Ævintýrin gerast á hlaupum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins

Stundum hefur það verið sagt að við séum öðruvísi. Víst er að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru sumir hverjir kynlegir kvistir og binda bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir þegnar Lýðveldisins. Það sannaðist enn á ný í hlaupi dagsins hvílík flóra safnast saman á planinu fyrir framan Vesturbæjarlaug þegar hlaup stendur fyrir dyrum, hvílíkt mannval! Hvílíkur mannauður! Hver sérvitringurinn upp af öðrum. En sagan hefst í búningsklefa karla í kjallara Laugarinnar. Þar voru mættir Magnús, Þorvaldur, Ágúst og Pétur baðvörður. Það fóru meldingar á milli þeirra í hálfkæringi. Einn sagði eitthvað í þá veruna að nú væri liðið ár frá brunanum í Austurstræti og enn væru húsin jafnljót, ekkert hefði gerst. Já, enn eitt árið liðið, við verðum bara eldri og kyngetunni fer bara hrakandi. En Ágúst, sem er alltaf á jákvæðu nótunum, léttur og kátur eins og honum er einum lagið, alltaf til í að sjá og vekja athygli á björtu hliðunum, segir: Já, en strákar, við verðum bara þroskaðri og þroskaðri með hverju árinu! Já, segir einhver, ég myndi sætta mig við töluvert mikinn vanþroska og fá tilbaka eitthvað af kyngetu fyrri ára!

Það voru tveir þjálfarar mættir og reyndu eins og venjulega að telja kjarkinn úr hlaupurum, spurðu hvað ætti að fara langt, hvort það væri skynsamlegt, og þannig fram eftir götunum. Spurðu hvort enginn ætlaði í ÍR-hlaupið á morgun, 5 km, við sögðum að það tæki því ekki að fara í hlaupadressið fyrir svona spottakorn. Nei, heldur skyldi farið langt, enda miðvikudagur, lágmark 22 km upp að Stíbblu, sumir jafnvel lengra, 25 km upp að Árbæjarlaug. Aðrir styttra. Vel mætt, helztu hlauparar, valinkunn góðmenni. Aftur mættur strákurinn úr Hagaskóla á hjólinu.

Það var lagt í hann, veður frekar dumbungslegt, 7 stiga hiti, einhver vindur, sólarlaust og von á rigningu. Fara hægt af stað og vera rólegur. Öllum til mikillar furðu tókst að halda tempói niðri alla Ægisíðuna, en þá þegar hófst nokkur umræða um mat, og olli það gremju ónefndra hlaupara sem vilja banna öll samtöl á hlaupum. Ekki nóg með að menn séu að tala, það er verið að tala um mat!

Síðan gerist það að hinn ævintýragjarni Þorvaldur rekur augun í plastkerald í Skerjafirðinum og ákveður að láta þá ögrun ekki fram hjá sér fara: vill sparka í keraldið, en mætir þá ofjarli sínum, keraldið reynist þyngra og stærra en virtist í fyrstu, þvælist millum fóta Þorvaldar og er við það að fella hann, en hinn fótvissi og fótfrái hlaupari kemur niður standandi og reyndist vaxinn þeirri raun að takast á við keraldið. Uppákoman olli titringi í hópnum og vorum við nokkra stund að ná áttum á ný - en hún hafði ekki varanlegar afleiðingar á frammistöðu hlaupara.

Áfram haldið í Fossvoginn, þar fundum við fyrir austanstæðum vindinum, en létum hann ekki trufla okkur, þjálfararnir yfirgáfu okkur, Magnús og Þorvaldur fóru Suðurhlíðar, en helztu hlauparar héldu áfram á vit ævintýranna á Goldfinger og í Elliðaárdal. Farið upp brekkuna úr Fossvogsdal, sem er alltaf jafn indæl, inn í Smiðjuhverfi, Ágúst fór inn á Goldfinger - en sagði að stelpurnar hefðu fúlsað við honum svona sveittum. Strákurinn úr Hagaskóla var kominn og bar í okkur orkudrykki - voru þeir vel þegnir og nýttust vel. Undir Breiðholtsbraut og upp í hverfi. Þetta voru Benni, Ágúst, Sjúl, Helmut, Björn, dr. Jóhanna og Ólafur ritari (og strákurinn á hjólinu).

Þegar komið var upp að Stíbblu var ljóst að Ágúst og Benni ætluðu lengra, stefndu á Laugina uppi í hæðunum, en við hin létum okkur nægja að fara yfir Stíbblu. Þar fengum við meiri orkuvökva og hérna leið okkur vel. Nú var bara leiðin heim framundan og það var ágæt tilfinning. Niður hjá Rafstöð og svo hefðbundið, ekkert óvænt og haldið góðum hraða. Komum tilbaka á tímanum 2:03 - alla vega við Sjúl, sem vorum bara í góðum málum. Þau hin eitthvað á undan. Teygt í Sal - svo komu þeir Ágúst og Benni, stjarfir af áreynslu, slefandi og komu vart upp orði. Nema hvað Benni hafði gert uppgötvun: í 25 km löngu hlaupi er gott að fá orkudrykk. Ágúst hafði meira að segja gert sér vonir um að orkudrykkurinn sem strákurinn á hjólinu bar í þá yrði til þess að Benni færi að tala, en varð ekki kápan úr því klæðinu, sem fyrr er það prinsipp hjá þessum þögla að segja ekki orð í hlaupi. Var um það rætt að þetta minnti á Finnann sem sagði þegar einhver sagði Skál! - har vi kommit hit för att prata eller för att dricka? 

Er komið var tilbaka var þar staddur Einar óheiðarlegi og reyndi að telja okkur trú um að hann hefði farið 69 - menn brugðust misvel við þeirri frétt og töldu vafa leika á sannleiksgildi þessara upplýsinga, en kusu að gera ekki mikið mál úr því. Verið í potti um sinn og rædd málin framundan, Fyrsti Föstudagur 2. maí n.k. og tilhögun öll. Næst hlaupið á föstudag, vonandi með þéttingum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver er þessi Einar Óheiðarlegi ?

Einar Þór (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 10:33

2 identicon

Það er algjört trúnaðarmál - slíkt er aldrei gefið upp, þetta átt þú að vita, Einar minn!

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband