21.3.2018 | 19:54
Endurkoma á vori
Ja, það fór þó aldrei svo að Skrifari mætti ekki af nýju til hlaupa. Raunar hafði hann laumast einum þrimur sinnum út að hlaupa í kyrrþey áður en hann hafði kjark til að sýna sig innan um félaga sína. Seinast var það á mánudaginn eð var, en þá varð prófessor Fróði á vegi hans fyrir slysni. Prófessorinn horfði á fætur Skrifara þar sem hnýttir höfðu verið hlaupaskúar á fæturna. Eru þetta hlaupaskór? spurði hann forviða. Hvað eru hlaupaskór að gera á fótunum á ÞÉR? - og þannig áfram.
Nú var mætt á miðvikudegi á lögboðnum hlaupatíma og mætt voru Jóhanna, Flosi, fyrrnefndur Fróði, Magnús tannlæknir og Einar blómasali. Einar hefur heitið Skrifara mórölskum stuðningi á endurkomutíma meðan þrek og úthald er að byggjast upp. Á meðan er bannað að hæða og leggja í einelti. Er komið var út á stétt dúkkaði upp hreppsnefndarfulltrúi Sveinsson og bar ekki við að kasta kveðju á Skrifara enda þótt nærvera hans hljóti að teljast til nýlundu. Ja, sá hefur ekki áhyggjurnar af atkvæðum í hreppsnefndarkosningunum á vori komanda.
Einar er á leið í Kaupmannahafnarmaraþon í maí og má því fara að herða sig, hann ætlaði 16 km. Aðrir voru hófstilltari. Lagt upp á rólegu nótunum og fékk Skrifari það óþvegið frá ónefndum hlaupurum, hvort hann væri ekki þreyttur, hvort hann ætlaði alla leið niður á Einimel o.s.frv. Ég lét ókvæðisorðin sem sem vind um eyrun þjóta og hélt mínu striki og hélt enda í við Flosa, Einar og Magga út í Skerjafjörð, ja, eða kannski væri nákvæmara að segja að Lambhóli, nánast. Þá tók við ganga hjá undirrituðum, enda mikilvægt að fara sér hægt og skynsamlega í endurkomunni og ekki of geyst. Á þessu gekk út að Skítastöð, en þar sneri ég við og fór tilbaka. Nú brá svo við að ég var orðinn heitur og gat tekið Ægisíðuna á góðu blússi. Mætti þar TKSurunum Guðrúnu Geirs, Rúnu, Hönnu og Öldu - svo var Baldur Tumi eitthvað að villast þarna.
Kom þreyttur og sveittur til baka til Laugar og hitti Magga, sem fór fyrir flugvöll. Gott hlaup sem lofar góðu um framhaldið. (Nefndi e-r Fyrsta Föstudag nk. föstudag?)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.