Þýzka fyllibyttan

Fólk talar ósköp óvarlega á hlaupum, harla vel þó vitandi að allt sem sagt er fer í annála. Svo var og í hlaupi dagsins. Meira um það seinna. 

Í sólskini, 12 stiga hita, einhverjum andvara, voru eftirtaldir mættir til hlaups: próf. Fróði, Flosi, dr. Jóhanna, Rúna, Ó. Gunnarsson, Jörundur (seinn), skrifari, Ingi - svo bættust Haraldur, Frikki og Snorri við síðar í hlaupinu. Erfitt var að finna sér snaga til þess að hengja reyfin á fyrir hlaup. Prófessorinn upplýsti í Brottfararsal að hann væri skráður í eitthvert grískt ofurmaraþon í haust og búinn að fjárfesta í forláta drykkjarvesti. Ágúst sagði íbygginn: "Já, það er miðvikudagur í dag, það þýðir bara eitt: langt." 

Menn dóluðu sér af stað og fóru rólega. Á Ægisíðunni varð sumsé Rúnu á að spyrja: "Hvar er þýzki maðurinn með dálæti á því góða í lífinu?" Jóhanna svaraði að bragði: "Hann er líklega í vinnunni, hann var ekki kominn heim þegar ég fór í hlaup." "Um hvern ertu að tala?" spurði Rúna á móti. "Manninn minn," sagði Jóhanna. Þá sagði Rúna: "Nei, ég er að tala um þennan s.k. stórkaupmann sem fór til Berlínar og hefur verið að senda okkur myndir af bjórglösum."

Þannig getur komið upp meinlegur misskilningur. Og enda þótt skrifari minnti þær á að allt sem sagt er á hlaupum færi á Netið sinntu þær því ekki og hlupu áhyggjulausar áfram.

Hlaup þróaðist fljótlega þannig að þau hin skildu skrifara eftir og hann fór fetið í fullkominni einsemd. Á Nauthóli fóru þau flest hver inn á Hlíðarfót, en skrifari hélt áfram á Flanir, Ristru Flanir, og setti stefnu á Suðurhlíðar. Þar um slóðir voru hlauparar í brekkusprettum frá Perlu og niður að brú og upp aftur, þvílíkur kraftur í þessu fólki, sem sumt hvert var fremur feitlagið. Þetta sannar það sem við Kári og Einar blómasali höfum alltaf sagt: feitt fólk getur vel hreyft sig!

Tíðindalítið í brekkunni upp að Perlu, farið niður Stokk og hjá Gvuðsmönnum og þá leið vestur úr. Ég sat um stund í Potti með Jörundi sem var kominn tilbaka eftir Hlíðarfót. Ég kvaðst vera ánægður með að hann hefði enn á ný horfið til prentarastarfa, ekki væri vanþörf á, framundan væri löng Brusselsför. Svo kom Frikki og falaðist eftir starfskröftum okkar við vínuppskeruna í haust.

Í fyrramálið rennur stund sannleikans upp, þá verður stigið á vigt. Mikið vorkenni ég ónefndum stórkaupmönnum í Vestbyen sem hafa verið að belgja sig út af snitsel og bjór sl. viku.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband