3.9.2007 | 21:52
Frábær fyrsta hlaupaæfing
Ekki færri en 22 hlauparar mættu til fyrstu hlaupaæfingar Hlaupasamtaka Lýðveldisins haustið 2007. Þegar slíkur fjöldi mætir til hlaups nær náttúrlega engri átt að reyna að telja alla upp sem voru viðstaddir - nær væri að telja þá upp sem ekki mættu. Beinast liggur við að harma fjarveru frænda míns, Ó. Þorsteinssonar, sem þó var búinn að lýsa yfir ásetningi um beinskeytta stjórnarandstöðu, en málefnalega. Einnig söknuðu menn Sjúls, sem ekki hefur mætt um skeið. Nánast allir aðrir félagar Hlaupasamtakanna sem vettlingi geta valdið voru mættir, nema kannski Flosi, sem er þekktur fyrir að valda hvítum vettlingum. Ekki færri en fimm konur voru mættar og hefur slíkur fjöldi ekki sézt í manna minnum. Það hellirigndi utandyra, og upp komu hugmyndir um að slaufa æfingu og halda skemmtun innanhúss. En þjálfarinn, Margrét, tók það ekki í mál. Hún skipti hópnum gróflega upp í tvennt, þá sem eru vanir að fara langt og hratt, og hina sem eru ekki búnir að hlaupa mikið. Hún spurði: Hverjir eru í lítilli æfingu? Ég ætla að fara með þeim. Hér voru ótal hendur á lofti og ólíklegustu menn töldu sig vera í slæmu formi, m.a. Magnús, sem fór hálft maraþon fyrir skemmstu á 1:46:26. "Ég fer bara með henni" sagði Magnús lítillátur. Línur voru lagðar fyrir hlaupið, farið skyldi inn að kirkjugarði á rólegum takti, snúið við og teknar hraðaæfingar.
Hraðafantar fundu hjá sér þörf fyrir að spenna upp hraðann og hurfu okkur skynsamari hlaupurum, þar á meðal voru Ágúst, Sigurður Ingv., Magnús, dr. Jóhanna og sjálfsagt fleiri, gott ef menntaskólaneminn Tumi var ekki þar á meðal. Þegar menn eru komnir með þjálfara verða þeir að tileinka sér fullkomna einbeitingu, fylgjast vel með leiðbeiningum og fylgja þeim. Gat þetta fólk það? Nei. Það var auðvitað til of mikils ætlast að það sneri við hjá kirkjugarðinum, það var tekin einhver gömul Kirkjugarðslykkja sem rifjaðist upp fyrir þeim þegar kom að hinum helga hvíldarreit. Þegar við hinir skynsamari menn, ég og blómasalinn komum inn að Garði mættum við Benedikt og dönskum ofurhlaupara, svo Eiríki, og var asi á þeim. Við fundum fyrir Gísla, Guðmund og Hauk og urðum þeim samferða tilbaka. Margrét þjálfari mætti okkur og lagði línurnar fyrir þéttingana sem urðu einir fjórir, hálfrar mínútu þéttingar, hvílt í tvær mínútur á milli og virkaði vel á okkur. Fyrst skildum við Gísla og Guðmund eftir, og svo dróst blómasalinn aftur úr, en við Haukur skeiðuðum með Margréti eins og ... (mér datt í hug "stóðhestar" - en líklega passar það ekki í virðulegum hlaupasamtökum) .. herforingjar. Við veltum fyrir okkur hvort blómasalinn væri ein eða tvær persónur. Svo miklar áhyggjur hefur hann af hollningunni, segir í einu orðinu að hann sé í átaki; í næsta orði segir hann: "Það verða fish and chips hjá mér í kvöld."
Eftir á að hyggja vorum við gizka ánægðir með æfinguna, hún tók svolítið á, en ekki kom blóðbragðið upp í munni okkar. Teygt vel á stétt á eftir og svo var farið í pott. Þar lýsti Vilhjálmur yfir því að við værum allir vitleysingar. Hann sagði að menn hlypu sér til skemmtunar og geðbótar, en ekki til þess að setja met - ef menn vildu stunda keppnisundirbúning og keppnistal gætu þeir hlaupið annars staðar: Hlaupasamtökin myndu halda sínu striki og halda í sínar hefðir!
Næst er hlaupið á miðvikudag, þá kemur hinn þjálfarinn, Rúnar. Bjartsýni ríkir í hópnum um að hægt verði að koma mönnum til nokkurs hlaupaþroska undir handleiðslu þeirra Margrétar og Rúnars. Í gvuðs friði. Ritari.
PS - var að horfa á stórkostlegan kappleik milli Fjölnis og Fylkis í bikarkeppninni, ég dáðist að knattleikni fyrrnefnda liðsins, sem mun vera úr Grafarvogi, ódrepandi baráttuþreki og baráttuvilja. Þetta eru Vormenn Íslands, það er tilhlökkunarefni að fá íþróttamenn af þessum kalíber inn í Landsbankadeildina - þá verður kannski leikin knattspyrna á Íslandi!
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.