9.4.2008 | 22:40
Fyrsti Goldfinger ársins - Stíbbla - fallegt
Það er sönnu næst að íbúar Vesturbæjarins hafa rekið upp stór augu þegar hópur hlaupara lagði upp í langhlaup frá Vesturbæjarlaug um kl. 17:30 í dag, því að sjaldan hefur sést fegurri sýn á þessum slóðum. Sjaldan hefur verið saman kominn á einum stað jafnglæsilegur hópur vakurra hlaupara, gáfaðra, skemmtilegra og fallegra. Fróðir menn töldu að meðalgreindarvísitala hefði slegið öll met, enda voru bæði próf. Fróði og próf Flúss hlaupandi, auk margra annarra vel gefinna einstaklinga sem lyfta meðalgreindinni til vænlegri hæða. Eftir því var tekið að land er að rísa að því er varðar þátttöku kvenna í hlaupum, og fjölgar kvenhlaupurum hægt, en örugglega.
Mjög góð mæting og mikil eftirvænting, því að miðvikudagshlaup eru löng hlaup, og ef vel ber í veiði, sjóbað. Þjálfarinn las okkur pistilinn og útskýrði hættur þess að lengja of skarpt. Menn hlýddu á hann af forvitni, en maður tók eftir tómum andlitum sums staðar - enginn heima. Reglan er: 10% lenging milli hlaupa - Ágúst var forviða á þessum vísindum: er það ekki allt of lítið? Við lengjum yfirleitt um 30%. Þjálfarinn sagði að slíkar lengingar myndu bjóða heim hættunni á meiðslum, en maður sá að í reynd var hann að hugsa: Þvílíkir fábjánar!
Það var sumsé langt í dag og því farið afar hægt út. Nú gerðist hið óvænta: alþekktir hraðavitleysingar og tempótætarar héldu sig á mottunni og voru rólegir. Dagurinn var afar sérstæður, hiti 5 stig, sólskin, bjartviðri, og algjört logn. Fallegra gerist það ekki! Menn héldu hópinn lengi vel, þótt hann skiptist upp í ólík getustig og einhverjir hlauparar rækju lestina á hægri ferð. Flosi fór fremstur á gamalkunnu stími og leit hvorki til vinstri né hægri - fór Hlíðarfót eftir því sem best varð séð. Magnús fór Suðurhlíðar á góðum hraða - aðrir héldu áfram í fyrsta Goldfinger ársins. Það voru Ágúst, Benni, Bjarni, Bjössi, Helmut, dr. Jóhanna og ritari. Þjálfarar fylgdu okkur eftir og létu tilleiðast að koma með okkur í Fossvoginn. Enn fórum við fetið, en eitthvað fóru menn að ókyrrast, hefur þótt hægt farið. Skyndilega var mættur í hópinn prófessor af Keldum á rauðri treyju og vakti mönnum ugg í brjósti að nú væri miskunn gvuðs dáin. Hér eftir yrði tekið á því.
Hlauparar tóku stefnuna á Kópavog, upp úr Fossvoginum, allir nema þjálfararnir, þeir hafa líklega farið Stokk eða eitthvað álíka. En við hin héldum áfram þennan erfiða kafla upp í Smiðjuhverfi og þá var manni farið að líða vel. Framhjá Goldfinger án þess að stoppa og yndir Breiðholtsbrautina, þar rákumst við á pörupilta sem voru að spreyja undirgöngin, framtakssöm æska! Yfir í Breiðholtið, þar sem móðir próf. Fróða býr, og svo áfram upp í holtið og svo yfir í Elliðaárdalinn. Manni þótti hálfleiðinlegt þegar kom að Stíbblu - þá voru komnir 13 km og bara heimferð eftir. Enn leið okkur bærilega, en nauðsynlegt var að bæta á sig vökva. Ágúst og Benni héldu áfram upp á Árbæjarlaug.
Heimferð hreint unaðsleg, niður hjá Rafstöð, yfir ár og svo skv. 69 um Laugardal og Sæbraut. Að hlaupi loknu voru allir sammála um að dagurinn hefði verið nánast fullkominn, hlaup einkar vel heppnað og fallegt. Stundin er meitluð í hug þeirra sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þátt. Ágúst og Benni komu nokkru á eftir okkur til Laugar og voru þrekaðir, hafði víst ekki gengið nógu vel hjá þeim. Líklega vegna þess að Benedikt mun hafa talað á leiðinni. Eða með orðum Ágústs (með undrun í röddinni): "Hann taaaalaði!" En áhyggjur Benna munu hafa aukist er hann sá próf. af Keldum mæta til hlaups - þá yrði farið að blaðra og það sleitulaust! Ágúst er þarna einhvers staðar á milli og reynir að íþyngja ekki þeim þögla með of miklu málæði, en vill gjarnan verða aðnjótandi fræðilegrar orðræðu kollegans á Keldum.
Við sátum pollróleg í potti og ræddum ýmis brýn málefni. Greinilegt er að menn eru byrjaðir að smjaðra fyrir Bjössa og reyna að læða inn þeirri hugmynd hjá honum að þeir komi sterklega til greina sem hlauparar aprílmánaðar. En eins og skáldið sagði: Apríl er grimmastur mánaða! Spyrjum að leikslokum.
Það er föstudagur. Það er hlaup. Það er list. Vel mætt!
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.