Enginn skilinn eftir

Föstudagur. Hástemmdar yfirlýsingar og svardagar að morgni, en eitthvað farið að snjóa yfir fögur fyrirheit er leið á daginn. Altént mætti blómasalinn ekki fyrr en við hin vorum að leggja upp frá Laug. Þetta voru Jóhanna, Rúna, Ólafur Gunn., Guðmundur Benz, Bjarni Benz, Þorvaldur og skrifari. Enginn Fróði, enginn Flosi. 

10 stiga hiti, bjart, en einhver gjóla á sunnan. Ákveðið að fara hefðbundinn föstudag, sem er austur Sólrúnarvelli, hjá Skítastöð og inn í Nauthólsvík, upp á Flanir, beygt upp Hi-Lux og áfram upp Öskjuhlíðina, hjá Veðurstofu, Saung- og Skák, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut og þannig áfram til Laugar. Fyrirheit um að enginn skyldi skilinn eftir gleymdust þegar á Hossvallagötunni og Skrifari var skilinn eftir. Þorvaldur lónaði að vísu rétt fyrir framan hann, og á endanum fylgdust þeir að inn í Nauthólsvík, þar sem Þorvaldur beygði af og fór Hlíðarfót. 

Skrifari er vanur að standa við markmiðssetningar sínar og hljóp svo sem fyrr var lýst. Nú eru Ásatrúarmenn búnir að girða fyrir Hi-Lux og þurfti ég að fara gegnum skóg til þess að komast inn á rétta leið. Hér mátti rifja upp gamla þjóðsögu um HiLux-jeppa sem stóð afsíðis í rjóðri fyrir töttögu árum og rúðurnar voru hélaðar, tölum ekki meira um það. Hljóp upp brekkuna, en hvíldi samkvæmt venju er upp var komið. Svo var þetta nokkuð hefðbundið með Veðurstofuhálendinu, Saung- og Skák, Klömbrum, Hlemmi, Sæbraut og þannig áfram.

Mikið sem þessi hlaupari var sveittur og þreyttur er komið var til Laugar! Þá voru félagar mínir þegar komnir til baka, en fögnuðu öngu að síður skrifara sínum. Við tók samtal um mat og matargerð.

Þetta er allt að koma, þrekið vex með hverju hlaupi, kílóin renna af í stríðum straumi og um leið verða hlaupin auðveldari. 

Næst sunnudagur kl. 9 10.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband