17.8.2007 | 21:17
Slakað á fyrir maraþon - úrval hlaupara í potti
Svo sem sagt var í seinasta pistli fór í dag fram hefðbundið hlaup þeirra hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem ekki hyggjast taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni, eða fara bara stutt, og voru mætt til hlaupa þau Gísli skólameistari og dr. Jóhanna. Þau ákváðu að fara bara stutt, hálfgerðan aumingja, út í Skerjafjörð og mátti skólameistarinn hafa sig allan við að halda í við dr. Jóhönnu. Er þau mættu til potts var þar fyrir nokkur fjöldi hlaupara sem slepptu hlaupi í dag en völdu að liggja í potti þess í stað. Þar lágum við í um eina og hálfa klukkustund og ræddum þau málefni er til framfara horfa í Lýðveldinu. Áhyggjum var lýst yfir stöðu góðs siðar og skikks í Hlaupasamtökunum, svo mjög hefur ágerst tilhneiging félagsmanna til þess að leggja í púkk með skemmtisögum eða vísum sem hafa vafasamt siðferðilegt inntak eða boðskap. Einnig var mikið rætt um lög og rétt, framferði lögreglunnar í Húnavatnssýslu sem hefur valdið félagsmönnum miklum útlátum undanfarin misseri fyrir sakir óbilgirni og ósveigjanlegrar túlkunar á lögum um hámarkshraða á vegum úti. Hér kom embættismaðurinn upp í okkar manni og hann reyndi að koma á framfæri því sjónarmiði að lög væru afar skýr um hámarkshraða á þjóðvegum og ef lögregla horfði í gegnum fingur sér með lögbrjóta væri hún að fremja embættisglöp. Þetta var ekki vinsælt sjónarmið, enda mikið af mannúðarsjónarmiðum á floti í pottinum.
Við Jörundur fórum í Laugardalinn í dag og sóttum gögnin okkar, verzluðum svolítið við Torfa í hlaupaverzluninni og melduðum Kommúnistana til þátttöku. Röltum um svæðið og þótti lítið koma til þess sem í boði var, aðeins hlaupaverzlunin og Asics, svo að vísu borð fyrir viðskiptavini Glitnis. Þeir sem ekki voru viðskiptavinir voru reknir í burtu og látnir skilja að þeir væru minniháttarfólk. Við fórum út og veltum fyrir okkur þeirri stöðu sem yrði uppi um kvöldið, þegar tónleikar Kaupþings hæfust. Við vorum þarna um eittleytið, hvernig yrði þetta þegar þúsundirnar færu að streyma í dalinn. Ég sagði við Jörund: "Var þetta ekki svolítið vanhugsað af Kaupþingi að planta tónleikum hérna í Dalnum akkúrat á sama tíma og Glitnir er að registrera í hlaup?" Jörundur horfði vantrúaður á mig og ég sá að hann hugsaði: "Er maðurinn virkilega svona vitlaus?" - en sagði svo: "Ég held þetta kunni að vera mótleikur Kaupþings til þess að skáka Glitni." Svo einfalt var það. Á laugardagskvöld fer síðan fram tónleikur á Klömbrum í boði þriðja bankaauðvaldsins, Landsbanka. Í potti var það staðfest að þátttaka Kommúnistanna í maraþoni væri í hæsta máta tímabær: hér færu fram lágvær og áberandi mótmæli til þess bærra aðila gegn yfirgangi Kapítalsins, sem hefur sölsað undir sig íþróttir og menningu í Lýðveldinu, varla er hægt að fara á Kamarinn án þess að það sé í boði Kaupþings, Glitnis eða Landsbanka. Má segja að menn séu með þátttöku sinni að segja: leyfið okkur, alþýðunni, að njóta fóbbolta og hlaupa í friði fyrir ykkar gráðugu fingrum! Á þann hátt leggja Hlaupasamtök Lýðveldisins baráttunni fyrir bjartari og malbiks- og lúpínulausri framtíð lið sitt.
En nú er komið að því: á morgun er Dagurinn. Mæting í útiklefa VBL kl. 8:00. Klæðning, smurning, pepping. Sjö hlauparar fara heila porsjón, þrír eru kandídatar fyrir hálfa. Fleiri kunna að bætast við styttri vegalengdir. Megi allir þátttakendur Hlaupasamtakanna verða þeim til sóma og ganga vel!
Í gvuðs friði, ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.