Hlaupið af list á sunnudegi

Vilhjálmur spurði mig hvort ég hefði skilið póstinn frá Ólafi Þorsteinssyni sem Hlaupasamtökunum barst s.l. föstudag. Hann fullyrti að erindið hefði verið með öllu óskiljanlegt. Hlauparar hefðu staðið á stétt á föstudaginn og reytt hár sitt í ergelsi yfir að fá svo margræðar sendingar. Ég lýsti skoðun minni á því  hvað pósturinn hefði fjallað um og í framhaldi af því bað VB mig að senda ritskýringu á hlaupahópinn og útskýra inntak póstsins. En í stuttu máli fjallaði pósturinn um fyrirhugað föstudagshlaup 20. júní á slóðir Víkinga í Fossvogi, gönguferð um sýningu með leiðsögn og innbyrðzlu próvíants að því loknu. Flóknara var það nú ekki.

Mættir á þessum fagra sunnudagsmorgni voru Ó. Þorsteinsson, V. Bjarnason, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur ritari. Harðsnúinn hópur og til alls líklegur. Ritari búinn að missa töluvert úr og orðinn slakur. Úti á stétt lýsti blómasalinn hlaupi föstudagsins, ef hlaup skyldi kalla, því staldrað var við á ekki færri en þremur myndlistarsýningum og á einni fasteignasölu og innbyrtur mikill matur, snittur, plokkfiskur, o.fl., og mikill drykkur. Maður er alveg hættur að skilja svona íþróttaiðkun sem hefur sem helzta takmark að komast í matar- og drykkjarveizlur og verða sér þar til skammar með óhófi og græðgi.

Ekkert rætt um Júróvisjón, en hins vegar lýsti Ó. Þorsteinsson ferð sinni í miðbæinn í gær um miðjan dag og bar saman við fyrri tíma þegar ungir menn léku knattspyrnu á túninu framan við Reykjavíkur Lærða Skóla og fólk gekk prúðbúið upp Bankastræti og niður í Austurstræti og allt var með öðrum blæ en nú. Nú má um miðjan dag í miðbæ Reykjavíkur sjá fótboltalið af fillibittum illa til reika og málaðar konur með vafasaman starfsvettvang að gyrða sig í brók. Þetta þurfa heiðvirðir heimilisfeður að horfa upp þegar þeir bregða sér í bæinn ásamt dætrum á fermingaraldri að nálgast próvíant á Jómfrúnni. Hér var öllu náttúrlega snúið á haus og frændi gerður tortryggilegur: "Hvað segiru, varstu að koma AF Jómfrúnni?" og annað eftir því.

Farið á skynsamlegri ferð inn í Nauthólsvík. Samt entist blómasalanum ekki erindi lengra en inn í Skerjafjörð, þá gafst hann upp segjandi að hann væri illa fyrirkallaður. Þvílíkt og annað eins hefur ekki gerst í mannaminnum, nema menn hafi beinlínis verið meiddir. Eða þegar Magnús hefur þurft að bregða sér á Kirkjuráðsfund. Svo fáheyrð þótti þessi framkoma að um hana var rætt alla leið inn í Nauthólsvík. Þar tók við saga á ensku af konu og pí og tí sem Vilhjálmur sagði. Mikið grín - mikið gaman eins og segir í kvæðinu.

Sem vænta mátti rann berserksgangur á Jörund á Flönum þegar hann rak augun í lúpínuna. Réðst á hana sem óður væri og sleit upp heilu flókana. En hann róaðist nokkuð í kirkjugarðinum þar sem kyrrðin ríkir ofar hverri kröfu. Persónufræðin á fullu, rætt um fólk og bílnúmer. Vísbendingar.

Á Hlemmi varð óvæntur atburður: hópurinn fór nýja leið, meðfram lögreglustöðinni út á Snorrabraut og svo niður á Skúlagötu. Var þetta að sögn gert vegna framkvæmda við Tónlistarhús sem mjög trufla hlaup þessi missirin. Var þetta þó ekki mótmælalaust, þar sem við frændur og nafnar vildum fara hefðbundið, enda vanir því að gera alltaf allt eins.

Vel mannaður pottur, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar og fleira fólk. Loks dúkkaði upp ónefndur blómasali og var með afsakanir á reiðum höndum, og var umfram allt dapurlegt að sjá hlaupara, sem af mörgum hefur stundum verið talinn lofandi, fara svo illa með góðan hlaupadag. En á morgun er nýr hlaupadagur og þá verður hlaupið. Framundan margir spennandi viðburðir og óhætt að segja að félagslíf sé í miklum blóma í Samtökum Vorum. Ritari.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aðalritari kominn til starfa, öflugur í andanum, aumur í efninu, sem vænta má eftir gjálífi í fyrirmyndaríkinu. Hefði nú ekki verið ráð að hlaupa í skógum sænskra, frekar en liggja á eilífu þambi og í lútfisksáti?

Benedikt (IP-tala skráð) 25.5.2008 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband