Slysalegur misskilningur...

Á sunnudagsmorgnum hittast nokkrir félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í Vesturbæjarlaug og gera sig klára fyrir hlaup. Menn voru í hátíðarskapi því að dagurinn var merkilegur: félagi vor Vilhjálmur Bjarnason kominn í úrslit í Útsvari - og átti auk þess afmæli. Voru honum færðar árnaðaróskir af því  tilefni. Viðstaddir auk VB: Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni, Birgir og Ólafur ritari.  Menn rifjuðu upp spurningarnar úr keppninni s.l. föstudag og dáðust að vísdómi þeirra Garðbæinga. Á sama tíma féllu ummæli sem misskildust með þeirri afleiðingu að misklíð kom upp í hópi vorum og greri ekki um heilt meðan á hlaupi stóð - var af þeirri ástæðu óþarflega þungt í mönnum.

Veður var afar gott, hiti um 8 stig, nánast logn og bjart yfir. Hópurinn hélt glaðbeittur af stað, en fór hægt yfir eins og venja er á sunnudögum. Þeir hávaðamenn, Birgir og Bjarni, sáu að miklu leyti um spjallið og hefur það trúlega heyrst vítt og breitt um grundir. Aðrir voru rólegir og einbeittu sér að hlaupinu. Stöðvað á réttum stöðum, en eitthvert andleysi gerði vart við sig og lítið varð úr söguflutningi. Hins vegar voru ýmis þjóðþrifamál rædd ofan í kjölinn, m.a. ferjun bíla austur á land í upphafi áttunda áratugarins, en fyrir því stóðu þeir Bjarni og VB.

Hefðbundin hlaupaleið sem áður hefur verið lýst á spjöldum þessum og óþarfi að staldra um of við leiðarlýsingu. Á Rauðarárstíg sáum við hóp af heimilislausu fólki sem komið hafði sér fyrir á strætóbekk - en lét ekki ófriðlega. Áfram niður á Sæbraut og hafði Ó. Þorsteinsson þá dregist nokkuð aftur úr. Við hinir héldum áfram og gerðum ekki stanz eftir það, nema stuttlega á Ægisgötu.

Jörundur var að Laugu, óhlaupinn, enda meiddur. Úrval manna í potti, m.a. Bjarni Fel. með ádíens um beztu knattspyrnumenn allra tíma. Var margt fróðlegt í því efni.

Á morgun er nýtt hlaup: mánudagshlaup með tempói.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband