Sigurvegari

Skrifara líður eins og sigurvegara. Meira um það seinna. En tildrög þessarar tilfinningar voru þau að upp úr kl. 17 miðvikudaginn 25. júní á því Drottins ári 2014 mættu til hlaups þessir einstaklingar: Flosi, próf. Fróði, dr. Jóhanna, Bjarni Benz, Einar blómasali, Tobba, Magnús Júlíus, Ó. Gunnarsson, Kári og skrifari. Nokkuð er um liðið síðan svo ágætur hópur mætti til skipulegs hlaups á vegum Samtaka Vorra og standa vonir til þess að nú liggi leiðin upp á við (eða þannig). Við karla klæddumst hlaupafatnaði í Útiklefa og var skipst á glensi og gamni. Ég sagði þeim söguna af því þegar Saungvari Lýðveldisins týndi nærhaldi sínu í Útiklefa og spurði: "Strákar! Hafið þið séð nærbuxurnar mínar?" Þegar skrifari bauð honum nærbuxur félaga okkar, Þorvaldar, fussaði hann og sveiaði og sagði að enginn maður með snefil af sjálfsvirðingu gengi í svona nærfatnaði.

Gengið til Brottfararsalar og málin rædd um stund. Á Plani sýndi prófessorinn ýmis skurmsl sem hann hafði hlotið við að detta á Reykjaveginum, brotinn putta og hrufluð hné. Skrifari lýsti yfir sorg sinni yfir að hafa misst af fallinu. Svo var lagt upp í ferð án fyrirheits og enginn vissi hvert skyldi haldið. Þó mátti merkja kvíða á prófessornum um að nú myndi dr. Jóhanna píska hann enn verr í brekkunni upp að Perlu en seinast; þá voru farnar fjórar ferðir ("segi og skrifa: FJÓRAR FERÐIR") frá göngustíg og alla leið upp, og niður aftur. "Nú hljóta það að verða fimm ferðir," sagði prófessorinn áhyggjufullur. En þó vakti það honum gleði að Ó. Gunnarsson yrði tekinn fyrir líka.

Við vorum nokkrir rólegir, Bjarni, Tobba, Einar og skrifari, og ekki langt undan voru Flosi og Maggi. Blómasalinn malaði einhver ósköp alla leiðina, fyrir honum er málbeinið mikilvægasta líffærið í hlaupum, meðan aðrir telja sig hafa meira gagn af fótunum við að mjaka skrokknum áfram veginn. Það verður nú að segjast eins og er að skrifari hafði töluverðar áhyggjur af hlaupi dagsins, búinn að vera latur og slappur og ekki alveg viss um hvernig hlaupið yrði. Því kom það honum glettilega á óvart að ekki einasta hélt hann í við skárri hlaupara Samtakanna eins og Einar og Bjarna, heldur beinlínis dró hann þá áfram og leyfði þeim að hanga í sér alla leið inn í víkina hennar Jósefínu. Áður en þangað kom var hins vegar Frikki kaupmaður búinn að ná okkur og hljóp eins og eldibrandur í áttina til þeirra Fróða og Jóhönnu, vissi ekki greyið hvað beið hans í þeim félagsskap.

Í Nauthólsvík er ákveðin hefð fyrir því að ganga og leyfa lakari hlaupurum að ná sér. Það var og gert nú. Hlíðarfótinn fetuðu saman blómasali, Benz, Tobba, skrifari og Kári. Þetta var bara giska gott, skrifara leið eins og hann flygi áfram, svo léttur var hann í spori. Um þetta leyti uppgötvaði hann að hann væri sigurvegari, yfirvann eigin leti og draugshátt, fór út að hlaupa með góðu fólki og uppskar þessa góðu tilfinningu. Hlaup eru besta geðlyfið!

Til þess að halda upp á sigurinn ákváðum við Benz að lengja um brýr á Miklubraut og tókum útúrdúrinn með stæl. Farið hjá Akademíunni og spáð í hvað fengist fyrir nýju koparniðurföllin á Gamla Garði. Svo var það Suðurgatan og yfir hjá Landsbókasafni og um Melana tilbaka til Laugar. Skrifari kom fyrstur af fjórmenningunum á Plan og var fagnað af Flosa og Magnúsi tannlækni. Teygt og skrafað.

Farið í Pott. Að þessu sinni mætti Magnús í Pott og sátum við lengi og ræddum lífeyrismál og séreignarsparnað út frá útspili Seðlabankans. Einnig var upphugsuð vísbendingarspurning fyrir Ó. Þorsteinsson í næsta sunnudagshlaupi. 

Engar fregnir eru af afdrifum prófessorsins, dr. Jóhönnu og Ó. Gunnarssonar.  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Bara til minnis: spurningin hefur með bílnúmer að gera.

Kári Harðarson, 25.6.2014 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband