17.4.2016 | 20:09
Hlauparar niðurlægðir
Mættir til sunnudagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins Helmut, Jörundur, Magnús, Ó. Þorsteinsson og skrifari. Hlaupasamtökin eru að ná vopnum sínum og viðburðir Samtaka Vorra að ná fyrri virðingu og eftirtekt. Helstu málefni reifuð í Brottfararsal, en frekari ígrundun beið hlaups. Nægur var tíminn, við sáum fram á hátt í tveggja tíma hlaup, göngu, sögur og hvers kyns greiningar. Sunnudagshlaup eru hátíð. Góðir, velviljandi og velmeinandi piltar taka töltið og segja sögur.
Menn ræddu málefni próf. Fróða, sem ætlar í eitt langt hlaup í Grenoble í sumar, 170 km með 10.000 metra hækkun. Var það álit manna að prófessorinn væri magnaður afreksmaður verandi ekki íþróttamannslegar vaxinn. En þetta var nú bara okkar prívat skoðun, nokkurra vaskra drengja í Vesturbænum.
Tölt var af stað í yndislegu veðri, björtu og fögru þótt svalt væri. Sama sagan og áður með þá Jörund og skrifara, nokkuð langt í að eðlilegt þrek byggist upp eftir árs fjarveru frá hlaupum, en þetta kemur vonandi smám saman. Farið hægt um Ægisíðu og Formaður heilsaði á báða bóga - á ensku - sýnandi að í þessu landi býr kúltíveruð þjóð sem kann erlend tungumál. Þeir hinir nokkuð á undan, en við Jörundur bara spakir.
Sama gilti og síðasta sunnudag, stefnan sett á Nauthólsvík með gönguhléum, eftir það er skrokkurinn orðinn heitur og ræður betur við eðlilegan hlaupatakt. Í Kirkjugarði fóru þeir Helmut, Jörundur og Magnús að vitja vökumanns garðsins, sem jarðsettur var þar 1932, en við frændur héldum áfram upp úr garði og settum stefnuna á Veðurstofuhálendið. Rætt um reykingar og ísbúðir.
Héldum raunverulega nokkuð góðu tempói og samfelldu hlaupi út á Rauðarárstíg, þar sem félagar okkar náðu okkur loksins. Niður á Sæbraut og svo áfram um Miðbæ og Túngötu.
Gott hlaup, hiti og sviti. Blómasalinn kom í Pott og kvaðst hafa verið upptekinn við að spartsla, slípa og mála heima við. "Maður verður að forgangsraða" sagði hann til skýringar. Hlaut hann háðulega ádrepu fyrir svo vanhugsaða "forgangsröðun" Hlaup hafa alltaf forgang.
Aðrir í Potti: Unnur og Pjetur, Mímir, próf. dr. Einar Gunnar, Stefán og Helga - auk fyrrnefndra hlaupara. En hlutirnir komust fyrst á hreyfingu þegar Maggie kom, hún tilkynnti vafningalaust að Fyrsti Föstudagur maí-mánuðar yrði hjá henni á Ljósvallagötu 30, föstudaginn 6. maí nk. Í boði verður namibískur matur. Strictly BYOB policy. Skipulegt borðhald hefst kl. 19:00. Formaður minnti á Melahlaup í lok júlí, en þar stendur Maggie vel að vígi að vinna bikarinn til eignar eftir góða frammistöðu síðastliðin tvö ár.
Næst er hlaup á morgun kl. 17:30.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.