Hvass á austan

Það heyrir til sögunni og skráist hér með á bækur að hlaupið var í Hlaupasamtökum Lýðveldisins föstudaginn 2. maí 2008 og Strákurinn á Hjólinu átti afmæli. Af því tilefni sungu menn vitanlega afmælissönginn á miðjum stígnum á Ægisíðu. Mættir margir valinkunnir hlauparar svo sem eins og dr. Friðrik, dr. Jóhanna, próf. dr. Fróði, dr. Karl, og nokkrir í viðbót, Kári og Birgir - og ritari var einnig mættur. Og Strákurinn á Hjólinu. Hlaup allt var hófstillt, enda sat enn þreyta í skrokkum eftir erfitt miðvikudagshlaup. Við slepptum sprettum, en fórum hratt yfir og héldum hraða vel. Veður fagurt.

Að kvöldi var svo komið saman Fyrsta Föstudag á heimili Helmuts og Jóhönnu, þar sem bakaðar voru flatbökur og drukkinn mjöður með. Björn flutti hugnæma tölu um mikinn afreksmann og hlaupagarp sem vel væri að því kominn að taka móti verðlaunum sem hlaupari aprílmánaðar: ritari Hlaupasamtakanna. Ritari þakkaði af auðmýkt auðsýndan heiður.

Sunnudag 4. maí var annað upp á teningnum, þá var þungbúið veður og blés ákaflega af austri. Mættir til hlaups Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Einar blómasali og ritari. Þungt hljóð í mönnum eftir dapurlegt gengi Garðabæjar gegn Reykjavík í Útsvari - en VB var ekki á svæðinu og því fór sem fór. Það var farið hægt út og hlaupið rólega alla leið. Á Ægisíðu lentum við í stífri austanátt og svo miklu roki að vart heyrðist mannsins mál. Staðnæmst í Nauthólsvík og gerð úttekt á menntakerfinu og starfi innan Evrópusambandsins.

Áfram inn í kirkjugarð og rætt um endurmenntun ríkisstarfsmanna og þá ánægju sem hafa má af því að leita sér frekari menntunar. Þetta er mikið afmælisár, margir núverandi og fyrrverandi hlauparar sem fylla einhvern tuginn, mikið um veizluhöld, sumum er boðið, öðrum  ekki, svona er þetta bara!

Nú eru aðstæður slíkar við Tónlistarhúsið nýja að þar er ófært hlaupurum og fara verður yfir Kalkofnsveginn að Seðlabanka og halda þannig áfram gegnum Kvosina. Miklar framkvæmdir framundan á Kvisthaga, um þær var rætt fram og tilbaka og gefin góð ráð.

Pottur var þéttsetinn öndvegisfólki, var þar mættur Jörundur hlaupari sem er á batavegi eftir meiðsli. Aðrir  fastagestir sem sækja í félagsskap Hlaupasamtakanna eftir upplýstum samræðum.

Ritari hverfur nú til embættisverka á erlendri grundu, en hleypur næst fimmtudaginn 8da maí - langt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband