30.3.2019 | 17:35
Fagur föstudagur
Jú jú, fólk hefur sosum verið að orða það hvort þessi samtök séu alveg dauð eða þeir sem enn þöktir öndin í séu komnir í hjólastól. Sannleikurinn er sá að tveir menn í Vesturbænum, skrifari og blómasali, halda uppi merkjum hlaupa, líkamsræktar og jákvæðra lífsviðhorfa. Og þeir voru enn mættir á föstudegi í hlaup. Hringt hafði verið í Bjarna Benz fyrr um daginn, en hann ekki svarað, væntanlega hefur hann ekki fengist til að slíta sig frá Útvarpi Sögu.
Svo að það vorum við tveir sem skokkuðum léttfættir af stað, Einar að vísu með átta sneiðar af pitsu í belgnum síðan í hádeginu, en það virtist ekki há honum. Verra var með baunahakkréttinn sem skrifari hafði innbyrt um hádegisbil, svoleiðis glópska hefnir sín í svo krefjandi athöfnum sem hlaup alla jafna eru.
Nú, það var rætt um mál málanna, fall WOW Air og afleiðingar þess fyrir Ísland í stóru sem smáu til lengri og skemmri tíma. Virtist okkur Einari sem þetta myndi færa þægilegan svala yfir íslenskt efnahagslíf og loks yrði hægt að manna stöður í leik- og grunnskólum og á spítölum. Þá myndi trúlega fækka í hópi túrista á Laugavegi á háhlaupatíma svo að þar yrði fært fyrir hlaupara. Þannig afgreiddum við Einar aðsteðjandi vanda á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
Ég var enn bræðandi með mér umræður fyrri hlaupa um hlaupafatnað og merkjavöru. Lít sem snöggvast á Einar og spyr hvar hann hafi keypt sín hlaupaföt. Sports Direct svaraði hann kinnroðalaust. Þá sló það mig að það er hægt að hlaupa í fötum þó þau séu ekki merkjavara og kosti augun úr. Ákvað með það sama að láta slag standa, gera bragarbót á löngu úreltum og upplituðum, illa þefjandi garderób og kaupa allt nýtt.
Nú þar sem við erum að koma skokkandi yfir Klambratúnið verður á vegi okkar gamli barnakennarinn og vildi selja Einari hlaupaúrið sitt. En á Laugavegi urðu þeir atburðir sem ollu mönnum heilabrotum. Þar er kallað til Einars og hinum megin götu stendur karlmaður nokkur vel við vöxt og brosleitur. Einar bregst snöfurmannlega við, stekkur yfir götuna og faðmar téðan karlmann og kyssir. Þetta hefur skrifari ekki séð til Einars áður og var nýlunda. Einar kom hins vegar til baka eftir stutt spjall við manninn og kvað hann bera viðurnefnið hinn nízki enda þótt hann væri alls ekki nískur. Þvert á móti væri þetta einn allra örlátasti maður sem Einar þekkti og viðurnefnið þannig öfugmæli.
Við héldum áfram niður Laugaveginn gegnum túristaþvöguna, gegnum Austurstrætið, yfir Austurvöll og skokkuðum loks upp Túngötuna eins og trippi á vori. Létt og gott föstudagshlaup í rjómablíðu, fimm stiga hita, sólskini og logni. Í potti sátu tveir menn auk fyrrnefnds barnakennara skömmustulegir þrátt fyrir að hafa arkað nokkur hundruð metra fyrr um daginn.
Næst: hlaup á sunnudegi. Í gvuðs friði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.