10.8.2007 | 22:33
Hlaupari tekur flugið, eða Píslargangan í nútímaútfærzlu
Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru hugmyndaríkir og skapandi einstaklingar. Þeir eru gáfaðir gleðimenn, þeir gleðjast yfir tímamótum í lífi félagsmanna, framförum í hlaupum og öllu því sem má til betri vegar vísa í málefnum Vesturbæjarins. Saman takast þeir á við sorgir og gleði í hvunndagslífi félaganna, leggja í púkk, axla byrðarnar með félögum sínum, eru góðir sálufélagar, bjóða öxlina þegar e-r þarf að brynna músum (sem er ekki oft!) og þar fram eftir götunum. Þessi hlaupadagur bauð upp á dramatíska staðfestingu á öllu því sem að ofan greinir og verður sagt nánar frá því hér á eftir. En eins og allir vita er vika í Reykjavíkurmaraþon og hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru að trappa seríöst niður - í dag var stefnan að fara stutt og hægt, 10 km í mesta lagi. Svo 10 á mánudag og 5 á miðvikudag. Mættir þessir: Flosi, Gísli, Ágúst, Magnús, Þorvaldur, Haukur, Sigurður Ingvarsson, Jörundur stórhlaupari, Andreas hinn danski, ritari, Birgir og Einar blómasali, seinn að vanda. Blómasalinn var krímugur í framan sökum óskilgreindrar vinnu og var snupraður fyrir að mæta enn og aftur óþrifinn til hlaupa - en að snupra blómasalann er eins og að skvetta vatni á gæs - hann bara brosir og lætur aðfinnslurnar sem vind um eyru þjóta. Menn leiddu það í hug sér hvort einelti virkaði ekki gegn sumum einstaklingum og hvort nauðsynlegt væri að taka upp nýjar aðferðir.
Að þessu sinni var ekki beðið eftir Garmin-nördum, það var bara keyrt af stað og fóru þar fremstir Gísli og Flosi, þeir eru svo gamlir í hettunni að Garmin-dellan hefur ekki náð rótfestu hjá þeim. Þegar komið var á Ægisíðuna var ljóst að sumir hlauparar ætluðu ekki að fylgja ráðleggingum þjálfara og hlaupaáætlun Hlaupasamtakanna, þar á meðal var þjálfarinn sjálfur, Prófessor Fróði. Það var bara gefið í og menn hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa fram alla Ægisíðuna og inn í Nauthólsvík. Maður gat sosum séð það fyrir með Sigurð Ingvarsson, en að góðir menn eins og Ágúst, Andreas, Magnús skyldu hegða sér eins og kálfar á vori kom á óvart. Við Haukur og Jörundur vorum skynsamir, fórum hægt, höfðum kompaní af Gísla og Flosa um stund, mikið rætt um Limlestina (Gay Pride gönguna) - skv. kenningu Hauks er ákveðin prósenta af samfélagsflórunni samkynhneigð. Þar á meðal í Hlaupasamtökunum - þótt menn eigi í brösum með að koma út úr skápnum. Skv. sömu kenningu eiga að vera 600 samkynhneigðir á Agureyri - en barþjónar þar um slóðir neita slíkum áburði, segja að "þeir" hafi allir flutt burt. "Eins og þú..." sagði einhver, en það heyrði það enginn.
Fremsti hópur var nokkuð á undan okkur Hauki og Jörundi. Gísli, Flosi og blómasalinn hafa líklega stytt eitthvað, sennilega farið Hlíðarfót. Við félagarnir vorum ekki í styttingarhug, fórum hefðbundið um Öskjuhlíð o.s.frv. Þegar kom upp fyrir Hi-Lux varaði ég félaga mína við keðjunni. Það sama mun ekki hafa gerst þegar fremsti hópur fór þar um stuttu á undan okkur. Þá vildi ekki betur til en svo að Þorvaldur rak tána í keðjuna og tók flugið, ekki ósvipað okkur Ágústi, sem höfum þegar sýnt miklar listir í loftköstum um ýmislegar hlaupaleiðir. Um svipað leyti hrópaði Birgir: Jesus Christ! Þetta hefur verið óskemmtileg lífsreynsla fyrir félaga okkar - en félagar hans voru strax uppfullir af góðum hugmyndum til þess að kæta geð hans og reyna að hefja upp fyrir sársaukaþröskuldinn. Birgir tók eftir að blóð streymdi niður höfuðið úr gati í miðju enni, og ennisbandið minnti á þyrnikórónu Frelsarans. Hann hafði orð á þessu og taldi sig fara þar með mikilvæga symbólíkk af Golgata, þar til einhver sagði: Kannski ættum við bara að krossfesta hann? Já, negla hann fastan við tréð! Hér kom til skjalanna hógvær, ónefndur tannlæknir og sagði: En, góðir bræður, viljið þið ekki leyfa mér bora fyrir nöglunum fyrst?
Það er ánægjulegt að sjá sköpunarkraftinn taka yfirhöndina, allir taka þátt, eru skapandi, bæta við, prjóna við, enginn situr hjá, úr verður fljótandi frásögn sem býður upp á endalausa möguleika. Seint verður sagt að hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins séu ókristilega þenkjandi, nei, við erum með hugann við kveðskap Halla Pé og hugsum um guðdómleg málefni meðan á hlaupum stendur. Íslensk hómilíubók er á náttborði hlaupara.
Við Haukur og Jörundur fórum skynsamlega, en samt allhratt. Við kirkjugarðinn lenti ég í deilu við Hauk um ýmisleg málefni er varða ráðstöfun almannafjár og varði Stjórnarráð Íslands ákaflega. Ekki olli þetta vinslitum, en við hlaupararnir erum enn að reyna að fá Hauk til að fara heila porsjón. Við ákváðum að fara Laugaveginn og þar nutum við athygli viðskiptavina á Laugaveginum. Sumir fóru styttra, aðrir fóru á Sæbraut, en allir hittumst við á Landakotshæð þar sem kirkjan stendur. Þar varð mikill fagnaðarfundur. Og svo var keyrt á fullu niður Hofsvallagötu, enn ljóst að Ágúst gerir allt sem hann getur til þess að þurfa ekki að hlaupa maraþon.
Sif Jónsdóttir langhlaupari kom þar sem við teygðum á plani fyrir framan laug. Hún hafði enn áhyggjur af því að verið væri að koma illa fram við suma hlaupara í pistlum ritara. Farið í pott. Sem við liggjum þar og ræðum mikilsverð málefni kemur Helmut staulandisk, haltrandi, og talar um skaddaðan liðþófa. Það sem mönnum dettur í hug til þess að losna við maraþon!! Jóhanna hvergi sjáanleg.
Birgir hefur tekið að sér að útvega boli fyrir Kommúnistana sem munu hlaupa sem sveit í Reykjavíkurmaraþoni, þar verður Lýðveldisfáninn í grunni, lárviðarsveigur umhverfis og svo lágmynd af þeim Marx, Engels, Lenín og Jörundi þvert yfir. Gaman, gaman!!!
Næst er hlaupið mánudag, þ.e.a.s. fyrir þá sem fylgja hlaupaáætlun. Nes, og vonandi sjóbað á flóði. Í gvuðs friði. Ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
Gott fólk.
Það væri til að æra óstöðugan að elta ólar við alla þá vitleysu sem hann Ólafur Grétar lætur frá sér fara undir merkjum gamansemi. Slíkar leiðréttingar munu líka seint bíta á hann eða breyta skrifum hans og er öllum ljóst af hvaða manndómi, innræti, greind og öðrum efnum ritað er. Verður svo við að búa.
Ég ætla samt að leiðrétta tvennt. Hið fyrra er að ég hef sett fram fræðikenningu um kynhneygð sem er flókin og nær til beggja kynja og ég hef reynt að skýra fyrir hlaupafélögunum mínum með barnalegum dæmum, en þeir hafa vakandi áhuga á kenningu þessari. Ég sé eftir á að það hefði ég ekki átt að gera, til að skilja kenninguna þarf undirstöðuþekkingu í tölfræði. Leiðbeinandi dæmi frá minni hálfu eru hér með dregin til baka. Af þessum dæmum eru komnar ýmsar sögur og ekki allar skynsamlegarlegar og ekki til þess fallnar að bregða birtu á gáfur mínar. Hitt atriðið er að ég hef ekki flust frá Akureyri eins og hommarnir og lessurnar í sögu Ólafs því ég er ekki Akureyringur.
Haukur Arnþórsson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 23:11
Pistlar Ólafs eru sannkölluð snilld. Vitað er um fjölskyldu í Kópavogi sem poppar meira að segja og flykkist um heimilisföðurinn sem les upphátt frásagnir af okkur. Já, okkur, venjulega fólkinu í Vesturbænum sem enginn tekur annars eftir. Ef ekki er hægt að Gúggla mann, er maður ekki til. Kannski væri samt rétt að hætta að nafngreina þá einstaklinga sem eru ekki frá Akureyri og tilheyra þar af leiðandi ekki þeim 600 manna hópi samkynhneigðra Akureyringa sem hafa flust þaðan. Þá erum við fyrst farin að nálgast alvöru einelti. Hitt var bara grín. Hver kom annars með þesa hugmynd að Hlaupasamtökin hefðu bloggsíðu? Ég meina, tók hana upp frá þekktum eineltissérfræðingi í Garðahreppi.
Jóhanna Arnórsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 15:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.