Skrifari uppfræðir tannlækninn

"Magnús" sagði ég. "Hefurðu velt því fyrir þér að tærnar, að undanskilinni stórutá og litlutá, bera engin nöfn? Fingurnir heita allir eitthvað, en þessar þrjár tær heita ekki neitt." Magnús var bæði hissa og sleginn. "En vissirðu líka að það er ætlast til þess að þú getir hreyft hverja og eina þeirra individúellt. Þetta sagði snyrtifræðingur mér þegar ég var í fótsnyrtingu eitt sinn. Og hún bað mig aukinheldur um að hreyfa eina tiltekna tá. Þegar það tókst ekki fullyrti hún að það þyrfti bæði gáfur og einbeitingu til þess að sveigja líkamann að duttlungum hugans." Nú var Magnús aldeilis dolfallinn, og er hann þó útskrifaður úr anatómíu.

Þeir frændur, Formaður til Lífstíðar og skrifari, mættu einir til boðaðs sunnudagshlaups kl 10:10 sl sunnudag. Veður stillt og milt, hiti 9 gráður og hlaup ákjósanlegt. Þarna spannst eitt samfellt samtal sem aldrei féll niður og var þó farin hefðbundin leið um Nauthólsvík, Kirkjugarð, Veðurstofu, Klambra, Sæbraut og þannig til Laugar. Hittum fjölda fólks sem vildi ná af okkur tali og veittum við fúslega áheyrn þótt það ylli töf á hlaupi. Pottur fjölmennur og var þar ekki töluð vitleysan frekar en endranær.

Nú rann upp miðvikudagur og voru þessir mættir til hlaups: skrifari, Benz, blómasali, Hjálmar og Ólafur heilbr. Bjart veður en svalt og varð töf á brottför þeirra þriggja þar eð Hjálmar vildi ræða einhverjar nýstárlegar nýbyggingar í Vesturbæ, við Benz lýstum frati á þá og lögðum í hann. Hittum fyrir tannlækninn snemma á Ægisíðu með HUND. Segi og skrifa: HUND. Var hann að passa hundinn fyrir son sinn og var hundurinn hinn geðþekkasti, eins og Magnús sjálfur. Héldum við Benzinn svo áfram för okkar. Spurt var um Benzling og fékkst svarið greiðlega: "Hann er að hlaupa inni á bretti með kellingum." Útmáluðum við báðir hvílík fásinna slíkt væri þegar byðist að hlaupa í svölu haustloftinu fylltu benzíngufum frá vellinum. Nema hvað Benzinn hélt uppi paról í hlaupinu, fyrst ættfræði sem hefði sómt sér vel í hvaða sunnudagshlaupi sem er, og svo flugvélar, flugvélamótorar og saga þeirra. Við fórum nokkuð greitt inn í Nauthólsvík og svo inn á skógarstíga í Öskjuhlíðinni, út að nýju tröppunum sem eru að taka á sig mynd og þá leið til baka. Ekki vitum við hvað varð af félögum okkar, en ekki voru þeir komnir til Laugar er við hurfum þaðan eftir vel heppnað miðvikudagshlaup.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband