5.11.2018 | 10:10
Sunnudagshlaup
Í Brottfararsal á sunnudagsmorgni var um það rætt með hvaða ráðum við gætum dregið hann Magnús okkar með okkur í hlaupin á ný. Það voru Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Einar blómasali og Ólafur skrifari sem lögðu á ráðin um heilsubót fyrir fjarstaddan tannlækni. Veður gott, stilla, frost, yndislegt! Hlaupið hefðbundið en fáir urðu á leið okkar og enginn sem bað um viðtal. Fyrr en í Nauthólsvík að hún Irma varð á vegi okkar á ferð með Landvættum sem stunda hlaup, sjósund, göngur og ég veit ekki hvað. Her manns sem steðjaði upp úr fjörunni og við fundum til smæðar okkar, einungis þrír eldri herramenn á ferð.
Tröppu miðar vel áfram og menn sjá fyrir sér pallinn þar sem Formaður getur staðið og flutt snjallar ræður yfir konum með ættarnöfn. Leiðin lá um þekktar slóðir enda erum við ekki þekktir fyrir að breyta mikið til. Þó voru gerð afbrigði er komið var á Hlemm, farin Hverfisgata niður í bæ og gerð úttekt á nýbyggingum, sem margar hverjar munu vera undir íbúðir.
Pottur var fullmannaður að heita má, utan hvað Guðni Kjartansson lét sig vanta og var miður því að uppi voru óskir um að ræða við hann orðbragð Keflvíkinga á knattspyrnuvellinum á sjöunda áratugnum. Þarna voru Jörundur prentari, Stefán, Mímir, dr Einar Gunnar, Margrét barnakennari - auk hlaupara. Vantaði bara dr Baldur til þess að pottur gæti talist fullsetinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.