Riddarar götunnar

Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem fara um götur og stíga eru upp til hópa hjálpsamir og velmeinandi, með fáeinum undantekningum. Meira um það seinna. 

Hlaup hafa verið þreytt sleitulaust og án uppihalds alla lögboðna hlaupadaga undanfarna viku. Færð hefur verið sæmileg og veðurskilyrði sömuleiðis þokkaleg svo halda mátti úti hlaupi. Nú er spurningin að halda sér á hreyfingu, þreyja þorrann og góuna og koma svo sæmilegur undan vetri og fara að taka á því á vormánuðum. 

Það eru þessir sömu einstaklingar sem eru að göslast þetta viku eftir viku: Einar blómasali, Bjarni Benz, Ólafur skrifari og Ólafur H. Gunnarsson. Ó. Þorsteinsson og Þ. Gunnlaugsson á sunnudögum. 

Jæja, það voru þessir fjóru hlauparar á föstudaginn eð var og mikil umræða spannst um Klausturmál. Bjarni, sem hefur alla sína visku úr Útvarpi Sögu, sagði alveg ljóst að einhver lesbískur feministi hefði bruggað Gunnari Braga ólyfjan svo á hann seig óminnishegri og fékk Frakka sínum rænt. Nú þyrfti Gunnar greyið að spandera stórum summum í sálfræðinga til að komast að því hver hefði öskrað á upptökunni. Við hinir sáum í hendi okkar að þetta væri allt eitt stórt samsæri gegn Simma, runnið undan rifjum forseta Alþingis. Á þessa lund voru nú umræðurnar í hlaupi föstudagsins þar sem við runnum hefðbundið skeið og Bjarni bara rólegur til þess að gera. Birtan heldur áfram innreið sinni.

Hefðbundið inn í Nauthólsvík og upp skógarstígana snæviþakta. Bjarni fremstur, léttur eins og messudrengur, við hinir þungir, hægir og þreyttir. En þegar komið var í Hlíðar birtist hið rétta innræti manna. Þar sat fólksbifreið föst í snjó og kona æddi fram og tilbaka eftir götunni í leit að hjálp. Bjarni alvitlaus, kominn á undan okkur, grenjandi hinum megin við Miklubraut: “Áfram, áfram!”, svo að konan varð mjög skelkuð. Við þrír buðum fram aðstoð okkar. “Eruð þér í vanda stödd, fröken? Megum við hjálpa yður?” spurðum við. Svo var tekið til við að ýta, en bíllinn sat sem fastastur og rúllaði bara fram og aftur. Það var ekki fyrr en gamli ketilsmiðurinn náði almennilegu taki undir bílnum að hann gat lyft bílnum upp og þá losnaði hann. Konan var full þakklætis og sá þarna að enn eru til heiðursmenn á Íslandi. Bjarni stóð hins vegar gapandi af hneykslan yfir svona vitleysisgangi í miðju hlaupi.

Við áfram Klambra og Rauðarárstíg þar sem Bjarni benti okkur á listaverk með beru kvenfólki sem stillt hafði verið út í glugga Gallerís Foldar til þess eins að ögra velsæmiskennd allra betri borgara. Nú var farið niður á Sæbraut og var það mikill léttir fyrir okkur af tveimur ástæðum: Bjarni mátti öskra eins og naut án þess það hreyfði við okkur og við losnuðum við að fara á svigi milli túrista. Fram hjá Hörpu og þá leið upp Ægisgötu og tilbaka með viðkomu og krossmarki hjá Jesú bróður. Nú vitum við fyrir víst að vorið er á næsta leiti.

Jæja, þarna voru sumsé Denni og Sæmi mættir eftir sukksama ferð um Miðbæinn. Þá barst í tal Þorrablót Samtaka Vorra og munu félagsmenn fljótlega fá tilkynningu um stað og stund. En næst verður hlaupið á morgun, sunnudag, kl 10:10, og trúum vér að þátttaka verði góð. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband