9.9.2007 | 14:22
Kære nordiske venner
Já, í dag var hlaupið í anda sannrar, norrænnar vináttu, nánar tiltekið í kompaníi við þær mæðgur Else og Maju. Þær mættu kappklæddar og útrústaðar myndavél - og þótti við helst til fáklæddir sem aðeins vorum á stuttum hlaupabuxum og með handleggina bera. Mættir á sunnudagsmorgni voru Magnús, Þorvaldur, Guðmundur, Hjörleifur, Birgir, Kári, annálaritari og loks kom Einar blómasali er tvær mínútur lifðu til brottfarar. Hann dokaði við á gólfi Brottfararsalar, baðaði út öngunum og benti á klukkuna babblandi einhverja vitleysu: Tvær mínútur, sagði hann. Hann fékk mjög eindregin tilmæli að drulla sér út í klefa og hafa fataskipti. Það olli nokkrum vonbrigðum að hvorugur þeirra fóstbræðra, Ólafur Þorsteinsson eða Vilhjálmur Bjarnason, mættu til hlaups í dag. Það var rifjað upp að sá fyrrnefndi hafði boðið þeim síðarnefnda til óðala sinna í Hrútafirðinum og mun Villi hafa þekkst boðið. Lýsir það stórlyndi og göfugmennsku frænda míns, blíðlyndi og hógværð, eins og hann á ættir til, að bjóða helzta gagnrýnanda og andmælanda sínum til helgardvalar á þessum sælureit að Melum.
Jafnframt var það rifjað upp að VB var mættur í útvarpsþáttinn Vikulok í gærmorgun og fór þar mikinn, afgreiddi skipulagsóreiðu í einu orðinu, efnahagsóreiðui í hinu. Spurt var hvort hann hefði munað eftir að nefna Hlaupasamtökin - að það mun hann ekki hafa gert, en minntist víst eitthvað á hreyfingu.
Veður ákjósanlegt til hlaupa, hlýtt og bjart. Það var enginn vandræðagangur á okkur á Brottfararplani, við tættum af stað þegar blómasalinn kom út og fórum allhratt. Magnús og Guðmundur fremstir, sá síðarnefndi allur að koma til og að verða með beittustu hlaupurum. Magnús hvarf og segir ekki meira af honum á blöðum þessum. Það var reynt að halda uppi samræðum við norsku mæðgurnar, ýmist á skandinavísku, blandinavísku eða ensku. Birgir var duglegur að fræða þær um land og þjóð og ýmis sérkenni, að vísu kannaðist ég ekki alveg við lýsingar hans á sérkennum, hann hefur kannski verið að rugla saman við Færeyjar.
Í Nauthólsvík beygðum við Birgir og Kári niður á rampinn, afklæddumst og skelltum okkur í sjóinn, og vorum þar myndaðir í bak og fyrir. Komum svo upp úr og héldum mikla kroppasýningu sem vakti hrifningu. Myndirnar munu birtast í norsku hlaupatímariti og mega sjósundskappar búast við frægð á Norðurlöndunum í framhaldi. Einar kom gangandi inn í Nauthólsvík, farinn í bakinu. Hann var látinn gera teygjuæfingar sem geta lagað slæmt bak - en kaus að halda ekki áfram hlaupi, heldur ganga tilbaka. Það var niðurbrotinn blómasali sem gekk heimleiðis, en við héldum áfram inn í kirkjugarð. Fórum gegnum lúpinugerðið Jörundar og komum upp þegar komið var framhjá hliðinu í garðinn, Birgir talaði svo mikið að hann áttaði sig ekki á staðsetningunni. Ég varð að hrópa á fremstu hlaupara og fá þá til að snúa við, annað hefði verið brot á ritúali.
Stundum var staldrað við og genginn smáspölur, en líklega heldur minna en alla jafna. Tempóið var hægt og notalegt, okkur leið bara vel alla leiðina. Fórum niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Birgir sagði mæðgunum frá Tónlistarhöllinni er senn myndi rísa í höfninni. Sagði hann þeim að glerið sem nota ætti í húsið væri búið til úr sandi, framleitt á tvö hundruð metra dýpi undir sjávarbotni og kostaði tvo milljarða, hannað af Ólafi Elíassyni. Þeim fannst þetta afar athyglisvert. Upp Ægisgötu, Túngötu, Hofsvallagötu til Laugar.
Í útiklefa sat Einar blómasali niðurbrotinn á sál og líkama, hafði setið þannig í 30 mín. og kom sér ekki til þess að gera neitt. Hann lifnaði strax við er við birtumst og brátt var hann farinn að brosa á ný, honum fannst lífið hafa öðlast tilgang á nýjaleik er félagar hans komu, uppfullir af góðum ráðum við bakverk. Birgir hófst þegar handa um að láta blómasalann teyjga. Ég fór inn í sturtu og rakstur. Er ég kom út aftur, var enn verið að teygja blómasalann, þessi mikli skrokkur lá á gólfi útiklefa og Birgir jógi sat ofan á honum og teygði í skankana - baðgestum er komu í útiklefa var nokkuð brugðið við þessa sýn, sem vonlegt er. Í potti voru mættir dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, var nokkuð rætt um ónefnda, fjarstadda félaga. Kári kvaddi, hann fer til Franz í fyrramálið, nánar tiltekið Rennes, verður þar fram í desember að vísindast.
Á morgun er nýtt hlaup - með þjálfara. Í gvuðs friði, ritari.
Flokkur: GSM skráð hlaup | Facebook
Athugasemdir
Olaf, du er en fantastisk forfatter…
… fatter du?
Big og Blómasalinn…
… sitja á Seilugranda að setja saman Legó…
Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 17:06
Takk fyrir pistilinn. Maður verður að kvitta fyrir lestri svo þú hættir þessu ekki, þetta er svo désk. gaman.
Kári Harðarson, 9.9.2007 kl. 19:20
Tímaritið sem mæðgurnar norsku unnu fyrir er með heimasíðu hér:
http://www.kondis.no/
Nú er að fylgjast með og sjá hvort pistill um okkur birtist einhern tímann í vetur.
Kári Harðarson, 13.9.2007 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.