18.7.2014 | 20:58
2. leggur Pílagrímaleiðar - síðbúin frásögn
10 hlauparar og göngumenn mættu árdegis sunnudaginn 13. júlí við Vesturbæjarlaug þess albúnir að takast á við næsta legg Pílagrímaleiðarinnar: frá Lundarreykjadal yfir í Skorradal. Þessi vóru: Helmut og Jóhanna, Jörundur, Ágúst, Maggie, skrifari, Flosi, Baldur Tumi, Tobba og Þorvaldur - Frikki og Rúna bættust síðar við hópinn, búin að hjóla fjandann ráðalausan austur á völlum. Ó. Þorsteinsson mættur á Plan að taka sinn hefðbundna sunnudagshring. Aðspurður hvers vegna hann kæmi ekki með okkur bar hann við mikilli ómegð heima fyrir. Fólk skipti sér á bíla, en sú skipulagning er ávallt krefjandi og gaman að fylgjast með Jóhönnu og Helmut þrátta um hvernig rétt sé að haga hlutunum.
Ekið sem leið lá í Borgarfjörðinn, Helmut skildi bíl sinn eftir við Fitjar í Skorradal, en aðrir óku sem leið lá að Lundi í Lundarreykjadal. Þangað voru göngumenn komnir á undan hlaupurum, þessi gengu: Helmut, Þovaldur, skrifari, Tobba og Jörundur. Við skokkuðum niður að Grímsá og lögðum í hana, hún ku eiga að ná okkur í nára, ég efast um að hún hafi einu sinni náð Tobbu í nára, mesta lagi kálfa. En botninn var óþægilegur berfættum, betra hefði verið að halda skófatnaði sínum. Grímsá var auðveld og við lögðum á Skorradalshálsinn. sú ganga var ekki mjög krefjandi, farið í sneiðingum að hætti Helmuts og er við vorum komin hátt í fjallið, hafandi gengið í ca. 40 mín. sáum við loks "hlauparana" leggja í hann. langt fyrir neðan okkur.
Við náðum toppi og var þá lesinn saltari, fluttur sermón úr Íslenskri hómilíubók og loks bauð Jörundur upp á gregoríanskan saung. Við ígrunduðum sálarheill okkar og hugsuðum hlýlega til himnafeðga. Áfram var haldið göngu.
Loks blasti Skorradalur við í allri sinni fegurð: hvílík sýn! Skógi vaxnar hlíðar og blátærir fjallalækir sem hjala við hvert fótmál. Einhver mestur sælureitur á gjörvöllu landinu. Við fórum að feta okkur niður í skóginn, en furðuðum okkur á því að við hefðum ekki orðið vör við "hlauparana". Lögðumst á kné við fjallalæki og kneyfuðum á svalandi blávatni. Óvíða á landinu er vatnið jafn heilnæmt og í hlíðum Skorradals.
Þegar við vorum að koma niður á veg heyrðist háreysti mikil uppi í skóginum fyrir ofan okkur - og viti menn! Próf. Fróði kemur með miklum bægslagangi og gargi niður skóginn - og eitthvert fólk fyrir aftan hann, líklega Maggie og Baldur Tumi. Með þessum hávaða vildu þau líklega láta líta út eins og þau hefðu "hlaupið" yfir Skorradalshálsinn.
Hér var komið niður á veg og þá var bara að "hlaupa" inn að Fitjum. Það gekk nú svona og svona, og ekki almennt að fólk hlypi, sumir voru einfaldlega uppgefnir og gengu. Aðrir fóru hægt yfir, en á endanum náðu allir lokatakmarkinu. Við komum á enn eina perluna í náttúru Íslands, Fitjum í Skorradal. Þar er búsæld mikil og búhöldar góðir. Við hittum húsfrúna sem er einn af upphafsmönnum eiginlegrar Pílagrímagöngu frá Bæ í Bæjarsveit í Skálholt og stendur einmitt yfir þessa dagana, endar í Skálholti á Skálholtshátíð. Við ræddum lengi við þessa mætu konu og var hún mjög ánægð með að hlaupahópur eins og okkar hefði tekið það upp af sjálfsdáðum að fara að hlaupa Pílagrímaleiðina og vildi að við kæmum því orði sem víðast á framfæri að þetta væri ákjósanleg hlaupaleið.
Nú þurfti að sækja bílana að Lundi og var einungis einn bíll aflögufær, bifreið Helmuts. Þeir fóru nokkrir með Helmut og þurftu að aka 40 km leið en við hin að bíða á meðan. Okkur leiddist biðin og ákváðum að leggja af stað gangandi á móti bílunum. Náðum að ganga eina 5-6 km áður en bílarnir komu og náðum þannig að hala inn ca. 18 km þennan daginn. Ágætur dagur það! Ekið sem leið lá í Hreppslaug og kynnin endurnýjuð af því ágæta fólki sem þar heldur úti þjónustu. Fengum stóran og heitan pott útaf fyrir okkur og Frikki dró upp forláta Cadbury´s súkkulaði sem var dreift á mannskapinn. Tekin mynd af stykkinu fyrir blómasalann, sem er fjarri góðu gamni.
Menn voru sælir og kátir að loknum góðum degi. Rúsínan í pylsuendanum var að Ágúst fann aftur sundskýlu og handklæði sem hann hafði gleymt í Hreppslaug síðast þegar við vorum þar - en á móti kemur það lambasparð í pylsuendanum að hann týndi bíllyklinum sínum einhvers staðar á leiðinni frá Lundi að Fitjum. Menn spurðu hann, miskurteislega, hvað hann hefði verið að gera með bíllykil í pung sínum á hlaupaleiðinni - hann væri ekki einu sinni á bílnum í ferðinni. Við þessu hafði Ágúst fá svör sem vænta mátti. Einnig má spyrja að því hvers vegna pungurinn var opinn í hlaupinu, en við sem vorkenndum prófessornum vorum ekki að nudda salti í sárin og létum málið niður falla.
Góður dagur að baki og menn bíða spenntir næsta leggs: Síldarmannagatna.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.