Fimmti leggur - b

Dagurinn lofaði góðu, sól skein í heiði og vindar voru mildir. Ætlunin var að ganga fimmta legg - b - í Pílagrímagöngu frá Taglaflötum að Apavatni í árlegri guðræknigöngu Hlaupasamtakanna, þegar menn ganga þöglir og íhugulir og hugsa um gvuð og líður helst svolítið illa í leiðinni. Þegar Svíar finna til iðrunar og velja heppilega aðferð til að sýna hana fara þeir inn í skáp og draga eitthvað gamalt yfir sig. Íslendingar ganga yfir heiðar og hugsa um gvuð. 

Mætt við Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 9 skrifari, Ágúst, Ólöf, Maggie, Guo Xiu Kan, Helmut, Jóhanna, Flosi, Frikki, Rúna og Ragnar. Einar var í sveitinni og bað um að vera sóttur. Guðrún Geirs fór á eigin vegum. Nú ríkti bara heiðríkjan í skipulagsmálum þeirra Helmuts og Jóhönnu, en vanalega hafa þau staðið og rifist um hvernig ætti að skipta á bíla, hver færi með hverjum og hvert, en nú var samstaðan algjör og eindrægnin líkust fuglasöng að vori. Jæja, kemur þá ekki Rúna þrammandi þung á brún og upphefur gagnrýni á skipulag og hvers vegna eigi að gera þetta svona, af hverju má ekki gera þetta hinsegin og áður en langt var liðið logaði allt í illdeilum á Plani um hvernig væri rétt að skipa málum. Oh yes, hugsaði skrifari, akkúrat það sem við þurftum nú, og blómasalinn í fullkominni óvissu um aðkomu sína að hlaupi dagsins. Að endingu var gerð einhver málamiðlun svo að við þyrftum ekki að standa þarna í allan dag. Fólki raðað á bíla og stefnan sett á Þjónustumiðstöð á Þingvöllum.

Skrifari ók þeim Maggie og Guo Xiu áleiðis, þær spjölluðu sín á milli alla leiðina en ræddu fátt við skrifara. Er komið var á Þingvöll ók Flosi okkur göngufólki að Gjábakka þar sem ganga okkar átti að hefjast. Við vorum Helmut, Ólöf, skrifari og Guo Xiu. Það var norðanátt, en eiginlega ekki kalt í veðri. Haldið af stað í áttina að Bragarbót, hagi og hagaganga, rollur á beit. Hér rifjaðist það upp markvert úr síðustu ferð, göngunni góðu á Þingvöllum, Skógarkotsleið út að Gjábakka, þegar Þorvaldur Gunnlaugsson lýsti yfir því að hann teldi það skógrækt til framdráttar ef nokkrar rollur fengju að naga gróðurinn á þessum helgasta reit þjóðarinnar.

Jæja, við röltum þetta og förum rólega yfir og dettum jafnvel í berjamó á stöku stað. Ólöf heldur uppteknum hætti að hirða drasl upp af götu sinni og var komin með álitlegt safn áður yfir lauk. Við vorum varla búin að ganga nema 5-6 kílómetra þegar fyrstu hlauparar dúkka upp, þar fóru Maggie og Flosi. Þeim lá einhver ósköp á að halda áfram og máttu ekki vera að því að staldra við fyrir myndatöku. Aðrir hlauparar komu þétt á hæla þeirra og voru öllu rólegri. Öllum stillt upp í myndatöku áður en ferðinni var haldið áfram.

Gönguskór mínir voru farnir að meiða mig, hef ekki notað þá í ár og þarf trúlega að ganga þá til að nýju. Alla vega varð ég að stansa og skoða hæla mína. Ólöf mætt með plástra, umbúðir og skæri og var ég plástraður á staðnum í bak og fyrir og gat haldið áfram ferð minni með slíkum umbúnaði.

Næst gerðist það markvert að skrifari fann tampong, ónotaðan, en skilgreindur rusl, og svo gengum við fram á uppsprettu sem rann beint undan fjallinu með blátæru, ísköldu fjallavatni. Yndislegt. Héldum áfram að naga ber af lyngi þegar svo bar undir og tafði það för okkar. Komumst þó niður að Apavatni og höfðum þá verið á göngu í fjóra klukkutíma.

Það var ljúft að komast úr gönguskóm og komast til Laugar í Fontana, með heitum pottum, saunu, hveragufu með ýmsum hitastigum - og svo sjálfu Laugarvatni þar sem mátti svamla sér til svölunar. Þarna slökuðum við á og var jafnvel hægt að fá afhentan bjór út um lúgu endurgjaldslaust.

Ólöf tíndi fram dótið sem hún hirti upp af leið sinni og lagði á tún að Laugarvatni. Þar var ístað og gúmmístig sem passaði í ístaðið, veifur, tvær veifur, bjórdós, varagloss, hestaskeifa á timburfleti o.fl. o.fl. Þetta var myndað og verður trúlega birt á heppilegum stað.  

Frábær dagur að baki með 17,7 km. hlaupi/göngu. Framundan RM - og svo lokaleggur Pílagrímaleiðar. Stefnt er að veislu að loknum lokaleggnum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband