“Sá aumingi!”

Fáir mættir á boðuðum hlaupadegi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, nánar tiltekið Bjarni Benz og Skrifari. Hefðbundið sunnudagshlaup framundan. Skrifari gjóaði augum um allt og hafði á orði að Einar hefði haft góð orð um að mæta. “Sá aumingi!” hreytti þá Benzinn út úr sér. Ekki er auðvelt að giska á hvað búið hefur að baki svo eindreginni yfirlýsingu, en hlaupið þreyttum við tveir í suðvestan garra, hliðarvindi út alla Ægisíðu, en það truflaði hvorki hlaup né innihaldsríka umræðu um hvaðeina er til framfara horfir í landi voru. 

Sem við erum að tölta inn í Nauthólsvíkina laumast hjólafantur að baki okkur og dinglar mikið í bjöllu sína. Kom það mér á óvart þar sem við hlupum á göngustíg og hjólastígurinn greinilega merktur til hliðar við okkur. Var þá ekki téður Einar mættur á reiðhjóli og sagði að hann hefði tafist vegna þess að hann hefði þurft að ræða við konu sína! Stuttur stanz gerður við Braggann og úttekt framkvæmd og stráin skoðuð. Haldið svo áfram um Öskjuhlíð og hjá Garði og næst gerð úttekt á spellvirki við uppgöngu á Veðurstofuhálendið, en þar er búið að rífa upp tröppur og þarf að klífa moldarbing til þess að komast leiðar sinnar.

Á Klömbrum falaðist Benzinn eftir hjólfáki blómasala og fékk að renna sér út að Flókagötu. Nú var tekinn Laugavegurinn enda langt síðan að staða verzlunarrýma var könnuð þar. Mest fór fyrir steinkössum sem rísa þar á hverjum lófastórum bletti og gamla tímanum lyft í burtu. Bjarni fór niður Laugaveginn og Bankastrætið með hávaða og bægslagangi eins og honum er einum lagið. Skrifari hugsaði með sér að það væri ekki vitlausara en hvað annað að eyða sunnudögunum svona úr því að ferð í Kirkjugarðinn með Formanni til Lífstíðar væri ekki í boði. Vonandi rætist úr því næsta sunnudag.

Nú kom rúsínan í pylsuendanum. Kaupmaður vor hafði boðað okkur á sinn fund að hlaupi loknu og kíktum við til hans á kontórinn þar sem við þágum kaffi og súkkulaðimola yfir spjalli um peisið í maraþonhlaupum. Vart er hægt að hugsa sér betri lok á hlaupi en þetta. Svo var setið í Potti í klukkutíma og rætt um hlaup dagsins og þá sem fjarstaddir voru. Sunnudagarnir gerast ekki öllu betri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband