Fáeinir hlauparar hyggja á gagnaðgerðir

Það var mánudagur að loknum síðasta legg Reykjavegar undir styrkri forystu Helmuts og dr. Jóhönnu. Á Reykjavegi gengu Jörundur prentari og Helmut 16 km á 7 klst. - en kjöftuðu víst út í eitt, og tóku marga útúrdúra og skógarferðir svo að gangan varð kenski óþarflega löng. Þau hin hlupu, dr. Jóhanna og próf. dr. Ágúst og e-r tveir með þeim, og luku glæsilegu hlaupi á 3 klst. Engu að síður voru bæði Helmut og Ágúst mættir í hlaup mánudagsins. Aðrir mættir: Flosi, Ó. Gunnarsson og skrifari. Fleiri voru ekki mættir. 

Skrifari hugsaði sem svo: ég hef syndgað mikið að undanförnu og kannski kemst ég eitthvað áleiðis í Sgerjafjörð og þaðan heim aftur. Á var nokkuð gott veður, 8 stiga hiti, bjart, sólarglenna öðru hverju, og þetta leit ágætlega út. Illu heilli hengdi Helmut sig á skrifara og fór jafnhægt og hann. Skrifari hugsaði: "Hvað, ætlar maðurinn ekki að fara að drífa sig og hlaupa með alvöruhlaupurum?" En nei, hann hljóp við fót og fór sér í engu óðslega.  Flosi tengdi sig við þá Ólaf heilbrigða og próf. Fróða, en við Helmut héldum okkar ótrúlega tempói. Maður setti stefnuna á Skítastöð og hugsaði sem svo: gott væri að hvíla hér. Þegar þangað var komið var engin ástæða til að hvíla og því áfram haldið. Ekki einu sinni í brekkunni upp í Nauthól til hennar Jósefínu var ástæða til að hvíla, við Helmut brunuðum þetta áfram af krafti. En eftir 4 km er hefð fyrir smá slaka. Gengið um stund og svo sameinuðumst við Flosa, sem var á e-u óskilgreindu flögri á þessum slóðum. Prófessorinn og Ó. Gunnarsson farnir áfram og luku hefðbundnum föstudegi.

Jæja, við fórum Hlíðarfót og vorum gizka ánægðir með frammistöðu okkar. Hlaupið nokkuð stíft um nýja stíga og yfir hjá Gvuðsmönnum, og svo viðstöðulaust út að Akademíu, þar var að vísu rölt því að þar er mjög á fótinn. En eftir það bara sett á fullt stím um Mela og alla leið að Sundlaug Vorri. Hlaupið jafnaðarlega á hefðbundnu 6 mín. tempói til heiðurs Jörundi prentara. 

Þessa dagana er allt fullt í Sundlaug Vesturbæjar og varla hægt að skjóta inn einum kjafti í Pott, hvað þá að fylla pott með kjaftaglöðum einstaklingum eins og tíðkuðust hér í frægðartíð Samtaka Vorra. Er þá ekki að undra að undan fæti halli. en við því eru ráð. Nú hefur Jörundur prentari lagt á ráðin um gagnárás gegn KR sporti með auglýsingaherferð sem er hönnuð af Bigga Jóga, allur áróðurstexti saminn af skrifara og veggspjöld prentuð af Prentara Lýðveldisins. Við sættum okkur ekki við að það sé vaðið yfir okkur á skítugum skónum á þrjátíu ára afmæli Samtaka Vorra!  

Á morgun er hefðbundið miðvikudagshlaup: spurt verður hvar ónefndur Stórkaupmaður í Vesturbænum heldur sig. Er hann búinn að jafna sig eftir langvarandi dvöl meðal bjórdrykkjufólks í Austur-Þýzkalandi? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kílómetrarnir voru um 23. Hlaupararnir 3.30. tveir ónafngreindir heita Sigurbjörg og Hlynur.

Jörundur (IP-tala skráð) 21.5.2014 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband