Garmin greiddur að fullu

Það var upplýst á eternum í dag að ónefndur stórkaupmaður í Vesturbæ Lýðveldisins væri búinn að greiða bláfátækum barnakennara uppsett verð fyrir forláta Garmintæki, sem samkvæmt verðlista á Amazon hefði átt að fara á miklu hærra verði. Um það var rætt á Plani fyrir hlaup hvernig kaupin gerast á Eyrinni, téður stórkaupmaður heimavið að múra svalir, en þessir mættir til hlaups: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, Magnús tannlæknir, Tobba og skrifari. Hér upplýsti prófessorinn að Garmin tækið hans væri hætt að virka, hætt að taka tungl. Þá gall í barnakennaranum: "Gerðu bara eins og ég. Tékkaðu á prísnum á Amazon, láttu stórkaupmanninn vita að hann sé að kaupa Garmin tæki við gjafvirði. Skiptir engu máli þótt það sé ónýtt. Hann tekur ekki eftir því. Hann kann ekki á Garmin tæki." 

Jæja, það var fagurt veður fyrir hlaup, sól, stilla og ábyggilega 12-14 stiga hiti. Sumir vildu fara stutt og hægt í tilefni af Icelandairhlaupi á morgun, en prófessorinn vildi fara minnst 69 í tilefni af kjöraðstæðum. Skrifari setti markið á Suðurhlíðar. Lagt upp með bjartsýni í farteskinu. Léttleiki í liðinu framan af hlaupi.

En svo kom þessi hefðbundna skipting: prófessorinn setti upp hraðann, Maggi og barnakennarinn þar á eftir, svo skrifari og loks var bókasafnsfræðingurinn einhvers staðar að baki. Hlaup leit vel út, gott tempó og menn bara sprækir. Markmiðið var að geta hlaupið hindrunarlaust alla leið til Jósefínu. Það gekk upp, en hitinn var svakalegur og lýsið rann í lítratali. Þeir Flosi og Maggi beygðu af og fóru Hlíðarfót, en skrifarinn, sem er einn einbeittur karl, hélt sig við sín markmið að taka Suðurhlíðar og hélt því áfram upp Flanir, Ristru Flanir þar sem Lúpínan vex svo fagurlega ár hvert.

Hann sá að prófessorinn var að hringsóla nærri brúnni yfir Kringlumýrarbraut og svo birtist Sif Jónsdóttir langhlaupari í e-m óskilgreindum hlandspreng, manneskja sem maður hélt að heilbrigðisvísindin væru búin að afskrifa sem hlaupara. Jæja, skrifari fer upp brekkuna í Suðurhliðum, en það skal játað að stundum var gengið. Einhvers staðar á þessum kafla fór vísa flutt í Morgunpotti að herja á skrifara, svofelld:

Fljóðið unga sem fagurt var
forðaðist þunga getnaðar,
en Árni slunginn á sér bar
eistu, pung og þessháttar.

Þá vitið þið það, svona erum við Húnar í Morgunpotti: pornodogs. Það var kjagað áfram upp brekkuna og upp að Perlu, en svo datt maður niður Stokk hjá Dælu og Gvuðsmönnum. Eftir það var þetta eiginlega bara keyrsla, lýsið rann taumlaust og það var sveittur og einmana maður sem snöri til Laugar eftir átakahlaup.

Það var farið að fækka aðkomufólki í Laug, en utanVesturbæjarfólki hefur fjölgað mjög í Laug Vorri eftir að Nýi pottur kom. Örlygshöfnin nánast tóm, þar sat barnakennarinn, svo bættist Tobba í hópinn, Kári og loks kom Helgi aðstoðarskolli í MK ásamt dóttursyni, Helga Jökli. Áttum gott spjall saman um íbúðakaup og hjólaviðgerðir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband