Guð hjálpi þér!

Í dag var fagurt veður, 15 stiga hiti, gola, sólskin og því kjörið að taka sprettinn í glaðra sveina hópi. Sveinarnir kátu að þessu sinni voru Einar blómasali, prófessor Fróði, Magnús tannlæknir og Ólafur skrifari. Á Plani upplýsti Einar að hann stefndi á heilt maraþon í sumar. "Guð hjálpi þér!" hrópaði prófessorinn og voru orð að sönnu eins og kom á daginn í hlaupi dagsins.

Farinn Neshringur. Upp á Víðirmel, þaðan vestur í Ánanaust og svo á Nes. Þeir Fróði og blómasalinn fóru fyrir hópnum í dag og voru sprækir, Magnús á milli og skrifari rólegur. Svo róaði Maggi sig og varð samferða skrifara, og voru þá félagar okkar talsvert langt á undan okkur. En á móts við Lindarbraut gerðust undrin sem undirstrikuðu þörf sumra fyrir hjálp almættisins: Einar blómasali var sprunginn. Hann stóð og beið eftir okkur Magga. Kunnuglegar aðstæður. Við leyfðum honum að skrölta með okkur það sem eftir var leiðar, og þurfti að stoppa og hvíla nokkrum sinnum, svo var hann þreyttur. Maggi sagði okkur sögur sem voru til þess fallnar að fá einfaldar og hreinlyndar sálir til þess að roðna.

Fróði náði okkur á Nesvegi og svo var haldið til Laugar. Þar var margt um manninn. Þetta var gott hlaup. En það má spyrja sig hvort Einar verði tilbúinn fyrir maraþon eftir tvo og hálfan mánuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband