Sirkustjöldin falla

Á fallegum sunnudagsmorgni voru þessir mættir í hefðbundið hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús tannlæknir, Einar Þór og Ólafur skrifari. Veður var fallegt eins og þau gerast best á haustmorgnum í Lýðveldinu, bjart, stillt og jafnvel sólarglæta á stundum.

Það voru kátir sveinar sem lögðu upp í rólegt hlaup og höfðu margt að ræða sín á milli. Meðal þess sem bar á góma var 30 ára brúðkaupsafmæli skrifara og spúsu hans, nýtt afabarn í sama ranni og svo stórafmæli í fjölskyldu vinar okkar, V. Bjarnasonar. Af því tilefni töluðum við fallega um þingmanninn fyrrverandi og var jafnvel flutt ósk um að hann mætti af nýju til hlaupa með okkur, honum yrði tekið fagnandi. Einnig var nefnt að Þorvaldur mætti fara að láta sjá sig að hlaupum, en hann hefur verið fjarverandi undanfarið.

Magnús sagði okkur fallega sögu. Það voru drengirnir sem voru að metast um hver ætti stærstu mömmuna. Sá vann sem sagði frá því þegar móðir hans fór með nærbuxurnar sínar í þvottahús og afgreiðslumaðurinn sagði: "Því miður frú, við tökum ekki við sirkustjöldum."

Hvað er betra ungum drengjum en að þreyta létt hlaup á sunnudagsmorgni í löðrandi blíðu? Það lyftir andanum og fyllir sálina andakt yfir fegurð sköpunarinnar og hjartað þakklæti fyrir að fá að njóta þeirra gjafa sem okkur eru gefnar.

Við Magnús fórum fyrir hópnum, léttir á fæti sem trippi á vori, en þeir hinir á eftir og mátti heyra óminn af samræðum þeirra. Í Nauthólsvík voru menn í óða önn að blása upp mikinn belg sem átti að mynda hliðið að hlaupi í þágu baráttunnar gegn krabbameini síðar um morguninn.

Enn sáum við ástæðu til að fagna því að eiga svo ágætan fulltrúa í Borgarstjórn sem hann Hjálmar okkar þegar við komum að tröppunum við Bústaðaveg. Þar var búið að ganga frá öllu svo að til fyrirmyndar er, búið að hlaða steinvegg upp með stígnum og gróðursetja fallegan gróður sem farinn var að taka á sig haustlitina. Nú söknuðum við þess að hafa ekki með okkur myndavél til þess að festa allan umbúnað á filmu, með sjálfa okkur vitanlega í forgrunni. En það verður bara næst.

Á slíkum dögum tekur maður varla eftir því að verið sé að fara 11 km leið á sunnudagsmorgni, áður en maður veit af eru komnir Klambrar og svo Sæbraut. Þar um slóðir var allt krökkt af erlendum ferðamönnum svo erfiðleikum var háð að komast áfram. En það hafðist á endanum og farið um Miðbæ, þar sem húfuklæddir menn sátu við hornborðið á Café París þar sem áður sátu öldungar og skeggræddu málin af mikilli lífsvisku.

Túngatan er jafnan hlaupin upp að kirkju og þar signa menn sig. Hossvallagatan tekin á endaspretti og loks Pottur. Mættir voru Guðni landsliðsþjálfari, kona hans, og Jörundur. Rætt var um knattspyrnu og landið Moldóvu, sem ku vera við hliðina á Rúmeníu. Ekki hefur frekar verið rætt um hlaup að Melum í Hrútafirði þetta árið og er ósennilegt að af því verði úr því sem komið er.

Allir heilir og góðir og horfir vel með hlaup i Samtökum Vorum í vetur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband