Fagur Þrettándamorgunn

Veður blítt þennan Þrettándamorgunn og mættir til hlaupa í Sundlaug Vorri Þorvaldur, Ólafur  Þorsteinsson, Einar, Kári og ritari. Þrír síðastnefndir illar haldnir sökum ofáts kvöldið áður og þungir á sér. Ólafur frændi minn ólgaði af frásagnargleði og gat vart hamið þörf sína fyrir að miðla okkur fögrum sögum af sameiginlegum vini okkar allra, Vilhjálmi Bjarnasyni - sem liggur heima í kvefpest með verkjum. Er það farið að verða lenzka í hópi vorum að brottför tefjist á sunnudagsmorgnum vegna þess að það þarf að segja sögur af VB.

Vegna þessa líkamsástands hinna þriggja, agalausu matargæðinga, var farið reglulega hægt. M.a.s. ritari, sem á föstudaginn átti glæsilega spretti með próf. Fróða, var algjörlega heillum horfinn. Þurfti að horfa á baksvipinn á Kára nánast alla leið - sem gerist ekki oft. Sem minnir mig á orð er féllu á hlaupum á föstudag. Á Hlemmi fór undirritaður fyrir hópnum og Ágúst sagði  upp úr eins manns hljóði: Ólafur, þú hefur lagt af! Það getur ekki verið, sagði ég - alla vega ekki núna yfir jólin. Helmut sagði: Þetta er misskilningur, Ágúst - þú hefur bara aldrei séð baksvip Ólafs áður! Þannig er alltaf reynt að eyðileggja allt jákvætt sem mönnum dettur í hug að segja hverir um aðra.

Ólafur tilkynnti að hann hefði þrjár fallegar sögur að segja okkur - og svo komu þær hver á fætur annarri og eru þær dæmi um hvers vegna menn mæta til hlaupa á sunnudagsmorgnum kl. 10:10 - svo uppfullar voru þær mannlegu innsæi og skilningi á samhengi hlutanna. Ekki verður rakið hér hvaða sögur þetta voru, menn verða bara að mæta og heyra þetta beint úr munni hestsins (eins og stundum er sagt á ensku, straight from the horse´s mouth).

Farin hefðbundin leið, nema hvað Ó. Þorsteinsson heltist úr lestinni í Skerjafirði og sáum við hann ekki aftur fyrr en í potti. Við hinir fórum hefðbundið og bar fátt til tíðinda. Farinn Laugavegur og skoðuð hús sem til stendur að fjarlægja. Í pott mættu helztu spekingar, m.a. dr. Baldur Símonarson og dr. Einar Gunnar.

Á morgun eru menn ákveðnir að taka hressilega á því enda nauðsynlegt að fara að huga að uppbyggingu fyrir Berlín. kv. ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband