Blautbolskeppni

Mættir til hlaups á miðvikudegi: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, blómasalinn, skrifari, Þorvaldur, Jörundur, Ingi, Rúna og Maggie. Í Brottfararsal var haft í frammi hefðbundið andlegt ofbeldi gegn skrifara, bent á hann og hann nefndur aumingi. Rætt um Einar, Belfast og prógrammið: hlaupa í skotheldu vesti með hjálm. Úti var glerhált og fremur napurt, en það fældi ekki frá hlaupi. Við lögðum upp með ólík markmið í huga, sumir vildu ná út að Skítastöð og tilbaka, aðrir stefndu á 10 mílur hið minnsta. 

Það var dimmt úti og mjög fljótlega þurfti fólk að hafa augu og fætur hjá sér til að detta ekki. Við héldum hópinn býsna lengi, alveg út í Skerjafjörð, en svo fór að draga sundur með okkur - og Jörund sá ég bara í upphafi hlaups og ekkert meira. Skrifari kjagaði þetta áfram, en mátti jafnvel ganga þar sem mest hálka var, svo sem við Flugvöll. Var hikandi er kom að Skítastöð, átti maður að snúa við eða halda áfram? Jæja, við látum slag standa, þetta gengur svo vel. 

Komið í Nauthólsvík og var ýmist hlaupið eða gengið eftir aðstæðum. Hér var hlaupari orðinn vel heitur og því var lítið mál að klára Hlíðarfót þótt engin met væru slegin í dag.

Við komu til Laugar hitti ég Ósk og Hjálmar, Ósk spurði hvort það hefði rignt svona mikið - og horfði á galla skrifara sem hefði sómt sér vel í hvaða blautbolskeppni sem er. Nei, Ósk, þetta var sviti, það var tekið á því í dag. Flosi og Einar komu stuttu á eftir mér og höfðu farið 10 km með Rúnu.

Framundan Þorrablót Hlaupasamtakanna - en fyrst verður hlaupið meira, næst á föstudag.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband