29.6.2008 | 20:54
Afmæli
Ritari Hlaupasamtakanna fyllti fimmta tuginn í gær, 28. júní 2008. Af því tilefni var haldin mikil afmælisveizla að heimili ritara og mætti margmenni að samfagna. Við það tækifæri voru flutt mörg ávörp og eru tvö þeirra birt hér á eftir, bæði flutt af ritara sjálfum.
Ávarp I.
Ágætu afmælisgestir!
Ég hef stundum tekið saman líf mitt á þann hátt að helstu afrek mín heiti Hildur og Gunnar og að ég sé umborinn af Írisi.
Þrátt fyrir að ég geti skreytt mig með álíka mörgum háskólagráðum og Georg Bjarnfreðarson þá er það þetta sem skiptir máli þegar upp er staðið. Fjölskyldan.
Faðir minn segir mér að þegar ég var fæddur hafi sólin risið upp yfir Esjuna. Séð frá Mosgerði 17 í Smáíbúðahverfinu.
Ég bjó um sinn í Svíþjóð, sem er gott land að búa í. En á úrslitastundu komst ég að þeirri niðurstöðu að það væru lífsgæði að búa á Íslandi. Þessi hugmynd hefur verið tekin saman í ljóðlínunum: Land, þjóð og tunga þrenning sönn og ein. Þetta má einnig orða þannig að maður líti á það sem forréttindi að búa í þessu fallega landi, tala þetta fallega tungumál og búa innan um þetta brjálaða fólk sem kallar sig Íslendinga.
Hvergi eru þó lífsgæðin meiri en hér í Vesturbænum, þar sem Húnahópur Vesturbæjarlaugar á heimkynni sín og Hlaupasamtök Lýðveldisins safnast saman til hlaupa, til glens og galskapar og til sjóbaða öðru hverju.
Ykkur hef ég ásamt fjölskyldu minni boðið til fimmtugsafmælis míns vegna þess að maður vill gleðjast með góðum.
Ég býð ykkur öll innilega velkomin í þessa hógværu veizlu og vona að þið njótið stundarinnar og félagsskaparins og þeirra veitinga sem kunna að vera bornar fram.
Ávarp II.
Ágætu afmælisgestir!
Það er ekki tekið út með sældinni að eiga afmæli um mitt sumar. Nú þegar liðin eru 50 ár frá fæðingu minni er við hæfi að horfa um öxl og grennslast fyrir um aðstæður um miðja síðustu öld.
Ég fæddist á laugardegi, og er áttunda barn foreldra minna. Fæðingarstaður var Mosgerði 17, í námunda við Háagerðisskóla, Breiðagerðisskóla og nálægt Víkingsvellinum, sem er mörgum okkar mjög kær, og þar sem háðir voru miklir bardagar við illþýði úr Hólmgarði. Faðir minn hefur sagt mér að þegar ég var fæddur hafi sól stigið upp yfir Esjuna. Því geta menn staðsett sig í Mosgerðinu upp úr miðnætti hinn 28. júní ár hvert og beðið þess að sól rísi þá vita þeir fæðingarstund mína.
Á uppvaxtarárum mínum var það siður að senda börn í sveit á sumrin, jafnskjótt og skóla lauk. Flest systkini mín voru send í sveit, en ekki tókst alltaf að finna pláss fyrir okkur minni börnin. Af þeim sökum kom fyrir að maður var í bænum sumarlangt, meðan félagarnir voru í sveit. Það var einmanalegt. En það þýddi líka að ekki þótti taka því að halda upp á afmæli manns. Ég man ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið haldið upp á afmæli mitt í æsku því engum var að bjóða.
Á hinn bóginn var jafnan slegið upp veizlu þegar bræður mínir áttu afmæli og ekkert til sparað. Varð þetta til þess að ég vissi vart hvað afmæli var fyrr en ég var orðinn stálpaður. Fyrir kom að manni var boðið í afmæli félaganna en þegar það frestaðist að ég byði þeim á móti var tekið fyrir slík heimboð. Stundum ráfaði ég einmana um Mosgerðið meðan afmælisgleði stóð yfir að Mosgerði 23 eða Mosgerði 19 og krakkafjöld fyllti hús en ég einn utan dyra og skildi ekki hvað ég hafði til saka unnið.
Ef þetta er ekki einmanaleiki ja, þá skil ég ekki hugtakið.
Því urðu straumhvörf í lífi mínu er ég uppgötvaði hóp vinalausra aumingja sem alltaf gerðu allt eins og leið greinilega bezt illa. Hópur þessi hljóp frá Vesturbæjarlaug og virtist vera nákvæmlega sú tegund félagsskapar sem hæfði mér sem vinalausum einstaklingi. Þetta voru Hlaupasamtök Lýðveldisins, hópur hávaðasamra einstaklinga sem níðist hver á öðrum, segir sögur, fer með persónufræði, setur af ríkisstjórnir, myndar nýjar, skiptir um flokksformenn eins og handklæði, og annað eftir því.
Þeir sem hér eru saman komnir í dag skiptast í nokkra hópa: Húnahópurinn undir forystu Örlygs Hálfdánarsonar, Hlaupasamtökin undir forystu Ó. Þorsteinssonar, og svo einstaka villuráfandi sauðir, félagar mínir úr Hinu Íslenzka Eimfélagi, Aðalsteinn og Stefán, og ekki má gleyma fjölskyldunni, föður mínum, systur sem komin er alla leið frá Svíþjóð. Það fylgir sögu að ég ber mismunandi nöfn eftir því hvert samhengið er: Ólafur, Grétar, ritari, kansellisti, Pabló. Ég veit eiginlega ekki hver ég er lengur.
Ég býð ykkur öll innilega velkomin og bið ykkur að njóta þeirra veitinga sem kunna að vera bornar fram, eins og tengdafaðir minn orðaði það í brúðkaupi okkar Írisar fyrir hartnær 20 árum síðan. Ræðuhöld eru nú heimil.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 20:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.