Áfram í grjótinu

Nei, já já! Það var sosum auðvitað! Grjótið blívur. Þessi hlaupari var ekki enn búinn að fá afgreidda skópöntun á Hlaupasíðunni - en það reddaðist svo um munaði síðar um daginn, meira um það seinna. Svo það voru gömlu dojurnar sem Rúnar krítíseraði á miðvikudaginn var. Í þetta skiptið var ég þó í heilum og hreinum sokkum, svo það var bót í máli. Mætt til hlaupa á þessum föstudegi í svölu en hægu veðri: Ágúst, Flosi, Þorvaldur, Bjarni, Helmut, dr. Jóhanna, Brynja, Kalli kokkur og Ólafur ritari. Nú var aðeins Kalli með Garmin, og það nánast ófúnksjónellt að því er virtist, svo að frelsi og framtíð blasti við okkur. Engir þjálfarar aðrir en sjálfur próf. Fróði, sem undanfarið hefur tekið að sér að þjálfa Benedikt og veita honum uppbyggilegar leiðbeiningar. Brottfararplanið fól í sér fyrirheit um vel heppnað hlaup.

Hraði er afstæður. Dr. Jóhanna spurði okkur Helmut: Strákar, eruð þið óvenjusprækir í dag, eða er eitthvað að mér? Við þvertókum fyrir að við værum eitthvað skárri en venjulega (þetta er að vísu gamalt trikk til þess að koma í veg fyrir að hlauparar fari að slá af, sbr. í vetur þegar Gústi kom aftur eftir meiðsli og kvartaði yfir að venjulegt föstudagshlaup væri á við síðustu 10 km í 100 km hlaupinu í Frakklandi). En þannig var að eftir að við höfðum verið á léttu skokki jukum við hraðann og sex hlauparar héldu hópinn á þéttu stími, en lítið fór fyrir öðrum, sennilega fóru þeir eitthvað styttra, engin nöfn nefnd. Fórum hefðbundið um Nauthólsvík og svo upp Hi-Lux og þéttingur upp brekkuna í Öskjuhlíð. Rætt um Kvarans-ættina. Ágúst leiddi okkur með hvatningum og leiðbeiningum um þéttinga - þeir voru teknir á hefðbundnum slóðum: Hi-Lux, Klömbrum, Sæbraut eftir Sólfarið, og upp Ægisgötu.

Hlauparar stóðu sig vel, slógu ekki af hraða, þótt erfitt væri og nutu þess að fara hratt. Þó var grjótið farið að skera svo í ilina á ritara á Sæbraut að hann varð að staðnæmast og aðgæta hvað væri í gangi. Á meðan héldu þau hin áfram og höfðu litlar áhyggjur af félaga sínum. En þetta er hlutskipti hlauparans: hann er alltaf einn, hann á enga vini. Ég fann saum í botninum á skónum sem orsakaði meiðslin, sá að ekkert var við því að gera og hélt áfram haltrandi. Fór um Hafnarsvæðið, yfir Mýrargötu og þannig tilbaka.

Í Móttökusal ríkti gleðin ein, Flosi sást í útiklefa, en ekkert bólaði á þeim Kalla og Brynju. Það var teygt og tuðað um fatnað - sumir á leið út á lífið.

Er heim var komið beið ritara nýjasta útgáfa af Asics Nimbus, ásamt öðru góðgæti frá Torfa á Hlaupasíðunni - aldeilis ástæða til að hvetja félaga til að verzla hjá karlinum af Gafli. Ég veit að blómasalinn tekur ekki á heilum sér þegar hann heyrir kjörin sem ég naut. Næst er hlaupið á sunnudagsmorgun kl. 10:10.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband