18.8.2007 | 22:44
Reykjavíkurmaraþon í yndislegu veðri
Sjö voru skráðir í Reykjavíkurmaraþon af okkar hálfu í dag og þeir mættu allir. Fjórir voru skráðir í hálfmaraþon og þeir mættu einnig allir til hlaups. Framvarðarsveitin mætti til undirbúnings í VBL og gekk þaðan ofan í bæ. Menn höfðu áhyggjur af einstaka hlaupara, en svo dúkkuðu þeir upp hver af öðrum, Magnús alhress, nýbúinn að skrá sig í hálft, blómasalinn sömuleiðis í hálft, dr. Jóhanna í hálft, og Vilhjálmur í sitt tuttugasta. Ekki sást til Sjúl. Það var talið niður og taugarnar þandar til hins ítrasta, einkum hjá nýliðanum, Eiríki - sem hafði haft slæmar draumfarir og aftur og aftur spurt sig hvort þetta væri það sem hann vildi gera. Í næsta nágrenni var það sem kalla má periferíuna, Hjörleifur og Þórarinn biðu þess spenntir að hlaup hæfist. Svo var ræst.
Það var mikil stemmning á Lækjargötunni og mikil spenna. Ræstir saman þeir sem ætluðu heilt maraþon á undir fimm klukkustundum, og þeir sem ætluðu hálft maraþon. Framan af var ég í kompaníi við Birgi, Eirík, dr. Jóhönnu og Andreas. Þau fóru út á hröðu tempói, 5:20. Mér fannst ég ráða vel við það og hafði ekki athugasemdir við taktinn. Farið hefðbundið sem leið lá um Fríkirkjuveg, Skothúsveg, Suðurgötu, o.s.frv. Ég ákvað að leyfa hinum fremstu að halda sínum takti og frekar reyna að slaka á. Ekkert hafði spurst til Sjúl, og höfðu menn áhyggjur af því að hann hefði klikkað á hlaupinu. Nema hvað, þegar ég er á fullri ferð út Norðurströndina, hver dúkkar ekki upp þar annar en Sjúl. "Sæll, Ólafur!" segir hann. Hann sagði farir sínar ekki sléttar, væri slæmur í mjöðm og vissi ekki hversu honum tækist til í dag. Kannski færi hann ekki nema 10 km. Ég sætti mig við skýringar hans - og taldi ekki ástæðu til að vera með þrýsting.
Við héldum hópinn inn í bæ. En þegar kom að því að taka ákvarðanir um breyttar hlaupaleiðir ákvað Sjúl að halda áfram með mér, fara alla vega 21 km. Ég var feginn því að hafa félagsskap, enda skiptir hann sköpum ef samræður eru uppbyggilegar. Fórum sömu leið og farin var í fyrra, inn Sæbraut, niður hjá Eimskipum og þar í gegn, upp hjá Kleppi og vesturúr. Vorum báðir í fínum gír og allt gekk vel.
Við vorum á góðum tíma í 21 km - 2 klst. Inn í Elliðaárdal og svo upp aftur og inn í Fossvogsdal, þetta er öfug 69 og við komnir á kunnuglegar slóðir. Pössuðum upp á að drekka vel á öllum drykkjarstöðvum, bæði vatn og orku. Ég hafði sagt Sjúl að heimferðin hæfist í Fossvogsdalnum. Allt gekk vel, þar til í Nauthólsvík, þá neituðu fætur Sjúl að bera hann lengra. Um þetta leyti hafði ég pundað á mig orkugeli og fengið límonaðidrykk hjá Gísla. Var klár í framhaldið, það voru vonbrigði að félagi minn skyldi ekki geta haldið áfram, en svona er þetta stundum. Ég hélt áfram og skeiðaði um gamalkunnugar slóðir, flugvallarenda, Skerjafjörð, Ægisíðu. Hérna fór ég að verða var við þreytu og neyddist til að hvíla mig eilítið á Nesveginum, en tók svo upp hlaupið jafnóðum.
Þegar ég var kominn 35 km velti ég fyrir mér hvers vegna ég væri að þessu. Mér fannst ekki gaman að hlaupa á þessum tíma, jafnvel þó að ég hefði þrjá fylgdarmenn, Ágúst, Gísla og Sigurð Gunnsteinss., sem báru í mig drykki og næringu og hvöttu mig á allan hátt. Mér leiddist og hugsaði með mér að gera þetta aldrei aftur. Á Nesi vestanverðu, rétt hjá Gróttu, náði Jörundur mér, hann var í góðum gír og hafði ekki tíma til að staldra við, keyrði áfram. Ég gerði slíkt hið sama, en þegar ég var kominn 38 km fékk ég krampa í innanvert læri, frá kálfa og upp í nára. Varð að hvíla, ganga góðan spöl. Fór svo að hlaupa við fót, en þegar ég kom inn á Tryggvagötuna, og Ágúst hamaðist við að smella af mér myndum, kom næsta áfall: krampi í utanvert læri hægra megin. Ákvað að ganga inn í Lækjargötuna og freista þess að hlaupa með reistan makka síðasta spölinn. Framan við Stjórnarráðshúsið tölti ég af stað - en þá kom stóra áfallið: báðir kálfar læstust í skelfilegum krampa og ég varð að stöðva hlaup. Eftir á var mér sagt að viðstaddir hafi verið í meira áfalli en ég við þessa uppákomu: Helmut var við það að fá taugaáfall (eða var það hjartaáfall?) - hann hafði alla vega þungar áhyggjur af mér. Ég varð að hökta áfram en tókst að tölta síðasta spottann og vonandi halda höfði. Tími: 4 klst. 32 mín., nokkru verri tími en í fyrra.
Upp úr stendur frammistaða Jörundar og seigla, og ágætur árangur Eiríks í fyrsta maraþonhlaupi, 4 klst. 19 mín - sami tími og Jörundur og Andreas náðu.
Ég vil þakka þeim Gísla, Sigurði Gunnsteinssyni og Ágústi fyrir veittan stuðning meðan á hlaupi stóð, hann var ómetanlegur og sýnir að þótt eldri borgarar séu oft óáreiðanlegir í umferðinni, geta þeir samt sem áður þjónað nytsamlegum tilgangi í öðru samhengi.
Í gvuðs friði. Æfingar halda áfram sem fyrr á næstunni. Ritari.
Athugasemdir
Ánægjulegt að vita til þess að Samtök Vor áttu glæsilega fulltrúa í Reykjavíkurmaraþoni eins og áður. Menn hafa lent í því að hlaupa á "vegginn" margfræga áður eða lenda í viðlíka hremmingum. Í framhaldi af pistli ritara rifjast upp það sem sundþjálfari strákanna minna sagði um gildi þess að teygja. Hann orðaði það sem svo að við átök eins og langhlaup, skryppu vöðvar saman og herptust.
Með því að vera vel teygður ætti maður fyrir styttingunni. Þetta held ég að langhlaupurum, ungum sem öldnum, sé hollt að hafa í huga við undirbúning sinn. Framannefndur aðili er bróðir Guðmundar sterka, Albert Jakobsson.
Flosi Kristjánsson (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 11:32
Háæruverðugu hlaupasamtök. Ég vil einnig þakka þeim Gísla, Sigurði Gunnsteinssyni og ekki síst Ágústi fyrir veittan stuðning meðan á hlaupi stóð, það er ekki síst þeim að þakka að maður nennti að klára þennan andsk. 5ta árið í röð.
Þess má geta í framhjáhlaupi að Jörundur nágranni minn og gildur limur í kommúnistunum, hljóp í morgun hefðbundið, þrátt fyrir að hafa klárað maraþonið með glans í gær. Ólafr ritari á líka hrós skilið fyrir seiglu og manndóm, að klára hlaup þrátt fyrir alla krampana. Það er hægt að sigrast á fleiru en mínútum.
Í gvuðs friði, Big
Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.