blómasali í óþveginni hlaupatreyju sem mikinn óþef lagði af. Hann hafði mætt seint til hlaups, sem er ekkert nýmæli, og kvartaði yfir því að hópurinn hafði lagt í hann án hans. Viðstaddir nefndu fyrirbærið klukka góð kunnátta á slíkt verkfæri gæti hjálpað mönnum að mæta á réttum tíma. Ávallt væri lagt af stað í hlaup á réttum tíma.
Það sló í brýnu milli þeirra Unu og dr. Jóhönnu, önnur vildi halda áfram, hin vildi snúa á Nesið. Þetta stefndi í óefni, menn óttuðust að handalögmál brytust út og því var leitað að lýðræðislegri lausn, hluti hópsins fór á Nes, aðrir fóru í fartleik út í Nauthólsvík fyrst út að útskotinu með bekkjunum við flugvöllinn, farið á þokkalegum hraða. Svo aftur úr Nauthólsvík og út fyrir sumarbústað, aftur upp Suðurhliðar og upp á bílastæði. Þegar þangað var komið spurði blómasalinn hvort þetta væri ekki Perlan. Er það ekki veitingastaður? Er ekki hægt að fá mat þarna inni, eitthvað með majonesi? Menn hlustuðu ekki á þetta og héldu áfram niður Stokkinn og niður á Flugvallarveg.
Fjórði spretturinn var svo tekinn út að nýbyggingu Háskólans í Reykjavík. Eftir það var okkur bannað að spretta úr spori, en við vorum rétt að hitna upp, svo að það var erfitt að halda aftur af fólki á leiðinni tilbaka, þetta minnti helzt á ólma hesta. Þegar upp var staðið sýndi sig að við fórum um 14 km Nesfarar fóru á Lindarbraut, líklega um 12 km án spretta.
Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti í pott hafandi hlaupið Laugaveginn og rekið tána í eina steininn sem var á leiðinni og slasað sig. Nokkuð rætt um flísalagnir, sem tekið hefur athygli sumra hlaupara frá eðlilegri starfsemi Samtaka Vorra. Einnig um dósasafnanir, ruslsöfnun og fleira tengt. Framundan er langt á miðvikudag, þá má hefja drykkjuna ef marka má þjálfarann. Í gvuðs friði, ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.