Svo gott að það er vont

Einar seinn að vanda er frú Vilborg skilaði honum til hlaups. Við Bjarni vorum ekki að bíða eftir þessu en lögðum upp í ágætu veðri, skýjað, rigning, 8 stiga hiti, logn, gerist ekki betra. Aðrir vildu doka eftir blómasalanum, það voru Jóhanna, Ólafur heilsulausi, G. Löve og Baldur Tumi. Léttir vorum við félagarnir á okkur og ekki vil ég minnast þess að þau hin hafi náð okkur fyrr en seint og um síðir. Og Einar bara alls ekki. Ólafur fór Suðurhlíð, aðrir fóru styttra, en við Bjarni settum stefnuna á Austurbæinn - og ekkert bólaði á Einari.

Við gengum yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut og fórum svo fetið eftir það. Kemur ekki Einar sprengmóður og biður okkur í gvuðanna bænum að ganga spölkorn, hann væri alveg búinn. Hlupum af stað upp Boggabrekkuna, yfir hjá Útvarpinu, yfir Miklubraut og svo niður Kringlumýrarbraut á spretti. Þar rákumst við á Bigga Jóga sem hringdi fimm sinnum í blómasalann í dag að biðja hann að sækja fyrir sig sorptunnu í Hafnarfjörðinn og flytja hana á nýja Golfinum í Vesturbæinn. Valdi Einar honum nokkur hnitmiðuð ónefni og einkunnir. 

Við áfram niður á Sæbraut og svo var tekinn samfelldur sprettur út að Hörpu. Eins og menn geta lesið er þessi hlaupari óðum að hlaupa sig niður á gamalt form og til alls vís í sumar. Eftir þetta var það bara formsatriði að klára tæpa 14 km og var það góð tilfinning að koma til Laugar og komast í Pott, þar sem við hittum Jóhönnu, Baldur og Ólaf hinn. Hefðu mátt vera fleiri hlauparar í dag - og hvar er Gústi?

Þetta var svo gott að það var vont - og á bara eftir að versna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband