Mikill hlaupari Jörundur...

Mikill hlaupari er Jörundur Guðmundsson. Að loknu hlaupi dagsins var það niðurstaða annálaritara að Jörundur væri einhver mestur hlaupari sem Hlaupasamtök Lýðveldisins hefðu á að skipa. Um þá niðurstöðu verður fjallað nánar hér á eftir. En mætt til hlaupa á miðvikudegi voru Ágúst, Þorvaldur, Sigurður Júl., Eiríkur, Birgir, Rúna, Jörundur, Haukur, Guðmundur, Gísli, dr. Friðrik og annálaritari. Venju samkvæmt söfnuðust menn saman í Brottfararsal og báru saman bækur sínar, upplýstu um nýleg hlaup, líkamlegt ástand, og væntingar um Reykjavíkurmaraþon. Ritari verður var við að síminn hringir ákaflega í geymsluboxi - "skyldi það vera minn sími?" í ljós kemur að hinum megin á línunni er ónefndur blómasali, ákaflega daufur í dálkinn. "Ég er hér staddur á stýrifundi í fyrirtækinu... var greindur með bronkítis í dag, settur á æðavíkkandi lyf, get ekki hlaupið neitt að ráði á næstunni..." lá við að brysti á með gráti. "Ég sagði lækninum frá læknisráði dr. Friðriks, sjóböðum og koníaksdrykkju, en hann brást bara hinn versti við. Hafði enga trú þessu." Hér lá við að blómasalinn færi að kjökra. Ritari reyndi að hughreysta hann og sagði að hann skyldi bara reyna að hlaupa aftur á föstudag. "Já, ég reyni..."

Nokkuð margir voru með Garmin-tæki, en fæst virtust virka eins og til var ætlast. Lengi var beðið á stétt eftir að menn næðu tungli, en loks var lagt í hann og ákveðið að fara Stokkinn, enda er byrjað að trappa drastískt niður fram að maraþoni. Rigning, 14 stiga hiti í Vesturbæ. Menn voru léttir á sér, Birgir búinn að léttast um fjögur kíló - og orkulaus samkvæmt því, spurning hversu gáfulegt það var. Það var greinilegt að mikill léttleiki var yfir fólki, erfitt að halda hraðanum niðri, fremstir Eiríkur, Ágúst, og Guðmundur, þar á eftir ekki síðri menn. Fátt markvert inn í Nauthólsvík, en tempóið var gizka hratt, Eiríkur fremstur og við Ágúst strefuðum við að ná honum. Niður á ramp og í sjóinn: Ágúst, ritari, Gísli, dr. Friðrik og Birgir. Sem við erum að klæða okkur að nýju bendir Rúna út á sjóinn og hlær: Ha! Sjáið, þarna eru alvörusyndarar. Og þetta eru KONUR!!! Þarna var okkur öllum lokið, fjögur selshöfuð dúkkuðu upp á sænum og syntu inn að ströndinni þar sem við vorum nýbúnir að lenda á. Birgir tók mynd á símann sinn og við ráðgerðum að birta hana sem sönnun þess að VIÐ hefðum synt í sjó - en ráðagerðin þótti svo hneykslanleg að við hurfum frá því. 

Áfram um Flanir. Hér barst talið að manni sem missti af hlaupi vegna þess að hann þurfti að laga risið hjá sér. Eftir það var rætt um að hann ætti við risvanda að stríða. Á hlaupinu var farið í gegnum fyrirætlanir manna í maraþoninu, eitthvað var óljóst hvað Haukur hugsaði sér - heyrnarglöggir heyrðu hann segja Rúnu að hann ætlaði hálft maraþon. "Og ég á mér þann einn draum að verða á undan Vilhjálmi Bjarnasyni!" "Já, þú setur markið hátt," sagði Rúna.

Þegar gengið var á Hauk virtist hann ekki fráhverfur því að fara heila porsjón. Og ekki að undra eins og hann hljóp í dag, hélt sig að mestu við Ágúst og hlupu þeir saman eins og herforingjar þar til komið var til áfangastaðar. Þeim mun meiri vonbrigði að heyra að prófessorinn hyggist ekki fylla flokk Kommúnistanna í Reykjavíkurmaraþoni. Við skeiðuðum á hröðu tempói inn Fossvogsdal, 5:15 - 5:20, ég , Jörundur, Rúna og Birgir, ekki veit ég hvað varð um aðra. Yfir Elliðaárnar, þar sem ég þurfti að gera stuttan stanz til að pissa. "Ég staldra við eftir þér" sagði Jörundur. Ég náði honum á Stokknum upp á Réttarholtið, við tókum fram úr þeim Rúnu og Birgi, en Ágúst og Haukur voru of langt undan til þess að við næðum þeim. Stokkurinn er erfiður, allur upp á við, en ég var ánægður með að við skyldum ekki stoppa neitt eða finna til þreytu, það var ekkert hvílt, skeiðað framhjá Réttarholtsskóla og þannig áfram inn á æskuslóðir okkar bræðra. Eilíflega upp á við, endalausar brekkur, en aldrei stoppað til að hvílast. Og aldrei slegið af taktinum, ekki það ég hafi fundið fyrir þreytu, þvert á móti. En það þarf alltaf einhvern sem keyrir mann áfram og í þetta skiptið var það Jörundur sem sá til þess að hraðinn héldist og menn drægju ekki af sér. Á leiðinni vorum við að velta fyrir okkur hverju þessi taktur skilaði okkur í maraþoni, en jafnframt hvað það væri mikilvægt að ofgera sér ekki - margir hefðu flaskað á því að fara of geyst af stað og sprengja sig. 16 km hlaup segði ekkert til um hvaða takt maður réð við í heilu maraþoni. Hér sá ég hvílíkur hlaupari Jörundur er, honum vex ásmegin eftir því sem líður á hlaup, gefur bara í ef hann finnur að það er einhver kraftur í manni. Með svona félaga við hlið mér get ég vel hugsað mér að ljúka maraþoni á innan við 4 klst.

Á Miklubraut urðum við varir við bláa Toyota-bifreið, HY-060, ökumaðurinn flautaði á okkur glaður í bragði, vinnukonan í framsætinu veifaði og aftan í hékk vinnukerra, greinilegt að þessi ökumaður var ekki illa hrjáður af bronkítis þar sem hann stefndi til stórafreka á öðrum vettvangi en hlaupum. Hér varð okkur ljóst að menn grípa til ýmissa óyndisúrræða til þess að losna við hlaup. Í potti fullyrti Haukur að blómasalinn myndi fara heila porsjón - hann myndi sjá til þess!

Það er alltaf leiðinlegt að sjá Háskólann á miðvikudagshlaupi - þá veit maður að því er að ljúka. En, gott og vel! Við lukum því með bravúr. Teygt á heimkomuplani - þar var mætt Sif Jónsdóttir langhlaupari og hafði margar sögur að segja úr Laugavegshlaupi og ferðum á Vestfirði. Hún hafði áhyggjur af því að blómasalinn væri lagður í einelti í hópnum og vísaði þar til pistla annálaritara, og eitthvað blandaðist Veðurstofan í þá umræðu, en ritari getur viðurkennt að hafa tapað þræðinum þar.

Pottur með betra móti, við lögðum Örlygshöfnina undir okkur, KR sundkrakkar í legvatninu. Sátum þar í nærfellt 30 mínútur. Ýmislegur sannleikur afhjúpaður, svo sem um laun opinberra starfsmanna og annarra í Tekjublaði Frjálsrar Verzlunar. Það var okkur Gísla og Ágústi áhugavert nýnæmi að ef ríkisstarfsmaður vinnur eitthvað aukalega fær hann greitt fyrir það. "Meinaru, ef ég geri eitthvað meira en að mæta í vinnuna, að ég fái greitt fyrir það..?" spurði prófessor Fróði grallaralaus. Einhver taldi sig hafa upplýsingar um það að ef starfsmaður hjá Háskólanum rannsakaði eitthvert fyrirbæri og skrifaði að því loknu grein - gæti hann hagnast á því. Nú birtust dollaramerki í augum margra viðstaddra og greinilegt að reiknivélar fóru í fullan gír.

Yndisleg stund - þetta er það sem gefur því gildi að hlaupa. Vellíðan meðan á hlaupi stendur - og vellíðan á eftir.

PS - valkostirnir eru tveir:
1. knattspyrnulið karla sem gengur undir skst. KR verði gert brottrækt úr Vesturbænum og æfingaaðstaðan verði boðin hæstbjóðanda 
eða
2. stjórn "KR-SPORT" rekin eins og hún leggur sig - og stefnt að því að byggja upp alvöru KR-inga eins og stefnan var þegar við vorum að vaxa úr grasi.

Annálaritari   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband