Hér þarf ekkert detox, enga stólpípu

Hlauparar þjást ekki af innanmeinum eða hægðatruflunum. Gamalt húsráð hljóðar upp á tvo bolla af sterku að morgni og svo gott postulín. Þá eru menn klárir í slaginn. Mættir til hlaupa á þessum fagra sunnudagsmorgni Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Birgir og ritari. Blómasalinn sást í mýflugumynd, allur haltur og skakkur eftir skíðaiðkun undangenginna vikna og ófær til hlaupa. Aftur á móti sást fyrst til Vilhjálms þar sem hann tók Guðmund Pétursson lögmann tali þar sem hann sat á bekk á Brottfararplani, greip lurk mikinn sem lögmaðurinn styður sig við á göngu og sveiflaði í kringum sig af mikilli fimi, og sýndi svo hvernig mætti nota hann til að kippa fótunum undan grandvöru fólki. Þetta var mikil sýning og listileg - en viðstaddur var einnig Þorsteinn, fyrrv. baðvörður Laugar.

Á meðan sat ritari í Brottfararsal og hafðist lítt að, beið þess að menn mættu. Birgir bauð blómasalanum frían tíma í jóga. Það hýrnaði yfir blómasalanum og hann spurði: Hvenær geturðu borgað mér?

Við brottför var varpað fram vísbendingaspurningu (ÓÞ) svo: Hvað er líkt með fermingarbörnum nútímans og Jesú Kristi? Svar: hvorugir flytja að heiman fyrr en á fertugsaldri. Hér var ÓÞ minntur á að hann hefði sjálfur ekki flutt að heiman fyrr en hann stóð á fertugu (án þess að það komi málinu nokkuð við, vísbendingin er góð eftir sem áður). Hlaupið  var hefðbundið í einstakri veðurblíðu, algjöru logni, líklega um fjögurra stiga hita og sólskini; veður gerast ekki öllu fallegri í Vesturbænum. Hafflötur sléttur.

Ég sagði félögum mínum söguna af viðskiptum VB og lögmannsins fyrr um morguninn, en fór víst vitlaust með föðurnafn hans og það þótti ekki traustvekjandi. Guðmundur er fæddur 1917 og lenti bæði í Spænsku veikinni og Frostavetrinum mikla, er vel ern, sækir Laugar og rífst við Vilhjálm þegar honum sýnist svo. En ég gat einnig upplýst þá um það að Vesturbærinn státar af nýjum Íslandsmeistara í sundi, nánar tiltekið 400 m skriðsundi karla, sem er Gunnar Ólafsson, og er sonur minn. Það eru fleiri KR-ingar að gera garðinn frægan á Íslandsmótinu í sundi þessa helgi og geysilega gott starf unnið í sunddeildinni þessi missirin. Það er ekki hægt að óska barni sínu betri uppeldisskilyrða en íþróttaiðkunar af þeirri tegund sem fer fram í sunddeild KR. Þar eru metnaðarfullir og vel menntaðir þjálfarar, góðir sundfélagar, að ekki sé talað um þá ræktun líkama og sálar sem fram fer í íþróttastarfi.

En það er e.t.v. ekki skrýtið að miklir íþróttamenn spretti upp af slíkum íþróttaafreksmönnum sem vér erum, hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Fólk bókstaflega fyllist öfund þegar það sér okkur skeiða um Sólrúnarbrautina og inn í Nauthólsvík, þar sem við stöðvum um sinn fyrir siðasakir og tökum upp léttara hjal. Ekki man ég til þess að sögur hafi verið sagðar í dag, en eitthvað kýtt um persónufræði. Það var hlaupið af stað á ný til þess að við trosnuðum ekki þarna á staðnum, farið í kirkjugarðinn og gengið hægt og settlega um hann. Á Hlemmi var það rætt að fara Laugaveginn. Nei, sagði Ólafur Þ. Þar eru öll hóruhús farin. Já, sagði frændi hans: Laugavegurinn er eins og brunnið indíánaþorp. En mér hafði hlakkað svo til að fara Laugaveginn, sagði Birgir. Okkur hinum varð ekki hnikað - áfram var stímt út á Sæbraut.

Þá tók við umræða um karlrembu. Sumir telja Ó. Þorsteinsson síðustu karlrembuna á Íslandi, aðrir kalla hann síðasta sjentilmanninn á landinu, manninn í Burberry-frakkanum og í klæðskerasniðnu, ensku tweed-jakkafötunum. Um þetta munu menn deila enn um sinn. Hitt var svo aftur rætt, sem er alþekkt staðreynd, að kjötmarkaði landsins er ekki lengur að finna á börum og veitingahúsum heldur í ferðahópum og hlaupahópum. Og það var hér sem við nafnar urðum alveg gáttaðir í umræðunni. Ef þetta er satt, spurðum við, hvernig í alverden stendur á því, að konur sækja ekki í meira mæli inn í Hlaupasamtök Lýðveldisins? Við horfðum með gáttu-svip hvor á annan og vorum alveg grallaralausir. Okkur var þetta alger ráðgáta. Aðrir voru ekki jafngáttaðir, og sögðu jafnvel að þetta væri engin gáta: það væru einfaldlega í hópnum menn sem fældu konur í burtu. Aftur var komið að okkur nöfnum og frændum að verða gáttaðir, horfðum hvor á annan og sögðum í spurn: hver getur það verið sem fælir frá? Ýmis nöfn voru nefnd, en ekkert fékkst uppgefið, ekki heldur hvort það væri af karlrembusökum sem konur hlypu ekki í meira mæli með okkur en raun ber vitni.

Hefðbundin stopp gerð á réttum stöðum og ýmis mál reifuð. Ekki er ég frá því, að þrátt fyrir langar göngur, hafi sviti gert vart við sig á yfirborði húðarinnar - en mikill var hann ekki. Pottur vel mannaður eins og venjulega, dr. Baldur, dr. Einar, Mímir, sómafrú af Hjarðarhaga er Helga heitir og maki hennar, Stefán. Og svo dúkkaði Jörundur upp, hafði hlaupið 15 km í Heiðmörkinni ásamt Gísla rektor Ármúlensis. Venju samkvæmt endurtók Ó. Þorsteinsson nánast allt sem sagt hafði verið á hlaupunum svo að viðstaddir fengju nú notið þess og misstu í engu af þeim gæðum góðrar frásagnar sem við hinir hlaupnu höfðum orðið aðnjótandi. 

Næst er alvöruhlaup á morgun, mánudag, kl. 17:30, með þjálfurum. Í gvuðs friði, ritari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband