25.6.2008 | 22:15
Ritari rís úr öskustónni
Það þurfti ofurmannlegt átak að ákveða að mæta af nýju til hlaupa eftir niðurlægingu og háðung mánudagskvöldsins þegar ritari fór 10 km á 50:03 - en ekki 49:11 eins og hann hélt. Erfiðast yrði að mæta glotti félaganna og háðsglósum þeirra. Engu að síður var ákveðið að láta slag standa og mæta. Illu er bezt aflokið. Þegar á hólminn var komið var það bara Rúnar sem hafði orð á "óheppninni" - aðrir virtust hafa gleymt óförunum. Mættir: Flosi, Þorvaldur, Vilhjálmur, Jörundur, dr. Jóhanna, Rúna, Birgir, Elín Soffía, Kári, Anna Birna, Rúnar, Magga, ritari og Sigurður Ingvarsson. Einar blómasali kom síðastur - en ekki var beðið eftir honum, hann forgangsraðar vitlaust og lætur félaga sína sitja á hakanaum. Af þeirri ástæðu var lagt í hann þó svo blómasalinn væri ekki tilbúinn. Raunar var það tillaga Birgis og meiningin að kenna blómasalanum lexíu.
Flosi hafði á orði að það væri mikill malandi sem streymdi frá Birgi og þetta væri í fyrsta skipti sem hann tæki eftir því. Jörundur sagðist hafa látið bóna bílinn sinn í dag. Það fannst Birgi óþarfi, hann myndi aldrei bóna sína bíla. Nei, þú og Magnús eigið ljótustu bílana í Vesturbænum. Það dytti engum í hug að bóna svona bíla.
Lagt í hann án leiðarlýsingar, þjálfarar voru ekki með neinar tillögur á reiðum höndum, það var bara ætt af stað og það kæmi bara í ljós hvert yrði farið. En miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa. Smásaman kokkaði dr. Jóhanna upp áætlun um Kársneshlaup, 22 km. Við vorum fimm sem fórum á Kársnesið, dr. Jóhanna, Rúna, ritari, Jörundur og Birgir, og þá leið í Breiðholtið og svo í Laugardalinn, samtals 24 km. Sigurður Ingvarss. var á randi í kringum okkur, en fór fram úr, tók lengingar, kom tilbaka og hvarf svo aftur, rúma 27 km. Rúna fór að rukka dr. Jóhönnu um hlaupaáætlun, var ekki meiningin að fara 22? Jújú, en nú skulum við fara hérna - bætti svo við vegalengdina. Þegar upp var staðið fórum við 24 km en ekki 22.
Hlaupið var erfitt og tók á okkur, en við kláruðum okkur vel frá þessu.
Í gvuðs friði, ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 23:10 | Facebook
Athugasemdir
Á mánudaginn var greint frá unaðshlaupi í skógarstígum með nýliða í Samtökum Vorum. Téður nýliði mætti ekki í dag. Hins vegar runnu undirritaður og títtnefndur frumkvöðull unaðshlaupa seytján kílómetra hring, svo nefndan sixtí-næn hring. Það var í sjálfu sér ágætt, þannig séð, en unaðslegt var það ekki fúnum fótum þess er hér stýrir stílvopni. Einhvern tíma verður það unaðslegt - kannski.
Flosi Kristjánsson, 25.6.2008 kl. 23:11
Einhverra hluta vegna lætur aðalritari undir höfuð leggjast að minnast á undirritaðan sem mætti til hlaupa í gær, einbeittur. Hefði átt að vera auðséður, hefði aðalritari haft augun opin og horft fram á veginn. Maður ætti nú að þekkjast á fjaðurmögnuðum, afslöppuðum stílnum.
Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 09:06
Svo það sé nú alveg á hreinu þá fannst mér hlaup ritar mjög gott. Besti tími hans í 10 km og bæting um rúmar 7 mínútur síðan í fyrra. Geri aðrir betur!!! - 4. sek það er gott að hafa markmið!
Rúnar Reynisson (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 10:52
Beðist er velvirðingar á að gleyma hlauparanum fámála - skýringin er líklega sú að hann hafi verið "gone in 60 seconds" - og því hafi ásótt mig efinn um það hvort ég hafi séð hann eða ekki, var þetta draugur, var þetta hilling, missýning? Hvar endar alheimurinn, hver er ég, og allt það dæmi?
Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 23:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.