Pottsund með meiru

Nokkrir vaskir hlauparar sem þjálfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþon mættu til hefðbundins potthlaups í Kópavogi í gær kl. 15, þ.e.a.s. allir sem kunna á klukku. Ónefndur blómasali virðist ekki hafa öðlast kunnáttu þeim efnum sem dugar til þess að skila honum tímanlega til fyrirframákveðinna verkefna. "Hvernig skyldi hann vera í vinnu?" spurði einhver. Nei, okkar maður mætti kl. 15:25 og átti þá eftir að klæða sig í hlaupafatnaðinn og fá vökva á drykkjarbrúsa. Á meðan biðu Ágúst, Haukur, Jörundur og annálaritari þolinmóðir, en þó spenntir að hefja hlaup. Loksins var hægt að leggja í hann í sól og blíðu og haldið upp í Breiðholtið, þaðan upp í Elliðaárdal, yfir brúna rétt hjá lauginni og svo framhjá hesthúsunum. Talað illa um hestamenn. Farið á tempóinu 5:20 sem skilar hlaupurum á fjórum klukkustundum í maraþoni. Blómasalinn dróst aftur úr og Haukur aumkaði sig yfir hann og hljóp með honum. Við hinir héldum okkar hraða, en neyddumst til þess að stöðva öðru hverju til þess að týna þeim hinum ekki alveg. Við fórum ákaflega fallega leið kringum Elliðavatnið, stöldruðum við á einum stað og kældum okkur í einum læknum. Það voru endalausar brekkur, upp og niður, og Ágúst sagðist hlakka til "síðustu" brekkunnar, hún væri löng. Svo kom að síðustu brekkunni og við skröngluðumst upp hana - þá kom í ljós að tvær brekkur voru eftir á mótum Kópavogs og Breiðholts. Jörundur reif upp slatta af lúpínu og Ágúst sagði: "hér stendur sjálfsagt til að malbika fljótlega!" En svo kom að því að leiðin lá bara niður í Kópavogsdalinn og þá var gefið í - við fjórir vorum nokkuð jafnsnemma komnir í Lækjarhjallann, en blómasalinn langseinastur. í refsingarskyni var honum gert að gera við sláttuvél prófessorsins sem vildi ekki fara í gang.

Á meðan fóru aðrir í pott og hófu að vökva lífsblómið með öli. Fljótlega kom Birgir og slóst í hópinn. Það var þéttur hópur sem sat og saup á veigunum fram eftir degi, margt rætt spaklegt. Arkímedes flaut á öldunum innihaldandi sterkar flögur og salsasósu. Svo var tekið til við matargerð, grillað kjöt, og Medisterpylsur sem einn hlauparinn hafði keypt við vægu verði í Bónus (yfirleitt ekki flokkað sem matur). Setið lengi kvölds að spjalli.

Af þessari ástæðu mætti ritari hvorki til sunnudagshlaups né heldur mánudagshlaups kl. 10:10 svo sem hefðin býður. Hann mætti hins vegar til laugar í morgun og hitti þar Ó. Þorsteinsson sem upplýsti að bæði hefði verið farið í sunnudags- og mánudagshlaup, hið fyrra hefðu þeir þreytt V. Bjarnason, Þorvaldur og Ó. Þorsteinsson, en hið síðara aðeins hann og Þorvaldur. Mikil persónufræði í gangi báða dagana, og Vilhjálmur venju fremur önugur fyrri daginn, þáði m.a. ekki miða  á tónleika Stuðmanna sem Ólafur vildi bjóða honum. Þeir hittu Jakob Möller hrl. og áttu við hann langt spjall á Ægisíðunni um persónur í Lýðveldinu.

Næst verður hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudaginn er kemur, ca. 15 km.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

3,20min pace er maraþon á 3kl 45min til hamingju þið hlaupið maaraþonið hraðar en þið hélduð jiha.

kv

Pétur

Pétur Ívarsson (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 21:04

2 identicon

Kæri ritari. Vel mælt en mæli með þið félagar sláið saman i úr handa blómasalanum, Rolex væri i lagi.

kv

Einar Þór Jónsson

Einar Þór Jónsson (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband