Miðnæturhlaup í miðnætursól - með eftirmála

Góð mæting af hálfu Hlaupasamtakanna í Miðnæturhlaupið 2008. Þar mátti þekkja andlit Helmuts, dr. Jóhönnu, ungherrans Teits, Flosa, Rúnars, Einars blómasala, Sigurðar Ingvarss, Birgis, ritara - auk þess sem Rúna og Friðrik voru mætt og teljast til periferíunnar. Vel má vera að fleiri hafi verið - en fjöldinn var slíkur að auðvelt var að missa af fólki. Ekki man ég til þess að hafa séð svo marga þátttakendur í þessu hlaupi - og engin furða, veður einstakt til útiveru og hlaupa.

Ég fór að ráðum Rúnars og hitaði upp í 15 mín. fyrir hlaup til þess að eyða ekki orku í upphitun í byrjun hlaups. Ekki er ég frá því að upphituninn hafi ráðið úrslitum er upp var staðið. Einhvern veginn æxlaðist það svo að ég lenti sem oftar með Einari blómasala þegar ræst var, en svo virðist sem við höfum svipað tempó, og höfum auk þess verið kallaðir bræður og feitabollur að hlaupum. Tempóið var allhratt þegar í byrjun, en við réðum vel við það. Tókum fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum og notuðum hvert tækifæri til þess að komast á auð svæði og sleppa úr þrönginni, sem var frekar mikil í byrjun hlaups.

Þegar kom að 5 km markinu skildi ég blómasalann eftir og varð ekki var við hann aftur fyrr en að hlaupi loknu. Fann að krafturinn var enn til staðar, svo og úthaldið. Tók vel á því og svitnaði mikið og hélt tempói. Fór að hugleiða hvort raunhæft væri að vera undir 50 mín. - hafði sosum ekki sett mér nein markmið í upphafi, en fann að e.t.v. væri það ekki alveg vonlaust. Aðeins fór að draga af mér eftir 7 km- en ég náði engu að síður að halda hraðanum nokkurn veginn uppi. Það sem knýr mann áfram við þessar aðstæður er tilhugsunin um að heyra hratt tiplið í blómasalanum að baki sér þegar hann nær mér og fer fram úr. Ég hugsaði með mér að það mætti alls ekki gerast. Gaf þess vegna í niður Reykjaveginn og fór fram úr nokkrum hlaupurum.

Mér var mikil ánægja í því að sjá tímann í markinu um það er ég kom: 49:11 - í fyrsta skipti er ég að fara 10 km undir 50 mín. Furða mín var enn meiri að sjá blómasalann dúkka upp stuttu á eftir mér. Hann var móður og másandi og stundi hvað eftir annað: Ég hefði náð þér! Ég hefði náð þér... - en botnaði ekki setninguna, og ég varð að gera það fyrir hann: ... ef ég hefði ekki farið svona hratt? Stuttu síðar kom Þorvaldur bróðir minn, sem jafnan hefur skilið mig eftir á hlaupum og sagði: Þú tókst ekki eftir mér þegar þú tókst fram úr mér á öðrum hring? Hér varð mér ljóst að sigur minn var margfaldur í kvöld. Ég var í fyrsta sinn að fara 10 km undir 50 mín; ég dró blómasalann með mér í fyrsta skipti undir 50 mín. - því það sem hélt honum í gangi allan seinni hringinn var vonin um að ná þessum hraðskreiða hlaupara sem var rétt fyrir framan hann; og ég er farinn að hlaupa hraðar en bróðir minn (hann að vísu 9 árum eldri en ég).

Ég gumaði af afrekum mínum í potti og bætti við að ég ætti annað afrek: að koma blómasalanum í fyrsta skipti í gegnum heilt maraþon. "Já," sagði dr. Jóhanna, "mikið er blómasalinn heppinnn að eiga svona góða vini!". Jóhanna og Helmut á góðum tíma - Helmut hefði náð miklu betri tíma ef hann hefði ekki glapist á að fara að tala við Birgi á leiðinni og hlusta á hann flytja lög eftir Schubert. Ekki setið mjög lengi í potti, hann fylltist fljótlega af mannakjöti og við töldum ekki ástæðu til að bíða eftir verðlaunaafhendingunni - okkur leið öllum eins og sigurvegurum og töldum víst að sprettirnir þeirra Möggu og Rúnars væru að skila sér í betri tímum.

Næst langt á miðvikudag, engir sprettir, Stíbbla, Árbæjarlaug, eða hvað. Í gvuðs friði á Jónsmessu. Ritari.

Eftirmáli
Það var sosum auðvitað að eitthvað hefði brugðist. Mér er sagt að markklukkan hafi verið vitlaus sem nam 55 sekúndum og því hafi tími minn verið 50:03 - fjórum sekúndum frá hinu langþreyða marki þótt það hafi ekki verið sérstakt markmið. Björgunin kom hins vegar frá Sigurði Ingvarssyni, sem með sínu óskeikula Garmin mælitæki komst að því að Miðnæturhlaupið hefði í raun verið 127 m lengra en 10 km - og því hafi ég hlaupið 10 km á innan við 50 mín. Meira að segja blómasalinn hafi verið á innan við 50 mín. Engu að síður stendur tíminn 50:03 sem vitnisburður um ókomna framtíð um algjöran aumingjaskap undirritaðs - og ekki að vita nema maður fari bara inn í skáp og dragi eitthvað gamalt yfir sig. Í gvuðs friði - á morgun er langt og sjóbað ef gvuð lofar. Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband