Týndur fannst, en fundinn hvarf...

Ritari hefur verið  fjarverandi Fósturjarðar ströndum undanfarna viku, og ekkert hlaupið sökum eymsla í ökkla, sem versnuðu við það að hann reyndi að hlaupa við erfiðar aðstæður og tognaði enn meir. Hlaupasamtökin stóðu fyrir vikulegu Föstudagshlaupi sínu í dag og var farið hefðbundið við erfiðar aðstæður og það allstíft. Ég mætti í pott á tilskildum tíma og sat þar þunglyndur þegar Kári og Anna Birna komu og léttu geð mitt. Áður en langt um leið komu fleiri hlauparar: Benedikt, Helmut, Einar óheiðarlegi, próf. Fróði, Sigurður Ingvars, dr. Jóhanna, Jörundur og Brynja. Þarna blaðraði hver í munn á öðrum og heyrðist ekki mannsins mál fyrir hávaða. Menn sögðu miklar frægðarsögur af hlaupi dagsins, og hlaupum undangenginna daga, sem hafa verið hvert öðru betra, þar sem menn hlaupa í blóðspreng með blóðbragð í munninum og við það að missa meðvitund sökum áreynslu.

Rætt um þjálfunarprógrammið og áformin framundan: hvað ætlar þú að gera? Hér hófu menn að greina frá væntanlegum afrekum sumars: Laugavegi, Mývatni, Reykjavík. Hvernig getum við bezt mannað Kommúnistana? Jörundur, vilt þú ekki koma inn í hópinn? Jörundur vill hins vegar ekki láta stimpla sig kommúnista, þykir nóg um að vera formaður Lúpínuhatarafélags Lýðveldisins. Og svo toppurinn: Berlín. Sigurður , ætlar þú ekki í Berín? Ha, ég, neeei, ætlar þú? Í ljósi þess að æ fleiri eru farnir að höndla fjaðurstafinn frásagnar í hópi vorum kom fram ábending um nauðsynlega aðgreiningu höfunda, og að rétt væri að titla ritara Aðalritara hér eftir, og hafin leit að heppilegri þýðingu á erlendum tungum: General Secretary á engilsaxnesku, Hauptschreiber á þýzku eða eitthvað annað viðeigandi sem Helmut finnur.

Setið lengi unz menn voru orðnir vel þyrstir og ekkert komst að hjá þeim annað en bjór, bjór, bjór. Rætt um nýtt hlaup: food and run, hvernig heppilegt væri að haga því. Ein hugmynd að menn hlypu einn kílómetra, drykkju einn bjór, annan kílómetra, ætu einn lifrarpylsukepp, o.s.frv. og sá sem ælir mest og oftast vinnur hlaupið (hugmynd frá Brynju). Önnur hugmynd frá dr. Jóhönnu var að efna til hlaups á vordögum upp í Mosfellssveit, hlusta ekki á veðurspá á hlaupadegi, efna í sveitinni til veizlu með mat og drykk, en sem kunnugt er eiga þau skötuhjúin sveitaróðal þar efra. Ekki slæm hugmynd.

Aðalritari er óðum að skána í fótnum og býst við að geta hlaupið á sunnudagsmorgun, ef það sé gott veður og farið hægt. En fyrst verður djammað! Í gvuðs friði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband