Mögnuð endurkoma tannlæknis

Menn muna eftir því þegar við Magnús fórum út að hlaupa á seinasta ári, lentum í snjóstormi og urðum að snúa til baka og hætta hlaupi. Um þetta var saminn og fluttur leikþáttur af nokkrum góðum félögum sem höfðu gaman af. En nú voru þessir sömu spéfuglar fjarri góðu gamni, því að Magnús mætti af nýju í hlaup á sunnudagsmorgni eftir að hafa haldið sér til hlés í rúmt ár. Við frændur og vinir, Ólafur Þorsteinsson og Ólafur Grétar, fögnuðum Magnúsi vitanlega og upplifðum stundina sem sögulega. Það var góð tilfinning að leggja upp í hlaup í sumarblíðu á fögrum degi.

Við töltum af stað á rólegu nótunum og var ekki að sjá að Magnús væri óhlaupinn sem næmi einu ári. Rifjaður upp árekstur frá síðustu viku þar sem bakkað var á bifreið Formanns. Upplýst að öll tilskilin leyfi voru til staðar. Framundan er gönguferð Formanns og fjölskyldu í Reykjarfjörð á Ströndum. Magnús upplýsti að hann hefði verið á þeim slóðum í fyrradag, en snúið við þegar vegurinn endaði skyndilega. 

Magnús sýndi karakter þegar hann hljóp bæði fram hjá Skítastöð og Skerjafirði án þess að tilkynna að hann þyrfti að hætta hlaupi vegna mikilvægs fundar í Kirkjuráði. Sömuleiðis sýndi hann sjálfsaga þegar hann fór gegnum Nauthólsvík án þess að fara í skotið sitt og létta á sér. Þar er nú búið að að setja upp myndatökuvél svo að allt umdeilanlegt athæfi myndi enda á samfélagsmiðlum. 

Við sýndum Magnúsi helstu breytingar sem orðið hafa á hefðbundinni sunnudagsleið okkar, m.a. Tröppur við Veðurstofu, vinnu við Stokk, nýjan vatnspóst á Klambratúni o. fl. Líklega var það hér sem við fórum að vorkenna Prófessor Fróða að fara á mis við samvistir við okkur, félaga sína, og það góða starf sem iðkað er innan vébanda Samtaka Vorra. Skynsamlegast væri fyrir hann að fara úr utanvegagírnum yfir í vitleysisgírinn aftur og taka létt skeið í kátra sveina- og meyjaflokki. 

Farið niður á Sæbraut og engan bilbug var að finna á tannlækninum, það var haldið áfram án barlóms eða umkvartana. Hlaupi lauk á hefðbundnum stað, Plani við Vesturbæjarlaug, þar sem við hittum Jörund prentara önugan sem aldregi fyrr. Í Pott mættu auk framangreindra Einar Fellsstrendingur, Guðni og frú, Bjarni Fel., Margrét barnakennari o.fl. Rætt um knattspyrnu, íbúðakaup, bílakaup og tilheyrandi montnúmer. Á það var bent að ættlausir menn gætu ekki gert tilkall til montnúmera.

Nú er bara spurningin: verður framhald á hlaupum Magnúsar? Munu Kári, Gísli og Fróði snúa til baka?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband