29.2.2008 | 21:59
Gamalkunnug andlit sáust í Vesturbænum
Þegar ég kom niður í unnskiptingaklefa sá ég Gísla og Vilhjálm. Vilhjálmur réðst að mér með skít og skætingi eins og venjulega, fór með ljóta vísu um Flosa bróður minn og lagði til að þeir Gísli færu með mig út og berðu mig. Allt að því er virtist til þess að bæta fyrir misgjörðir ráðuneytis míns gagnvart ýmsum aðilum. Gísli er hins vegar stilltur maður og sagði: Við erum góðmenni, við meiðum engan. Villi róaðist eitthvað við þetta, en mér stóð ekki á sama um þetta offors, þegar maðurinn loksins lét sjá sig að hlaupi. Annars voru fjölmargir mættir að hlaupum, m.a. mátti sjá þjálfarann Margréti, sem virtist aðeins mætt til þess eins að hlaupa með skemmtilegu fólki, og hafði engin orð um hvað fólk ætti að gera, hversu lengi eða hversu hratt. Ánægjuleg tilbreyting. Einnig mátti sjá Flosa, Bjössa kokk, próf. Fróða, og fleiri góða menn. Nokkrar konur voru og mættar, Rúna og Brynja. Mestur spenningur tengdist því að sjá hversu blómasalinn myndi standa sig, búinn að úða í sig KFC kjúklingi í hádeginu, með frönskum og kokkteilsósu. Ég var búinn að gera mikið grín að honum um morguninn og beið svo spenntur að sjá frammistöðuna í hlaupi.
Fjölmargir voru með Garminúr á handleggnum og tafði það brottför, en einkum þó kvittur um að Benedikt væri væntanlegur og vildi hlaupa með okkur. Ekki lét hann sjá sig, svo að við lögðum í hann, fórum afar hægt út og tókum strikið niður á Ægisíðu. Ég var hissa að þjálfarinn skyldi ekki hafa tillögur um leið eða tempó - hún hljóp bara með og var þæg. Þetta leit vel út og var góð byrjun á hlaupi. Menn sáu fram á að geta hlaupið á skynsamlegum hraða og enginn yrði til þess að spenna upp tempóið. En Adam var ekki lengi í Paradís, úti í firrðinni birtist óljós en þó kunnugleg mynd, Benedikt kom skeiðandi á trylltu tempói ótilkynntur og var ekki við neitt ráðið. Áður en vitað var af splundraðist hópurinn og menn ærðust eins og rollur í flokki - rásuðu af stað og menn gleymdu öllum ásetningi um að eiga rólegan föstudag á kyrrlátum hraða með menningarlegu ívafi. Upplýst um myndlistarsýningar á Gallerí Fold og Kirsuberjatrénu.
Sumir af okkar minnstu bræðrum fóru afar hægt, svo hægt að hraðinn myndi ekki registrerast á hraðamæli VB - um þá verður ekki fjallað frekar hér. En við sem hlaupum á eðlilegum hraða tókum eftir að blómasalanum lá eitthvað mikið á. Kom þetta viðstöddum á óvart. Og þar sem ég var staddur í Nauthólsvík með þeim Brynju, Rúnu og Hjörleifi varð einhverjum á orði: Mikið hefur kjúklingurinn farið vel í blómasalann. Mér var þetta hin mesta ráðgáta, því að ég veit hvaða áhrif kjöt í maga hefur á hlaupara. Ég stóð á gati.
Upp Hi-Lux, framhjá kirkjugarði, Veðurstofuhálendi, um Hlíðar, Klambra og þar bar ég kennsl á tvo hlaupara: Kára og VB. Með þessum herramönnum gekk ég inn á Gallerí Fold og kynntist listinni. Haldið áfram um Laugaveg og beinustu leið að Kirsuberjatrénu við Vesturgötu, þar sem okkur var fagnað og boðnar veitingar. Eftir þetta var stutt til Laugar.
Í Móttökusal mætti ég nokkrum félögum, Birni, Ágústi, Brynju, blómasalanum, menn skiptust á um að henda sér á fjóra fætur og taka armlyftur, ýmist með báðum höndum eða með annarri og helst á fingurgómunum. Þetta voru á bilinu 25-50 armlyftur og sáust menn lítt fyrir, allt þar til einhver tók eftir að Brynja var farin, þá hættu menn snarlega. Hér kom upp málefni Mimmans, þ.e. hátíðin þegar haldið er upp á Hlaupaföstudag, sem mun gerast á 28 ára fresti ef marka má Denna. Þá sagði einhver (og ég læt nafns ekki getið af virðingu fyrir fjölskyldu og atvinnuöryggi viðkomandi): Best ég fari heim og sæki bílinn, ég vil ekki labba heim fullur í þessari hálku! Og hér féll sprengjan, ég gekk á blómasalann um kjúklinginn í hádeginu. Hann brotnaði niður og viðurkenndi að hafa komið hvergi nærri neinu slíku fæði, þarafleiðandi gat hann hlaupið eins og vitlaus maður í dag. Það lá að.
Í potti rifjuðu menn upp minningar af velunnara Hlaupasamtakanna, Sigurði Svan Sveinssyni (Mohammad Shafi), baðverði, sem lést fyrir stuttu síðan, hægum og ljúfum manni af írönskum uppruna, sem kvaðst vera íslenzkur þegar hann var spurður að þjóðerni. Jarðsunginn frá bænhúsi í Fossvogi s.l. fimmtudag að viðstöddum fulltrúum Hlaupasamtakanna, Flosa og Ó. Þorsteinssyni.
Á Mimmann mættu Ágúst og Ólöf, Þorvaldur, Denni og ritari. Ánægjuleg og kyrrlát stund, bjórinn óvenjuþroskaður og djúpur. Andaktugt og gefandi. Næst hlaupið sunnudag.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt 1.3.2008 kl. 17:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.