26.3.2008 | 21:49
Hlaupið í ónýtum skóm - með hælsæri og hvasst grjót undir ilinni
Hetjur hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Það fyrsta sem þjálfarinn rak augun í á Brottfararplani voru skór ritara, ekki einasta stóð táin út úr skónum, heldur stóð hún einnig út úr sokknum. Hann benti mér kurteislega á að hugsanlega væri komið að þeim tíma að það mætti fara að íhuga endurnýjun hvors tveggja. Ég lét þess getið að þetta væri bara byrjunin, ég væri einnig með hælsæri og vel yddað grjót undir ilinni. "Hlaupið þið virkilega með grjót í skónum? Svo að þjóðsagan er þá sönn." "Já, og ef það slípast of mikið til og hættir að meiða okkur, þá skiptum við um og setjum nýtt og grófara."
Þorvaldur lá sofandi út í gluggakistu þegar ég kom. Bjössi kokkur var mættur og kominn í gírið, tilbúinn að taka á því eftir helgardvöl í höfuðstað Norðurlands. Þá komu þeir hver af öðrum, Flosi, Sjúl, Magnús, Ágúst, Kári, Bjarni, Helmut, Benedikt, Una, Margrét og Rúnar. Menn tipluðu á tánum og hvísluðust á til þess að vekja ekki Þorvald. Það sást til dr. Jóhönnu - en ég sá hana ekki hlaupa með okkur. Eftirvæntingin var áþreifanleg, þrátt fyrir að menn væru að rísa úr óreglu helgarinnar varð vart við heitstrengingar og ásetning um langt hlaup.
Engar leiðbeiningar frá þjálfurum, eins og þeir ætluðust til þess að við fyndum út sjálf hvert ætti að fara og hversu langt. Við vorum hálf ráðvillt, en héldum af stað engu að síður. Heil hersing af glaðsinna hlaupurum sem steðjuðu niður Hofsvallagötuna og út á sléttuna, veður hið bezta, hægur andvari en nokkuð svalt. Svo virðist sem vorinu hafi verið slegið á frest og við megum una við kaldari veðráttu, en hvað mega ekki Finnar þola, það gekk brjálaður snjóstormur yfir landið í dag, allt á kafi í snjó og umferðaröngþveiti, ja, heppnir erum við Íslendingar.
Hópurinn fór á hægu tempói framan af og greinilegt að margir höfðu misst sig í ofáti og óreglu um helgina. M.a.s. Benedikt var bara rólegur, enda er ógjörningur fyrir Ágúst að þjálfa hann ef hann lætur sig bara hverfa og er ófær um að taka við leiðbeiningum frá þjálfaranum. Það var ekki fyrr en við flugvöll að fór að draga í sundur með okkur, ég endaði með Helmut og Sjúl, sem gerðu ekki annað en að kvarta yfir því alla leiðina hvað þetta væri erfitt og þeir þungir á sér. En þrátt fyrir að þeir töluðu sig þannig niður unnu þeir sigurinn yfir sjálfum sér, héldu hlaupi áfram og stoppuðu aldrei. Við fórum yfir Kringlumýrarbraut og niður í Fossvoginn út að Elliðaám og tilbaka aftur vestur úr. Rætt um hárgreiðslufólk og hvernig á að halda veglegar veizlur. Við Kringlumýrarbraut var framkvæmd ágústínsk stytting, stytting í sýnd, en lenging í reynd, sem felur það í sér að hlauparar stytta sér leið, en skila engu að síður fleiri hlaupnum kílómetrum þegar upp er staðið.
Hlaupið viðstöðulaust alla leið tilbaka, lítið drukkið af meðhöfðum drykk, en þessi hlaupari var orðinn verulega sár af núningi grjóts og vegna hælsæris, en lét það ekki stöðva sig - líður enda bezt illa. Hittum nokkra hlaupara við Laug sem höfðu farið styttra. Teygt þar. Litlu síðar komu Ágúst og Benedikt, og spurði ég Ágúst hvort ekki hefði verið leiðinlegt að hlaupa svona langt með manni sem þegir. "Ja, hann talaði nú soldið. Óumbeðið." En hið rétta í málinu mun vera að Einar bróðir slóst í för með þeim og hljóp eina 4-5 km og þá var talað. Eftir það skall þögnin á og var órofin alla leið tilbaka. Svo hratt var farið að þeir voru búnir að missa stjórn á helztu líkamsfunksjónum, slefan rann fyrirstöðulaust niður hökuna á þeim báðum og virtust þeir ómeðvitaðir um þennan annmarka á ásýnd þeirra. Við Helmut og Sjúl fórum 69, nálægt 18 km (17,09 skv. hinu gallaða Garmin-tæki Sjúl, 69 verður alltaf styttra og styttra hjá honum!) - Ágúst og Benni fóru upp að Stíbblu, 21,96 km.
Í potti var skrafað um ofurhlaup. Ágúst var greinilega farið að þyrsta talsvert, því um það er ritari stóð upp sagði hann annars hugar: "Er ekki Fyrs... nei..." - ég benti honum á að það væri miðvikudagur í lok marzmánaðar. Í næstu viku er Fyrsti Föstudagur.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.