6.4.2018 | 23:00
Dapurt
Menn voru slakir í dag. Mætt til hlaupa á föstudegi próf. dr Fróði, Jóhanna, Súsanna, Maggie, blómasali, Benz, Þorvaldur Gunnlaugsson, Skrifari. Svo kvaðst Denni skransali hafa hlaupið, en fyrir því eru engar áreiðanlegar heimildir.
Blómasalinn sporðrenndi heilu stykki af Cadburys sem Jörundur gaf honum fyrir kl 9 í morgun þrátt fyrir yfirlýstan ásetning um að hann væri ekki lengur háður súkkulaði.
Það var lagt upp í góðu veðri, sól, stilla, fimm stiga hiti hið minnsta. Þorvaldur að koma tilbaka eftir tveggja mánaða veikindi, slappur og útnefndi Skrifara sem sinn héra. Farið rólega og fljótlega grúppuðu sig saman Skrifari, Þorvaldur, Benz og blómasali. Það var nefnilega þannig að er komið var í Skerjafjörð var sá feiti búinn að gefast upp. Það þurfti meiriháttar átak að draga hann áfram, alls kyns afsakanir spruttu fram af vörum hans, súkkulaðiát, svefnleysi, eggjaát í gærmorgun, og ég veit ekki hvað.
Skrifari hélt sínu striki, enginn afsláttur, þeir hinir máttu bara reyna að halda í við hann. Áfram steðjað fram hjá Skítastöð inn í Nauthólsvík og svo upp hjá HR og þá voru þeir þar á göngu, blómasali og Benz. Við Þorvaldur komum á feiknaferð og rífum þá upp úr dagdraumum og neyddum þá til að lyfta fótum upp af malbikinu.
Á þessu gekk út Hlíðarfót, hjá Gvuðsmönnum og yfir á Hringbraut. Þá var þetta eiginlega komið, eftir þetta lá bein leið tilbaka til Laugar. Sumir á ótrúlegu stími.
Pottur góður að vanda. Denni mættur og sagði lygasögur af eigin hlaupaafrekum. Svo var ætt á Ljónið að halda upp á Fyrsta Föstudag. Þangað mættu allir fyrrnefndir hlauparar, nema Maggie, en að auki Helmut og Jörundur, uppástöndugir og kjaftforir sem aldrei fyrr.
Næsta hlaup: sunnudagur kl. 9:10, rólegt hvíldarhlaup með stoppi í Garði. Eru það eindregin tilmæli félagsmanna að Formaður til Lífstíðar láti sjá sig þá og taki góða rispu í persónufræðum og bílnúmerum, auk þess sem saga Brynleifs Tobíassonar verður rifjuð upp.
Í gvuðs friði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.