23.9.2007 | 21:39
Aumingjar
"Þú ert aumingi!" "Já, ég er aumingi." Þessi orðaskipti fóru milli mín og ónefnds álitsgjafa þegar mætt var í pott í morgun. Ég hafði sofið yfir mig, var slæmur í baki og auk þess illa fyrir kallaður vegna kvöldverðarboðs í gærkvöldi. Af þeim sökum var ekki hlaupið af minni hálfu á þessum góða degi. En hlauparar voru: Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Guðmundur og Birgir. Blómasalinn var að snövla í potti, óhlaupinn með öllu. Veittist að ritara sem þar sat, óhlaupinn líka, með óbótaskömmum. Vilhjálmur var bara vinsamlegur, bauð góðan dag, og sýndi fullkominn skilning á bágindum ritara. Það var hvasst í dag, en engu að síður fóru hörðustu hlauparar Hlaupasamtakanna í hefðbundið sunnudagshlaup.
Jörundur var með glýju í augum. Hann hljóp líka í gær, laugardag, með þjálfara. Fjórir karlar og sex konur mættar, allar nýjar að sögn Jörundar. Kvaðst hann mundu hætta að hlaupa með okkur Geirfuglunum, eins og hann orðaði það. Þarna væri saman komið metnaðarfullt fólk sem legði ekki megináherslu á að segja sögur og blaðra um nágrannann, heldur á það að hlaupa og ná árangri, verða betri.
Að sögn viðstaddra var frændi minn, Ó. Þorsteinsson, meiddur og fór bara stutt. Hann hljóp út í kirkjugarð, sneri við þar og stefndi tilbaka. Menn sögðu honum að meiri skynsemi væri að halda áfram, það væri líklega styttra og hægara. Nei, það var ekki hlustað á slíkt. Farið um Veðurstofuhálendið, Klambratún, Laugaveg og í skjóli tilbaka, yfir ælu og hlandpolla skemmtanaglaðra Reykvíkinga. Rifjað upp að Blómasalinn var nær orðinn fyrir spýju Austurstrætisróna í föstudagshlaupi þar sem hann hljóp framhjá Höfuðstöðvum Bjórólfa. Skeiðað upp Túngötu.
Nú skal frá því sagt er ónefndur banki hélt hátíð 100 beztu viðskiptavinum sínum: mat flogið inn frá París og hver rauðvínsflaska kostaði eina milljón. Sama dag ákvað samkeppnisbanki að halda 100 beztu viðskiptavinum sínum enn betri veizlu, þeim var flogið með einkavél til Mílanó, þar var snætt á flottasta veitingastað bæjarins og að því loknu var farið í óperuna. Þessar fréttir voru fluttar í hlaupi Hlaupasamtakanna um daginn, en ekki er vitað hver heimildarmaðurinn er.
Í pott dagsins voru mættir helztu máttarstólpar Sunnudagshlaupa: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir, og svo valinkunnir dáindismenn hlaupnir: Villi, Ólafur Þ., Blómasali, Birgir, Jörundur, Guðmundur, og loks var mættur ritari. Hann lýsti sig þegar vanhæfan til þess að vitna um atburði, samtöl og frásagnir. En menn heimtuðu að atburði yrðu skráðir - og ekki skipti máli þótt ritari væri óhlaupinn. Var lýst fjálglega hlaupi, sögum, ræðum ávörpum, gamansögum, m.a. einni sem Vilhjálmur ku hafa sagt.
Staðfest að bæði Blómasali og Ritari voru farnir að heilsu, slæmir í baki og illa haldnir. Óljóst hvenær þeir geta snúið aftur til heilbrigðra lífshátta og hreyfiingar með félögum. sínum.
kv. ritari
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.